11.03.1949
Efri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

126. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. meira en orðið er, en ég vildi aðeins endurtaka það, sem ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar, að þetta er alveg eins orðað og segir í lögunum, það stendur svona í lögunum. Hitt er svo annað mál, hvort það mega vera þeir, sem veiða aflann. Hér er um að ræða skemmtiveiðar að miklu leyti, skemmtiveiðar, sem stundaðar eru, af efnuðu fólki, og það er sannarlega ekki of gott til þess að bera þennan skatt. Ég vil benda á það, að ég veit ekki betur, en að það eftirlit, sem komið er á vegna atvinnuvega, — ég veit ekki betur, en að sá kostnaður, sem af því leiðið, sé greiddur af atvinnuveginum sjálfum. Það eru engar tekjur, sem hið opinbera hefur af þessum veiðum. (ÞÞ: Útflutningsgjald.) Það eru ekki nein rök fyrir þessu máli, því þó að eitthvert útflutningsgjald sé greitt af laxi, þá er það svo hverfandi lítið, og það er hreinn og beinn smásálarskapur — hreinn smásálarskapur, ef það á að fara að drepa málið af þessari ástæðu.

Hv. frsm. tók það fram, að veiðimálastjóri væri ráðinn til 5 ára og það væri því ekki hægt að breyta þessu, fyrr en hann hefur verið allan ráðningartímann. En eins og ég hef þegar tekið fram, þá er ekki verið að taka neitt af honum, þó að hann verði fluttur yfir í aðra stofnun. Hann getur starfað alveg sjálfstætt, þó að hann sé fluttur yfir í Atvinnudeild háskólans. Hitt er alveg út í bláinn, að fjvn. eigi að fara að benda á húsnæði handa veiðimálastjóra. Það er blátt áfram hlægilegt.

En ef ekki er hægt að gera þessa leiðréttingu, ef ekki er hægt að stíga svona smátt spor til niðurskurðar á útgjöldum ríkisins, þá er varla við því að búast, að stigin verði stór spor í stærri málum.