11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram, að ég er alveg samþykkur áliti hv. þm. Barð., að það væri eðlilegast við afgreiðslu þessa máls í þinginu, á hvern veg sem hún nú verður, að þetta frv. og það stjfrv., sem lagt hefur verið fram í hv. Nd., um breyt. á l. nr. 42 frá 1948, fylgist að, því að þar er í báðum tilfellum um breyt. að ræða við sömu l., þó að það sé, eins og skiljanlegt er, mikill eðlismunur á þeim, þar sem þau fjalla sitt um hvora gr. l. og allt aðra hluti. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að þetta frv. sé látið bíða eftir afgreiðslu frv. í hv. Nd. eða hitt frv. látið bíða eftir afgreiðslu þessa frv. Mér er sama út af fyrir sig, hvor aðferðin verður höfð.

Þetta frv. er að efni til, eftir því sem ég hef lítillega kynnt mér það, að nema úr gildi þær hömlur, sem hafðar hafa verið á ferðum Íslendinga til útlanda. Það er aðalefni frv., þótt fleira sé þar nefnt. Og þessu atriði er ég fyrir mitt leyti mótfallinn, og skal ég lýsa því hér og færa rök fyrir því.

Það eru nokkrar líkur til þess, þó að það hafi ekki fengizt upplýst til hlítar, að sumir íslenzkir þegnar eigi eitthvað af fjármunum erlendis, sem ekki hafi verið gefnir upp á hinn venjulega og löglega hátt. Það hefur að vísu ekki fengizt um það nema nokkrar upplýsingar enn sem komið er — væntanlega meiri seinna —, en það er vitanlegt, að ef svo er, sem ég hef fulla ástæðu til að ætla, mundu þeir, sem þessa peninga eiga, hafa allt aðra aðstöðu til þess að ferðast um og nota sér þá, og gætu þeir því farið hindrunarlaust leiðar sinnar á erlendum vettvangi. Þess vegna hefur verið sett í l. nr. 42 frá 1948, að hver, sem fer af landi burt, skuli gefa tollyfirvöldunum sundurliðaða skýrslu um það, hve mikinn gjaldeyri þeir hafi með sér og hvernig þeir hafi aflað sér hans, og skuldbindi sig til þess að afla ekki gjaldeyris á sérstakan hátt, sem þar er nánar til tekið. Ég er ekki í vafa um, að í gr., sem hv. þm. Barð. talaði um, liggur heimild til þess að banna mönnum að fara til útlanda, sem ekki gera grein fyrir sínu ferðalagi eða sinni gjaldeyrisöflun á þann hátt, sem þessi gr. l. gerir ráð fyrir, því að það væri tilgangslaust að setja þetta ákvæði í löggjöfina, ef ekki væri heimild fyrir viðskiptan. að banna mönnum að fara utan, ef þeir gefa ekki þessar upplýsingar.

Ef þessum lið gr. er kippt burtu, þá er þar með um leið kippt úr höndum n. öllum möguleikum til þess að hafa eftirlit með því, að gjaldeyris til ferðalaga sé aflað á löglegan hátt, en það álit ég nauðsynlegt að n. hafi.

En til þess að skýra, hversu stranglega n. hefur farið í að stöðva menn í þessum ferðalögum, skal ég geta þess — ég hef að vísu ekki skýrsluna við hendina, en ég held, að ég muni það — rétt —, að það hafi verið veitt leyfi til utanferða án gjaldeyris á tímabilinu frá 15. marz til 1. okt. rúmum 2 þús. manns, — rúmum tvö þúsund manns! Það þýðir, að á 5 mánuðum rúmum hafa þess vegna fengið að fara til útlanda 4 þús. manns, því að önnur 2 þús. fóru með gjaldeyrísleyfi, eða 13–14 menn á dag að meðaltali. Það verður því sannarlega ekki sagt, — að viðskiptan. hafi með þessum framkvæmdum sínum stöðvað ferðir Íslendinga til útlanda á þennan hátt. Ég get ekki séð það. Enda hef ég það fyrir satt, að hún framkvæmi þessar reglur sínar á þann hátt, að ef færðar eru líkur fyrir því, hvað þá heldur sönnur, að gjaldeyrisins sé aflað á löglegan hátt, þá hefur hún ekki staðið í vegi fyrir því, að þessi ferðalög væru farin. — Að hæstiréttur hafi ráðlagt að gefa ekki út þessa auglýsingu, eins og hv. þm. Barð. vék að, veit ég alls ekkert um. Mér er ekki kunnugt um, að ríkisstj. hafi leitað neins úrskurðar hæstaréttar um þetta mál, og fyrir mín augu eða eyru hefur sá úrskurður ekki komið.

Það er náttúrlega alveg rétt eins og hv. frsm. og fyrri flm. sagði hér áðan, að það er neyðarbrauð að herða á gjaldeyrishömlunum eins og gert hefur verið. Víst er það neyðarbrauð. En af hverju erum við að éta þetta neyðarbrauð? Það er af því, að við getum ekki annað eins og við vitum, við höfum ekki gjaldeyri til okkar lífsnauðsynja. Þessi hv. þm. kvartaði yfir því í Sþ., að mjög hefði gengið á birgðir af nauðsynjavörum í þessu landi. Hann kvartaði yfir því, að ekki hefðu verið gefin út leyfi fyrir þeim nauðsynjum, en það er ekki þannig, heldur hefur ekki verið til gjaldeyrir til þess að innleysa þau leyfi, sem gefin hafa verið.

Nú er það svo, að þótt þessar ferðir séu farnar með íslenzkum skipum eða flugvélum, þá kostar þetta allt gjaldeyri, og vissulega er það æskilegt að geta bakmarkað þennan gjaldeyri eins og mögulegt er, meðan þörfin fyrir notkun hans á öðrum sviðum er jafnmikil og hún er nú. Ég tel þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt, í fyrsta lagi vegna gjaldeyristakmarkana, að hafa í l. einhver ákvæði, sem gefi viðskiptan. eða einhverjum aðila svipaða aðstöðu til stöðvunar ferðalaga eins og gert er nú. Og í öðru lagi álít ég það nauðsynlegt til þess að tryggja það, að ekki verði notaður illa fenginn gjaldeyrir í þessu skyni. En sé hans aflað á venjulegan og löglegan hátt og með ekkert farið í felur, þá er hægt að gefa viðskiptan. það upp, og þá geri ég ráð fyrir, að hún leyfi notkun hans á frjálsan hátt.

Hvað gert er í þessu efni í Englandi og Danmörku, skal ég ekki segja neitt um. En ég efast um, að til útlanda hafi farið fleiri þaðan miðað við fólksfjölda heldur en héðan hafa farið utan. En eins og ég sagði áðan, minnir mig, að það sé nokkuð jafnstór hópur, sem hefur farið héðan á þessum rúmum fimm mánuðum, sem ekki hafa haft gjaldeyrísleyfi og hinir, sem hafa haft það, eða samtals 4.000 manns eða 30. hver maður. Ef hv. þm. geta sýnt fram á, að t.d. í Englandi og Danmörku hafi fleira fólk verið á ferðinni til útlanda, en 30. hver maður, þá sé ég ástæðu til þess að athuga, hvort ekki sé hægt að losa eitthvað um þau ægilegu höft, sem eru hér á landi.