03.05.1949
Efri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

204. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að hv. 4. landsk. vissi ekki um þetta mál í fjhn., mun vera sú, að ekki hefur náðst til hans á þeim tíma, sem var til stefnu, þar sem ég rak mjög á eftir frv. Hins vegar ætti það ekki að koma að sök, því að nm. hafa óbundnar hendur um málið.

Það er hverju orði sannara, að tóbakið er ígildi nauðsynjavöru, og ég get fúslega játað, að ég hef enga ánægju af að standa að þeirri hækkun, sem hér er farið fram á. En þegar talað er um fjármálaástandið og ástæðurnar fyrir því, að þessa leið þarf að fara, þá held ég nú, að síðasti ræðumaður eigi þar sinn snara þátt, ekki síður en aðrir, og má segja, að þar eigi hver högg í annars garði, sem setið hafa á þingi síðustu ár og staðið að því, sem þar hefur verið gert, en um slíkt þýðir ekki að sakast nú.