03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

204. mál, einkasala á tóbaki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. gaf í skyn, að það þyrfti sem fyrst að koma frv. áfram, því að ella væri hætta á, að menn færu að kaupa tóbaksvörur, þar sem þeir fengju þær ódýrari. Með þessu er hann að gefa í skyn, að honum sé kunnugt um það mikla tóbak, sem sagt er, að komi frá Keflavíkurflugvelli út um allt land og frá skipum. Honum er vafalaust ljóst, að því meiri munur sem er á verðinu innanlands og þessum tóbaksvörum, sem flytjast þessa leið inn í landið, því meiri freisting er það fyrir menn að útvega sér tóbakið eftir þessum ódýrari leiðum. Það, sem ég vildi spyrja um nú og hæstv. fjmrh. getur svarað, er það, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að reyna að tryggja ríkinu þessa hækkun með því að koma í veg fyrir, að menn nái í þetta ódýra tóbak, því að það leiðir af sjálfu sér, að hækkun á tóbakstollinum verður því aðeins tekjur, að landsmenn kaupi dýra tóbakið, en fari ekki inn á þá leið að ná sér í ódýrara tóbak. Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að taka sem mest fyrir þá smyglsölu, sem á sér stað og langmest ber á á Keflavíkurflugvelli og líka á sér stað á skipum, sem til landsins koma?