03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

204. mál, einkasala á tóbaki

Gísli Jónsson:

Ég skal vera stuttorður. Út af ummælum hv. 1. þm. N–M. (PZ) vildi ég segja nokkur orð. Í fyrsta lagi sneri hann út úr orðum dómsmrh. um þetta atriði, því að orð hans var á engan hátt hægt að skilja eins og hann ákvað í ræðu sinni. Hæstv. dómsmrh. sagði, að eðlilegt væri, að menn reyndu að kaupa ódýrari vöru, ef þeir ættu von á, að þetta hækkaði, og hefur hann sjálfsagt átt við þær vörur, sem þegar í dag eru í smásölu í landinu. Í tilefni af því vil ég spyrja hæstv. fjmrh., hvernig verði með þá vöru, sem þegar er seld út í búðirnar um allt land. Verður hún seld með þeirri álagningu, sem gildir í dag? Og ef viðkomandi aðilar hækka hana, hver fær þá þann ágóða? Því að vitanlega liggur mikið af tóbaksvöru í búðunum, sem ekki er eign ríkisins, heldur kaupmanna, sem hafa keypt hana hjá ríkinu, og það eru þær vörur, sem hæstv. ráðh. vísaði til, þegar hann hélt ræðu sína. Þetta er töluvert atriði, og vildi ég því heyra hjá hæstv. fjmrh., hvernig þetta hefur verið áður. Er verðlagseftirlitið það öruggt, að það geti séð svo um, að sú vara, sem liggur í búðunum, verði ekki hækkuð, eða er hugsað til að leyfa þessa hækkun og láta hana ganga til ríkisins?

Fullyrðingum hv. 1. þm. N-M. um það, að hér ætti sér stað mikið smygl, bæði í skipum og annars staðar, vil ég algerlega mótmæla. Hann ber þungar sakir á tollstjóra og hans menn, en þyngstar sakir á þá menn, sem afla fjár fyrir þjóðarbúið, og er það fullkomlega ósæmilegt af manni eins og hv. 1. þm. N-M., sem situr hér á margföldum launum, — algerlega ósæmilegt. Ég veit, hve þessir menn fá mikinn gjaldeyri: Ég hef verið við togaraútgerð og veit, hvað sjómenn koma með um borð, og get borið um, að þetta er sagt út í bláinn, og væri sæmra fyrir hv. þm. að nota tíma sinn hér til annars, en að bera íslenzkum sjómönnum slíkt á brýn. Um Keflavíkurflugvöllinn veit ég ekki, en ég veit, að gjaldeyrir sá, sem íslenzkir sjómenn fá úti, er svo takmarkaður og útflutningurinn einnig frá þeim löndum, sem siglt er til, að slíkt væri ómögulegt, enda allt annað, sem sjómenn vilja, en að stunda smygl.