04.05.1949
Neðri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

204. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að tefja umr. um þetta mál. En það er of kunn skoðun mín í þessu máli til þess, að ég þyrfti hér að taka til máls þess vegna. En ég tók nú til máls vegna þess, að hv. 2. þm. Reykv. (EOl) var að gera grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls og ég hygg fyrir hans flokk, og þykir mér sú grg. mjög einkennileg. Það er ekkert undarlegt, þó að ég greiddi atkv. á móti þessu frv. Ég hef krafizt þess og legg til, að greiðslujöfnuður verði fenginn á fjárl. á allt annan hátt, en með nýjum álögum, en það er með niðurskurði, og það hefur verið fellt. Þess vegna hefði ég ástæðu til að greiða atkv. á móti þessu frv. En mér þykir undarlegt, að þeir hv. þm., sem hafa hiklaust greitt atkv. gegn því, að greiðslujöfnuður yrði fenginn á fjárl. með því að skera niður útgjöld, skuli vera á móti því, að jöfnuðinum verði náð með nýjum álögum. Ég sé ekki, að það séu nema tvær leiðir eftir, þegar niðurskurðarleiðinni er sleppt, annaðhvort að jafna hallann með nýjum álögum eða með því að auka skuldir. Er það síðari leiðin, sem hv. 2. þm. Reykv. vill, að farin sé? Aðra hvora leiðina verður að fara.