09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

173. mál, eignarnámsheimild á Efri-Skútu og Neðri-Skútu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Náttúrlega eru nú fleiri jarðir eftir í Siglufirði í einkaeign en ein, þ.e. Dalirnir og Siglunes, þó að Skúturnar verði eign bæjarins. En það er ekki eftir nema ein jörð í einkaeign, sem liggur að landi Siglufjarðarkaupstaðar og er að nokkru leyti að byggjast út frá Siglufirði, alveg eins og Skútujarðirnar. Og mér er það dálítið hulin ráðgáta, hvers vegna sú jörð er hér ekki tekin með, sem er Höfn, og það því fremur sem eigendur hennar eru ekki búsettir hérlendis nema að litlu leyti. Og það aukaverðmæti, sem stöðugt verður til, eftir því sem Hafnarland byggist, verður ekki aðeins eign eigendanna, heldur eign manna búsettra erlendis. Ég veit, að það hefur staðið til oftar, en einu sinni að gera kaupsamninga um Hafnarjarðirnar, og hafa þeir strandað á þeim eigendum, sem erlendis eru búsettir, og þess vegna tel ég ástæðu til að hafa þessar jarðir í frv. Og vil ég, að eftir þessa umr. verði það athugað gaumgæfilega, með því að tala við hv. þm. Siglf. og með því að athuga aðstæður þarna, hvernig þetta Hafnarland er að verða þarna að bæjarlandi og að bærinn þarf að fá það til eignar og að erfiðara er að kaupa þetta land af eigendum þess, af því að þeir eru fleiri en einn, og að miklu hentugra er að fá það með eignarnámi. Ég er sannfærður um, að ef bærinn fær þetta land nú með eignarnámi, fær hann það ódýrara, heldur en þegar lengra liður, og að það verður skaði fyrir bæinn, að þetta bíði.