08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

100. mál, jeppabifreiðar

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því, að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að kostnaður við störf þeirrar n., sem eftir frv. er ætlazt til, að kosin verði, greiðist af hlutaðeigandi aðilum í réttu hlutfalli við þátttöku þeirra í n., en þessir aðilar eru Búnaðarfélag Íslands, stjórn Stéttarsambands bænda og landbúnaðarnefndir Alþingis. Ég tel þetta ákvæði ákaflega óeðlilegt um þessar sérstöku stofnanir, sem Alþ. gerir að skyldu að annast starf í þessu efni, að ákveða á Alþ., að þessi kostnaður skuli lagður á þær, og vil ég flytja brtt. um það, að þessi kostnaður við þessi störf, ef einhver verður, verði greiddur af þeim, sem fá jeppana flutta til landsins, og að hann verði greiddur með söluverðinu. Ég hygg, að það sé ekki óeðlilegt, en hitt sé óeðlilegra, að greiða þennan nefndarkostnað t.d. með alþingiskostnaði eða leggja hann á Stéttarsamtök bænda. Ég vona, að þessi brtt. valdi ekki ágreiningi, því að hún er eðlileg samkvæmt eðli málsins. Vildi ég mega fá augnabliksfrest til þess að skrifa hana upp.