06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég játa það, að þetta frv. lýtur að máli, sem má kalla stórbrotið, og ef það nær fram að ganga, verða vafalaust mörg orð töluð um rétt þess og þýðingu. Ég skal þó láta mér nægja að segja aðeins örfá orð. Ég vildi aðeins á sérstakan hátt gefa bendingu um það til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hér er um að ræða hækkun á benzíni, sem er töluvert almenn, þar sem lítt kemur til greina, á hvaða benzíni á að hækka skattinn. Því að það er talsvert atriði, að skatturinn komi fyrst og fremst til með að mæða á þeim bifreiðum, sem eru einn þátturinn í hinu sællífa sportlífi Íslendinga, þ.e. drossíunum, sem eru ákaflega margar og þola satt að segja talsvert háan benzínskatt, og þegar þurrð er í ríkissjóði, þá má hækka á þeim. Að því leyti, ef einhver slík flokkun gæti átt sér stað, þá væri ég hlynntur frv. En svo eru önnur farartæki, sem allt annað er um að segja, og á ég þar við þau flutningatæki, sem flytja nauðsynjavörur, og kemur það bæði niður á framleiðendum og neytendum, ef skatturinn er hækkaður á þeim. Ég nefni þar t.d. bíla, sem flytja eina aðalþurftavöru kaupstaðanna, mjólkina. Ef hækka á skattinn á benzíni til slíkra nauðsynlegra farartækja, þá er um alvarlegt mál að ræða og dýrt að fara þessa leið, sem frv. gerir ráð fyrir, og þarf þetta ekki skýringar við. Þá vildi ég spyrja hv. n., sem fær málið til meðferðar og hv. þdm., hvort þeir geti ekki hugsað sér, að skatturinn á benzíni hækki eða lækki eftir því, hvernig farartæki er um að ræða, hvort um er að ræða nauðsynjaeyðslu eða sporteyðslu, og þetta álít ég stórvægilegt atriði, sem varðar mjög dýrtíðina og veldur erfiðleikum fyrir framleiðendur og neytendur, ef skilningur er ekki sýndur á þessu.

Annað atriði er það, að frv. er mýkt með því, að miklu af þessari fjáröflun eigi að verja í brúasjóð og til viðhalds vega, því að hluta skattsins á að verja til þessa samkv. 4. gr. Það, sem á að renna í brúasjóð, mun fyrst og fremst fara til Þjórsárbrúar, enda er nú svo ástatt, að við hana verður að ljúka, og er frv. réttlætanlegt frá því sjónarmiði, þótt ekki verði flokkuð þannig hækkunin, að minna mæði á hinum daglegu pílagrímsferðum um Krýsuvíkurveginn og öðrum slíkum ferðum, en frv. er náttúrlega borið fram af illri nauðsyn, og verða má, að það svari nauðsynlegum tilgangi. — B-liður 4. gr. er afsleppt og þreytulegt orðatiltæki. Vegamálastjóri hefur kvartað undan því, að það skorti fé til viðhalds veganna, en ekki má heldur loka augunum fyrir nauðsyn nýrra vega, þar sem þörf krefur. Hér var einu sinni settur lagabálkur eftir rannsókn fagmanna um samgöngur Rvíkur og Suðurlands, en ekkert hefur úr því orðið nema undandráttur og málseyðing. Þarna eru sem sagt til staffírug l., en ekkert er gert til að framkvæma þau, og svo kemur þetta fry. um viðhald og umbót veganna. Það er treyst á það, að þolinmæði Íslendinga sé svo takmörkuð, að það komi af sjálfu sér, að menn þreytist og andstaðan hverfi. En ég hefði álitið óforsvaranlegt af mér, ef ég minntist ekki á, að þarna er ýmislegt, sem mér þykir auðsætt, að mætti fara betur út í. Ég nefni t.d. b-lið 4. gr. Það væri engu síður þörf á að verja verulegu fé til nýbyggingar á þjóðvegum, eftir því sem nauðsyn krefur. Líku máli gegnir um brúargerð, en óþarft er að taka fram, að það sé í 1. flokki að ljúka við Þjórsárbrú.

Ég lofaði því í upphafi að tala ekki langt mál, og tel skyldu mína að standa við það. Ég mun ekki treystast til annars, vegna þess að frv. er borið fram af illri nauðsyn, en að ljá því fylgi mitt að meira eða minna leyti. En mér er þá ekki heldur sama, hvernig ýmislegt fer þar úr hendi, t.d. í sambandi við undanþágur og hvernig fénu er varið. Við höfum allt of lengi unað svo lífinu, að framkvæmd þessara mála væri eins og hráskinnsleikur og undir tilviljun komið, hvernig starfshögum landsmanna væri háttað. En því færri peningar, því nauðsynlegra að ákveða af viti, hvað á að sitja fyrir og hvað má bíða, og það þarf að ákveða af Alþingi, engu síður en efnalítill og hugall bóndi tekur ákvarðanir um hvað eina að vandlega yfirlögðu ráði, er hann býr sig undir veturinn að hausti til.

Ég skal svo standa við orð mín um að tala ekki lengur og láta máli mínu lokið.