06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Mér datt í hug út af ræðu þm. Eyf., þegar hann talar um, að rétt sé að skattleggja benzín vegna þess, hvað ferðapelinn er hátt skattaður, að ekki væri þá úr vegi að skattleggja bara útsýnið eða vegina sjálfa. Það er t.d. nokkuð algengt í Bandaríkjunum, að brýr séu skattlagðar. Í þessu frv., sem fjhn. hefur flutt eftir beiðni ríkisstj., eins og venja er, án þess að nm. séu bundnir með afstöðu sína til málsins, er ekkert nýtt nema benzínskatturinn. Hins vegar er ég á móti þessum skatti og álít alla skattaaukningu vera ranga fjármálastefnu, því að það er ekki hægt að leggja á skatt öðruvísi ,en þeir komi fram sem aukin dýrtíð. Ég vil því taka undir þau ummæli, að það sé hreint öfugmæli að leggja á aukna skatta til þess að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Þessi skattur er, eins og allir aðrir skattar nú upp á síðkastið, lagður á til að halda niðri dýrtíðinni, en í raun og veru er hann ekki annað, en bein — þó að vísu grímuklædd — gengislækkun. Þeir menn, sem kjósa því þessa stefnu heldur en að láta krónuna nú þegar fá eðlilegt gengi, svo að útvegurinn geti staðið undir sér, þeir vita ekki, hvað þeir gera. Ég veit ekki, hvort þessi benzínskattur er í sjálfu sér nokkuð verri en aðrir skattar, og það getur vel verið, að hann sé ekki óeðlilegur, þó að þess verði að gæta, að mikið af okkar benzíneyðslu er af nauðsyn og í beinu sambandi við atvinnuvegi okkar. Hafi benzínskatturinn verið of lágur, hefði átt að vera hægt að lækka aðra skatta um leið og hann var hækkaður, t.d. þá skatta, sem notaðir hafa verið til vegaviðhaldsins eða eru samsvarandi þeim, ef hugmyndin er, að þessi skattur verði notaður til þess.

Annars mun ég ekki setja fótinn fyrir þetta frv., eins og högum er háttað, en taldi rétt að láta þessa skoðun mína í ljós. Hins vegar getur vel svo farið, að ég setji að skilyrði fyrir fylgi mínu við frv., að benzínskömmtunin verði afnumin, því að hún hefur aldrei komið að neinum notum, heldur aðeins verið kostnaður á ríkinu.