07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar ég hreyfði flugvélabenzíninu í gær, var það af þeirri ástæðu, að í 1. gr. frv. segir, að hækka eigi benzínskattinn upp í 31 eyri, en ekki sagt annað en að sú hækkun ætti við allt benzín, líka flugvélabenzín. Nú er ekki um neina undantekningu að ræða í reglugerð, svo að hæpið er, að flugvélabenzín geti verið tekið þar út úr. Þannig leit líka Alþingi á 1937, þegar samþ. voru lög um benzínskatt eða hækkun á innflutningsgjaldi af benzíni, því að þá þótti nauðsynlegt að bæta inn í orðunum „öðru en flugvélabenzíni“. Þess vegna hélt ég, að það, sem þótti nauðsynlegt 1947, væri það einnig núna. En nú upplýsir ráðh., að þetta verði nánar tekið fram í reglugerð og þess vegna þurfi ekki upptalningin að vera fyllri, en hún er hér.

Ég bað n. að athuga möguleika á að selja benzín um allt land á sama verði. Það eru nú ekki nema þrír eða ef til vill fjórir aðilar, sem selja benzín í landinu, svo að ekki er í marga staði að snúa sér um upplýsingar. Jafnframt er vitað, að 4/5 af öllum fólksbifreiðum, svokölluðum lúxusbifreiðum, sem við erum allir sammála um að hækka benzíntollinn við, eru í Rvík. Ef því hægt væri að selja benzín á jöfnu verði á öllu landinu, mundi afleiðingin af því verða sú, .að hækkunin kæmi frekar niður á þessum bifreiðum en vörubifreiðunum, sem dreifðari eru um landið. Þetta hefur hv. n. ekki athugað eða hefur a.m.k. ekkert látið frá sér heyra um þetta atriði, sem ég vildi þó gjarnan fá upplýst, hverjir möguleikar eru á.

Þá bað ég einnig hv. n. að athuga, hvort ekki væru möguleikar á að selja benzínið með tveimur lítum, annað handa lúxusbifreiðum og hitt handa þeim bifreiðum, sem við framleiðsluna vinna. Þetta veit ég, að gert er í Englandi og Svíþjóð og hefur gefizt þar vel. Þetta tel ég þó vera hæpnari leið og vil því ítreka hina fyrri.

Að öðru leyti vil ég vísa til þess, er ég sagði í gær, en þó ítreka það, að ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa tekið framlag til brúasjóðsins upp aftur. Ég gleðst yfir því, að vonandi hafa allir hv. þm. Sjálfstfl. snúið þar frá villu síns vegar, því að mikil þörf er á að brúa þær mörgu ár og fljót, sem enn eru óbrúuð, og brýr kosta meira en ætla má, að veitt verði á fjárl. eins árs. Ég vil einnig láta í ljós ánægju mína yfir því, að þeir menn, sem ekki vildu í vetur hækka benzínskattinn, eru nú farnir að sjá þörfina á því. En mig undrar jafnframt, að þeir skyldu ekki sjá það í vetur, að þörf væri á hækkun yfir allt árið. — Ég vildi sem sagt fá að vita hjá hv. n., hvort hún hefur athugað þessar leiðir og hvað hún hefur um þær að segja. Einnig væri gott að fá nánar upplýst um flugvélabenzínið.