25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

118. mál, raforkulög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Í 33. gr. raforkulaganna eru taldir 4 tekjuliðir fyrir sjóðinn: a. tekjuafgangur rafmagnsveitna ríkisins, sbr. 11. gr. b. vextir af fé sjóðsins; c. framlag úr ríkissjóði að upphæð 2 millj. kr. ár hvert, og d. önnur framlög úr ríkissjóði, eftir því sem ákveðið kann að verða í fjárlögum. Þetta var í 33. gr., og af þessu er svo raforkusjóðurinn til orðinn. Í 35. gr. er svo ákveðið, hvernig skuli verja fé sjóðsins:

1. til að koma upp mannvirkjum;

2. til að mæta halla, sem verður á mannvirkjum fyrstu árin;

3. til lána til að koma upp vatnsvirkjunum á einstökum stöðum.

Hefur verið sett reglugerð af ráðh., hvernig veitt skuli af heildarupphæð þeirri, sem varið er í þessu skyni árlega, og held ég, að það hafi verið 150 þús. síðastliðið ár. En svo er deiluatriðið: Á að setja alla þá bændur í dreifbýlinu hjá, sem ekki geta notað vatnsorkustöðvarnar né beizlað bæjarlækinn? Eiga þeir ekki að fá rafmagn? Það er ætlazt til, að ræktunarsjóðurinn geti lánað í slíkt. En ég veit, að fé hans er mjög takmarkað, og nú með þeim breytingum, sem verið er að gera, þegar verið er að breyta frá sauðfjárrækt í nautgriparækt og þar af leiðandi mikið um fjósbyggingar, þá eru svo miklar lánbeiðnir, að sjóðurinn annar ekki meiru. Því er reynt að fara inn á aðrar brautir og aðstoða menn, sem verða að nota vélar. En verði brtt. á þskj. 569 samþ., verður aldrei veitt til þessara framkvæmda, nema slíkt verði sett á fjárl., en verði hún felld, er hægt að veita fé eftir 4. lið, þegar framkvæmdir þykja ekki ganga nógu hratt með 2 millj. kr. framlaginu og þingið vill auknar raforkuframkvæmdir. Þess vegna held ég, að það, sem hér um ræðir, sé þetta: Vilja hv. þm. setja alla hjá og útiloka, sem ekki geta framleitt rafmagn handa sér með vatnsaflstöð eða eru, á rafveitusvæði?