25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

118. mál, raforkulög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég heyri að menn deila um skilning á afstöðu meiri hluta iðnn., og vil ég því gera grein fyrir minni afstöðu. Ágreiningurinn er um það, sem kemur fram á þskj. 569, en ágreiningurinn var meiri, eins og kom fram við 2. umr. Milli umr. lá fyrir greinagóð skýrsla frá raforkusjóði, og það var samkv. þeim till., sem 35. gr. var breytt svo sem er á þskj. 550, að ekki þurfi að vera veitt fé á fjárl til að koma upp dieselstöðvum. Við í meiri hlutanum töldum, að ríkið legði þegar svo mikið til raforkumála, að við vildum ekki veita meira, og því gátum við ekki fallizt á þetta. Hins vegar var það ljóst, að raforkuráð var á móti frv., af þeirri einföldu ástæðu, að það taldi ekki nægilegt fé til að veita til dieselstöðva og vildi ekki skerða það fjármagn, sem fyrir hendi er. Hins vegar leit meiri hlutinn svo á, að nokkru fé mætti verja til þessa, og teljum við það tvímælalaust réttlætismál fyrir þær sveitir, sem ekki geta fengið rafmagn með öðru móti, og að styðja bæri menn í slíkri viðleitni. En ágreiningurinn er sá, að við viljum ekki hlaða meiru á ríkissjóðinn og erum því á móti brtt. á þskj. 569.