19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Pétur Ottesen:

Hvað sem fyrirspurnunum líður, virðist nægur tími til þess að taka önnur mál á dagskrá, svo að þau þurfi ekki að bíða vikum og mánuðum saman. Það er því einkennileg ástæða fyrir þessum drætti, að þau séu ekki svo þýðingarmikil. Ég held, að hæstv. forseti geri sér ranga hugmynd um stjórnarhætti vora og þingræðið, ef hann lítur svo á, að hann eigi að haga dagskrá eftir sínu eigin mati á málunum. Þau mál, sem ég hef skírskotað til, hafa beðið síðan 19. okt. og 3. nóv. og hafa ekki enn verið tekin á dagskrá. Ég treysti þess vegna því, að hæstv. forseti sýni þá háttvísi og þann þingræðishug að taka þau á dagskrá við fyrsta tækifæri, svo að þau verði lögð undir dóm Alþ.