09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

120. mál, menntaskólar

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég fæ ugglaust tækifæri til að tala um þetta mál í menntmn., og er því óþarfi að fara að ræða um það á þessu stigi. En þó eru í því ýmis atriði, sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á nú þegar. — Ég vil þá í fyrsta lagi benda á þann mikla ósóma, sem upp hefur verið tekinn á Alþ., að taka hina margþættu umbótalöggjöf, sem sett var á árunum 1945–46, og brjóta hana að nokkru leyti niður og þá fyrst og fremst með því að fresta ýmsum ákvæðum. Ég vil í fyrsta lagi í þessu sambandi minna á tryggingalöggjöfina, þar sem ár eftir ár er frestað framkvæmdum merkrar nýjungar í þeim mjög svo merku lögum, þ.e. kaflanum um heilsugæzlu. Þá má líka minna á lög um opinbera aðstoð við byggingar íbúða í kaupstöðum og kauptúnum. Er búið að fresta merkri nýjung þeirrar löggjafar, þ.e. að ganga frá því á skipulagsbundinn hátt að útrýma heilsuspillandi íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum. Nú er komið að þriðju stórmerku löggjöfinni, sem sett var í tíð fyrrv. ríkisstj., skólalöggjöfinni, og gerð till. um að fresta einu þýðingarmiklu nýmæli í þeirri löggjöf að nokkru leyti. Farið er fram á í þessari till., að Menntaskólinn á Akureyri starfi áfram með sama fyrirkomulagi og var fyrir gildistöku þessara laga, en landspróf gildi til upptöku í þriðja bekk skólans. Fyrir þessari breyt. hafa ekki verið færð nein frambærileg rök. Ég held þess vegna, að það sé tímabært að rifja upp þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir þessari fullyrðingu, og sjá, hvort þau hafa verið frambærileg eða ekki.

Það hefur alltaf gegnum aldaraðir verið talið aðalsmerki íslenzkra menntamála, að framhaldsnám í skólum hefur ekki verið forréttindi ákveðinna stétta. Það hefur alltaf verið svo gegnum aldaraðir, að bændaefni hafa átt þess nokkurn kost, ekki síður en embættismannaefni, að stunda skólanám. Þegar verkamannastétt tók að myndast, var það einnig um sinn, að verkamannasynir áttu þess nokkurn kost að stunda framhaldsnám og ekki miklu síður, en synir ríkismanna. Þetta segi ég, að hafi verið aðalsmerki íslenzkra menntamála og þjóð okkar til mikillar blessunar. En þá er þess að minnast, að frá þessari braut virðist þjóðin vera að hverfa á árunum frá svona 1930 og fram til þess tíma, að þessi löggjöf er sett. Þá var málum svo háttað, að inn í Menntaskólann í Reykjavík, annan af tveimur höfuðskólum landsins, voru menn valdir með samkeppnisprófi, þannig að engin ákveðin einkunn eða frammistaða tryggði mönnum rétt til skólavistar, heldur voru teknir ofan af 25, sem hæstar höfðu einkunnirnar. Þetta var aldrei framkvæmt svona við Menntaskólann á Akureyri, en sótti í sama horfið. Í framkvæmd þýddi þetta forréttindi fyrir vissar stéttir, þ.e. hina efnuðu Reykvíkinga, því að þeir gátu keypt til þess ýmsa menn að sitja með sonum sínum og dætrum og troða í þau, þangað til tryggt væri, að þessi börn gætu tekið gott próf. Ég tala hér af nokkurri reynslu, því að ég hef kennt þessum unglingum og reynt að tryggja, að þeir gætu tekið góð próf, og auðvitað er slíkt hægt með nógu miklum peningum. Afleiðingin af þessu varð svo sú, að nemendur hrúguðust í Menntaskólann á Akureyri, þar sem þar var þá ekki um sömu lokun að ræða og í Rvík. Fyrstu rökin fyrir því að endurskoða íslenzku skólalöggjöfina voru líka þessi vandræði, sem að steðjuðu hvað menntaskólann snerti, og þegar fyrst var. flutt um það þáltill. 1940, var hún rökstudd með því, að komið væri á svo mikið ófremdarástand hvað snerti inntökuskilyrði í Menntaskólann, að þar yrði að hverfa að allsherjar endurskoðun, og væri höfuðverkefni skólamálanefndar að koma skólakerfinu í það horf, að nemendur úr hinum ýmsu gagnfræða- og héraðsskólum landsins hefðu jafna aðstöðu til að komast inn í menntaskóla, og yrði að koma málinu á allt annan grundvöll, þannig að hvorki landfræðileg né fjárhagsleg aðstaða veldi menn í skóla landsins, og við þetta var skólalöggjöfin miðuð.

Ég vil þá hverfa að því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri almenn ósk Norðlendinga að halda gagnfræðadeildinni áfram á Akureyri,, því að þörf væri á því að koma unga fólkinu úr sveitunum í þessa gagnfræðadeild. Hæstv. menntmrh. hefur upplýst, við hvaða staðreyndir þessi rök styðjist, sem ég tel mjög hæpin, en þau eru á þá leið, að aðeins 20 nemendur utan Akureyrar hafi sótzt eftir að komast í þessa gagnfræðadeild. En hver er aðstaða Norðlendinga til að koma nemendum inn í fyrsta bekk hins 4 ára menntaskóla? Hún er þessi: Í Gagnfræðaskólanum á Laugum geta menn tekið landspróf og fengíð réttindi til inntöku í skólann. Í gagnfræðaskólanum á Húsavík geta menn þreytt landspróf, á Siglufirði geta menn þreytt próf, á Akureyri, Sauðárkróki og viðar, Allir þessir skólar hafa réttindi og aðstöðu til að senda nemendur undir þetta próf. Svo má bæta við, að á Seyðisfirði og Dalvík eru þegar farnir að starfa gagnfræðaskólar, sem á næsta vori geta sent nemendur undir þetta próf. Þá má enn bæta við, að við marga barnaskóla norðanlands starfa nú framhaldsdeildir, og þar geta menn komizt nokkuð áleiðis að þessum prófum, og mundu flestir láta sér nægja eitt ár að Laugum, Húsavík, Akureyri, Siglufirði eða Sauðárkróki til undirbúnings því að þreyta landspróf. Mér sýnist, að með þessu hafi Norðlendingum verið sköpuð jöfn og góð aðstaða til að koma sonum sínum og dætrum inn í fyrstu bekki hins nýja menntaskóla á Akureyri. En fari svo, að haldið verði áfram að hafa gagnfræðadeild við skólann á Akureyri, er augljóst mál, að þeir nemendur, sem stunda þar nám, fá sérstöðu, forréttindi fram yfir aðra nemendur, þar sem þeir njóta handleiðslu menntaskólakennara í tvö ár áður en þeir koma inn í hinn eiginlega menntaskóla. Þeir þreyta svo próf við hlið nemenda úr öðrum skólum, en þegar þeir koma þar inn, koma þeir þar sem kunnugir öllum tökum og hafa þannig betri aðstöðu en hinir. Og svo er þess ekki að dyljast heldur, að sá mjög eðlilegi háttur hefur verið upp tekinn að láta kennara við menntaskólana á Akureyri og í Rvík annast landsprófið að verulegu leyti, sem veitir inntöku í menntaskólana. Ég segi sá eðlilegi háttur, því að það er eðlilegt, að það skólastig, sem á að taka við nemendunum, hafi um það að segja, með hvaða undirbúningi þeir koma til stigsins, og óeðlilegt, að kennarar við skóla gagnfræðastigsins ættu að annast prófið. Varla er um aðra að ræða, en kennara til að annast þetta próf, og er þá eðlilegt, að menntaskólakennararnir geri það, því að þeir eiga að taka við þeim, sem prófaðir eru. En þá er augljóst, að að svo miklu leyti sem kennarar Menntaskólans á Akureyri annast prófin, þá fá þeir nemendur, sem áður hafa verið í gagnfræðadeild sama skóla, forréttindi fram yfir aðra nemendur, sem prófið þreyta. Mér dettur ekki í hug, að kennarar Menntaskólans á Akureyri verði neitt hlutdrægir í því sambandi. Síður en svo. En sérhver kennari kennir með sínum hætti og býr til próf og dæmir úrlausnir í samræmi við það. Þess vegna fá þeir nemendur forréttindi, sem notið hafa kennslu þeirra manna, sem útbúa prófin og dæma lausnirnar. Auk þess vil ég minnast á það meginatriði, að ef farið er inn á þessa braut, þá er ég hræddur um, að draga mundi til sama óheillaástandsins og var við Menntaskólann í Reykjavík, þess óheillaástands, að skólinn yrði yfirfullur og svo yrði farið að finna ráð til að takmarka aðgang nemenda. Nú liggur fyrir frv. um að reisa 2 eða 3 nýja menntaskóla, og ef þörfin fyrir þá er fyrir hendi, eins og hv. flm. þess frv. munu halda fram, skyldi þá ekki vera rétt að nota húsnæði Menntaskólans á Akureyri til hlítar fyrir nemendur, sem lokið hafa landsprófi?

Ég skal svo ekki fara um þetta öllu fleiri orðum að sinni. Ég mun fá tækifæri til að fjalla um málið í menntmn. Ég hef nú hlustað á rök hv. flm., en enn þá hef ég ekki heyrt þau rök, sem mér þyki frambærileg fyrir því; að farið sé nú að höggva í menntaskólalöggjöfina, eins og höggvið hefur verið í tryggingalögin og lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og því mun ég verða á móti þessu frv., ef ekki koma fram önnur og sterkari rök, sem með því mæla.