03.05.1949
Neðri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

120. mál, menntaskólar

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Menntmn. var á einu máli um það, að ekki væri ráðlegt að mæla með þessu frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 302. Ég mun þess vegna ekki eyða löngum tíma í að færa almenn rök gegn þessu frv., eins og það er frá hendi hv. flm., og liggja til þess þrjár ástæður. Í fyrsta lagi gerði ég allýtarlega grein fyrir minni afstöðu til málsins við 1. umr. þess. Í öðru lagi eru með nál. á þskj. 611 prentaðar mjög ýtarlegar álitsgerðir, bæði með frv. og móti. Í þriðja lagi hefur hv. frsm. n., þm. N-Ísf., gert grein fyrir því sjónarmiði hennar allrar, að ekki sé æskilegt, að frv. þetta nái fram að ganga í þeirri mynd, sem það er í á þskj. 302. Ég mun aðallega takmarka mína ræðu við það að leiða rök að því, að þótt það sé að vísu veruleg framför að fá frv. samþ. í þeirri mynd, sem lagt er til á þskj. 611, þá sé það einnig í þeirri mynd óæskilegt. En eins og fram kemur í nál. er afstaða minni hl. n. sú, að hann mun að vísu fylgja brtt. þeirri, sem menntmn. er sammála um, en jafnvel þó að hún verði samþ., mun minni hl. n., hv. þm. A-Sk. og ég, samt sem áður greiða atkv. gegn frv. við lokaatkvæðagreiðslu um það. Þegar frv. er komið í þá mynd sem verður samkv. brtt. n., þá er ætlazt til þess, að næstu tvö árin eigi að starfa við Menntaskólann á Akureyri miðskóladeild, þ.e.a.s. ef húsrúm leyfir, enda starfi þá lærdómsdeild skólans samkvæmt l. um menntaskóla, nr. 58 frá 7. maí 1946.

Ég vil í fyrsta lagi gera grein fyrir þeim rökum, sem mér hafa verið lögð í hendur um málið. Það er sem sé eitt meginatriðið í röksemdafærslu þeirra, sem hlynntir eru frv., að það sé svo gott og mikið húsnæði við Menntaskólann á Akureyri, bæði til kennslu og einnig til dvalar fyrir nemendur, sem æskja heimavistar, að sjálfsagt sé að nota það. Því hefur einnig verið haldið fram og er haldið fram í grg. hv. flm., að Gagnfræðaskólinn á Akureyri sé ekki við því búinn að taka á móti þeim nemendum, sem til þessa hafa sótt neðstu bekki menntaskólans. Þetta þurfum við að líta á, og lítum nú bara á staðreyndirnar, sem eru þessar: Í Menntaskólanum á Akureyri eru níu kennslustofur og tvær af þeim eru í kjallara hússins, og það er óhætt að fullyrða það, að að dómi allra skólamanna er kjallarinn undir gamla skólanum á Akureyri lítt hæfur fyrir kennslustofur. Það mun óhætt að fullyrða það, að kennarar séu yfirleitt sammála um það, að úr þeim kennslustofum beri að flytja með kennslu strax og tækifæri leyfir. Utan skólans eru svo 3 kennslustofur í húsnæði, sem keypt var handa skólanum fyrir nokkrum árum, en áður hafði það húsnæði verið einkaíbúð. Að sjálfsögðu hefur að því ráði verið horfið út úr neyð vegna húsnæðisvandræða að kaupa einkaíbúð og breyta henni í kennslustofur. Mér skilst einnig á grg. frá kennurum Menntaskólans á Akureyri, að þeir eins og aðrir séu sammála um það að, að því beri að stefna, að hætt verði að nota kennslustofurnar í þessu einkahúsi, sem skólinn hefur keypt, enda er það gefið mál, að enginn skólastjóri og engir kennarar munu óska eftir að verða að hafa skóla sinn til heimilis á tveimur stöðum. Það hefur ætíð gefizt illa og er andstætt öllum kennurum og öllum kennslustörfum. Einnig er þá á það að líta, að kennslustofur, sem sniðnar eru upp úr gömlum íbúðum, eru að sjálfsögðu ekki æskilegar. Ég hygg þess vegna, að það muni allir vera sammála um það, að ef eitthvað um hægist með húsnæði Menntaskólans á Akureyri, þá sé rétt að hætta við að nota þær kennslustofur, sem eru utan hins eiginlega skóla. Málið stendur þá þannig, að skólinn hefur níu kennslustofur og þar af tvær í kjallara. Nú er þarna um fjögurra vetra skóla að ræða samkvæmt núgildandi l. Allir eru bekkirnir tvískiptir og hafa verið um langt skeið og stundum þrískiptir. Mega þá allir sjá, að húsnæði til kennslu er ekki aflögu í skólanum. Þó að þeir væru aðeins tvískiptir, þá væri mikil þörf á því að hafa eina kennslustofu fyrir ýmiss konar sérkennsluiðkanir, eins og skólamenn þekkja af reynslu. Því er haldið fram, að auðvelt sé að auka við húsnæði til kennslu í Menntaskólanum á Akureyri. Það er rétt. Það er áreiðanlega auðvelt að auka við kennsluhúsnæðið þar. En ef einhverjir hv. þm. eru þeirrar skoðunar, að slíkt sé bara að segja það, þá eru þeir áreiðanlega haldnir hinni mestu villu. Ég held, að ef hv. þm. fara að hugsa málið í alvöru, þá ætti þeim að verða ljóst, að ef taka ætti gömlu heimavistarbygginguna og breyta henni í kennslustofur, þá verður að rífa skilrúm, klæða gömlu loftin og veggina og mála. Ekki er heldur ósennilegt, að eitthvað verði að breyta hita- og ljósalögnum og að þá komi fleiri eða færri breytingar til greina. Við skulum gera okkur það ljóst, að það að breyta gömlu heimavistarbyggingunni í kennslustofur þýðir gerbreytingu á húsinu, en það þýðir aftur, að leggja verður fram til þess stórkostlega fjárhæð. Mér er að vísu kunnugt um það, af því að svo vill til, að ég þekki hvern krók og kima í húsinu, þar sem ég hef verið þar sem bæði nemandi og heimavistarmaður, að það er tiltölulega auðvelt að búa til tvær nýjar stofur, en eigi hins vegar að bæta við fjórum stofum, eins og virðist vera áætlun þeirra, sem um málið hafa fjallað fyrir norðan, þá þarf að gera mjög víðtæka breytingu á húsinu. Ég held, þegar á þetta er litið, að það mundu vera nokkuð hæpin rök að segja, að vegna þess að það sé svo mikið kennsluhúsnæði í Menntaskólanum á Akureyri, þá eigum við að veita nokkur afbrigði frá fræðslul. Þetta er misskilningur, því að húsnæði er ekki fyrir hendi, nema fram verði lagt stórfé. Það fullyrði ég, og ég fullyrði líka, að allir, sem eitthvað þekkja til skólamála, mundu verða samdóma kennurunum á Akureyri um það, að rétt væri að hætta að nota það húsnæði, sem er nú notað utan skólans.

Næstu röksemdirnar eru þær, að það sé svo mikið heimavistarhúsnæði á Akureyri. Það er nú svo. Það er rétt, að á Akureyri er verið að byggja stórhýsi fyrir heimavist, en það er jafnrétt, að þessu verki er ekki lokið. Það kemur fram í umsögn kennaranna, að þeir gera sér vonir um, að á komanda hausti verði pláss í nýju heimavistinni fyrir 30–40 nemendur. við höfum nú nokkuð séð af því, þm. og allur landslýður, að áætlanir um framkvæmdir standast ekki alltaf vel. Það gæti vel svo farið, að á næsta hausti yrði ekkert pláss tilbúið í nýju heimavistinni. Meðan svo er, verður að nota þá gömlu, og meðan hún er notuð, verður henni ekki breytt í kennslustofur. Mér sýnist, þegar á þetta er litið einnig, að nokkuð mikið fljótræði sé að ætla að breyta skólalöggjöf landsins vegna þess, að svo mikið heimavistarhúsnæði sé til á Akureyri. Það kemur vonandi, en það er ekki komið.

Þá er komið að því, að sagt er, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri geti ekki tekið við þeim nemendafjölda, sem hefur verið í fyrstu tveimur bekkjum menntaskólans, en í fyrstu tveimur bekkjunum hafa samkv. upplýsingum kennaranna á Akureyri verið um 100–110 nemendur. Það er nú eiginlega með því furðulegasta, sem ég hef séð í grg. fyrir frv., að staðhæfa það, að gagnfræðaskólinn geti ekki tekið við þessum nemendum, því að það er upplýst með umsögn skólastjórans og vottorði héraðslæknisins á Akureyri, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri geti ekki aðeins tekið við 110 nemendum, heldur 260 nemendum og það án þess að þrengja að sér. Akureyri býr sem sé við þá mjög ánægjulegu staðreynd að hafa nóg húsnæði fyrir sína gagnfræðaskólanemendur og getur nú þegar farið að framkvæma hina nýju fræðslulöggjöf til fulls, þannig að börnin koma 12 ára eða á því ári, sem þau verða 13 ára, úr barnaskólanum í gagnfræðaskólann. Og svo vel er fyrir öllu séð þarna, að skólinn getur þegar tekið við þessum nemendum og innt af höndum allar þær skyldur, sem fræðslul. leggja á herðar honum í þeim efnum. Betur að svo mætti segja um Reykjavík, en hér er ástandið þannig, að í raun og veru er enginn gagnfræðaskóli til. Allar kennslustofur eru tví- og þrísettar, og unglingadeildin verður nú að starfa í húsnæði barnaskólanna. Mér finnst þess vegna meira en hæpið að ætla að fara að breyta skólalöggjöf landsins til þess að leyfa Menntaskólanum á Akureyri að starfrækja miðskóladeild, m.a. á þeim forsendum að það vanti húsnæði í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Ég vildi mjög eindregið mælast til þess við hv. þm., að þeir kynntu sér mjög ýtarlega og vel öll plögg, sem prentuð eru með nál. á þskj. 611, því að ég veit, að þá sannfærast þeir um það, að allt, sem sagt er um húsnæði í sambandi við þetta mál, er byggt á misskilningi. Ég efa það ekki, að hv. þm. endurskoði sína afstöðu til fulls, þegar þeir sjá, að þarna er um misskilning að ræða.

Næsta atriði, sem ég vil benda á, er það, að í brtt, hv. menntmn. er gert ráð fyrir því, að við Menntaskólann á Akureyri starfi miðskóladeild. Án þess að ég ætli að væna hv. þm. um það, að þeir geri sér ekki ljóst, hvað miðskóladeild er, skal ég taka það fram, að miðskóladeild er þriggja ára skóli, deild gagnfræðastigsins, sem tekur við, þegar börnin hafa lokið barnaskólaprófum, sem fram fara eftir nýju fræðslul., þegar barnið er 12 ára eða á því ári, sem það verður 13 ára. Og í þeirri deild á barnið að vera í þrjú ár og þá er miðskólapróf þreytt og landspróf fyrir þá, sem það vilja, ef þeir ætla að fara í menntaskóla eða kennaraskóla. Nú hefur mér alltaf skilizt það á þeim norðanmönnum, að þeir reikna með tveggja ára gagnfræða- og miðskóladeild, en eftir orðalagi frv. á þetta að vera þriggja ára deild, og þá er skólinn ekki sex ára skóli, heldur sjö ára skóli. Mér er nær að halda, að þetta yrði ekki framkvæmt svona, heldur yrði þetta framkvæmt þannig, að það yrði aðeins um tveggja ára skóla að ræða. Þá yrði aðstaðan slík, að börnin færu úr barnaskólunum og væru eitt ár á Gagnfræðaskólanum á Akureyri eða öðrum skóla, sem veitti sömu fræðslu. Eftir þetta eina ár ætti svo Menntaskólinn á Akureyri að tína úr þeim skólum nokkra nemendur á því ári, sem þeir verða fjórtán ára, og taka þá til sín. Mest mundu þessi viðskipti fara fram við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Þetta mundu verða mjög óeðlileg og slæm viðskipti, því að þá mundi aftur verða horfið að því ráði, sem þekkt er hér í Reykjavík, að framhaldsskólinn hefði þá aðstöðu að tína út nokkra nemendur úr skólum, sem yrðu honum hliðstæðir, sem sé, menntaskólarnir mundu tína úr gagnfræðaskólunum áhugasömustu og beztu nemendurna. Það álit mundi skapast, að gagnfræðaskólar væru annars flokks stofnanir, en menntaskólar fyrsta flokks stofnanir. Og þetta er mjög óæskilegt og óeðlilegt. Og það var einmitt þetta, sem svo mjög bar á í Reykjavík og á Akureyri, þetta samband menntaskólanna við aðra skóla, sem var ein orsök þess, að nauðsynlegt þótti að endurskoða skólalöggjöfina í heild. Og ég hef áður fært rök fyrir því, hversu heppilegt slíkt hafi verið. En ég vil undirstrika það, að þetta er ákaflega óheppileg aðstaða, sem Gagnfræðaskólinn á Akureyri yfirleitt er settur í. Því að sannarlega á gagnfræðastigið að fá þá aðstöðu í skólakerfinu, að það hljóti fulla virðingu og sæmd og það verði skoðað sem eðlilegur og sjálfsagður liður í skólakerfinu, en ekki sem hjáleiga við hliðina hjá öðrum skólum, sem í gagnfræðadeild hjá sér keppa við þetta stig.

Þá er bent á, að þessa miðskóla eigi að hafa til þess að sjá fyrir sveitafólkinu, sem vill komast í skóla. Sú staðreynd liggur fyrir, að í 1. bekk Menntaskólans á Akureyri eru aðeins 10 nemendur, sem heima eiga utan Akureyrar. „Af hverju“, segir nú einn hv. þm. Þeir segja það, kennararnir á Akureyri, að það hafi verið af því, að það hafi verið auglýst svo seint. „Já, vitanlega“, segir nú hv. þm. Ég skal segja honum betur af þessu. Það liggur ekki fyrir, að nokkur einasti nemandi hafi orðið að hætta við að fara inn í gagnfræðadeild Menntaskólans á Akureyri í haust vegna þess, að seint hafi verið auglýst, hvort menntaskólinn tæki við þeim eða ekki. Hitt er staðreynd, að gagnfræðaskólar eru að vaxa upp um allt Norðurland, sem leiðir til þess, að þörfin á því, að slíkir nemendur fari til Akureyrar, verður með ári hverju minni. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr., að fræðsla gagnfræðastigsins er veitt á Raufarhöfn, Húsavík, á Laugum í Þingeyjarsýslu, Siglufirði, að nokkru leyti í Ólafsfirði, að nokkru leyti á Dalvík, á Sauðárkróki og á Reykjum í Hrútafirði. Á öllum þessum stöðum eru þessir skólar að vaxa upp og á fleiri stöðum. Nú er verið að hefja unglingafræðslu í sambandi við barnaskólana. Þetta skapar sveitunum þá aðstöðu, sem þær eiga að fá og þurfa að fá, að geta haft sína unglinga í sveitaskólum eins lengi og hægt er, þ.e.a.s. allt fram að miðskólaprófi, allt fram að því, að þau þreyta inntökupróf í menntaskóla, kennaraskólann og aðra sérskóla. Það er meiningin með fræðslulögunum að skapa þessa aðstöðu, og hún á að skapast og er að skapast. Og það er ekki vegna neinna auglýsinga, að aðeins 10 nemendur komu í 1. bekk Menntaskólans á Akureyri, heldur vegna þess, að það er verið að fullnægja þörf fyrir þessa kennslu á annan hátt, en verið hefur. Látum svo vera, að einhverjir úr sveit á Norðurlandi vildu koma sínum unglingum að gangfræðanámi á Akureyri, þá liggur eðlilega leiðin inn í gagnfræðaskólann, en ekki í menntaskólann, fyrr en að loknu gagnfræðaprófi.

Þá koma aftur fram frá meðhaldsmönnum frv. röksemdir um heimavist. Nú ætla ég að varpa því fram við þá hv. þm., sem flestir eiga börn á þroskaskeiði: Ef þeir senda börn sín í kaupstað 12–13 ára gömul, mundu þeir þá fyrst og fremst vilja koma þeim í heimavíst, þar sem eru unglingar allt fram til 20 ára aldurs? Ég mundi heldur vilja koma þeim fyrir hjá einstökum mönnum, og þannig kjósa menn yfirleitt. Og reynslan er líka sú, að yfirleitt reyna foreldrar að koma börnum sínum á þessum aldri fyrir hjá einstökum mönnum. Og það tekst furðu vel. Og ef einhverjir vildu t.d. koma þeim í heimavist við þennan skóla og gætu ekki komið þeim fyrir annars staðar, þá er því til að svara, að heimavist Menntaskólans á Akureyri er ekki fullbyggð. Síður en svo. Og sú heimavist er byggð upp í æði mörgum deildum, þannig að ekki sé hafður samgangur á milli deilda. Má vera, að það sé skynsamlegt. Hvað væri nú í veginum fyrir því, að ríkið, sem á þessa byggingu, legði Gagnfræðaskólanum á Akureyri til eina þessa deild fyrir þá nemendur, sem kynnu að sækja úr sveitum til þess skóla og vilja og þurfa að komast í heimavist? Ég sé ekkert í veginum fyrir því, og sérstaklega vegna þess, að húsið er byggt upp til þess að vera í aðgreindum deildum, þar sem enginn samgangur er á milli. Ég held, að þær séu sex heldur en fjórar. Ég held, að það séu ekki neinar röksemdir fyrir því að breyta skólakerfinu af þessum sökum. Ef á að breyta heimavistum á Akureyri vegna þeirra nemenda, sem þurfa að stunda gagnfræðanám, þá skulum við láta gagnfræðaskólann þar fá eitthvað af þessum herbergjum, sem menntaskólinn hefur, þegar til kemur. En þau eru ekki til enn.

Áður en ég skil við þetta atriði um miðskólana, verð ég að segja nokkur orð í viðbót. Það vita allir, að miðskólar, og skólar gagnfræðastigsins yfirleitt, eru kostaðir með öðrum hætti en menntaskólar. Það vita allir, að ríkið eitt ber kostnaðinn af menntaskólunum, en að ríki og sveitarfélög bera kostnað af skólum gagnfræðastigsins. Hvers vegna á að taka nú út úr einn skóla gagnfræðastigsins, þegar ríki og sveit eiga að greiða kostnað allra hliðstæðra skóla sameiginlega, en láta þennan eina skóla gagnfræðastigsins vera að öllu leyti kostaðan af ríkinu? Ég fæ ekki skilið það. Og kennarar hafa önnur launakjör við menntaskóla, en við miðskólana. Kennarar við menntaskóla eru í hærri launaflokki, eins og eðlilegt má vera. En hér er farið fram á, að stofnað sé til þess, að kennarar við miðskóladeild í menntaskóla kenni á hærri launum en þeir, sem kenna sömu kennslu við gagnfræðaskóla. Þetta er óeðlilegt og mundi leiða til þess, að kröfur kæmu frá kennurum gagnfræðastigsins yfirleitt um að fá að njóta sömu launa og kennarar gagnfræðastigsins við menntaskóla, ef hér væri farið að mismuna kennurum gagnfræðastigsins. — Enn þykir mér rétt að benda á í þessu sambandi, að hér á Alþ. hafa verið uppi allháværar kröfur um það að fjölga menntaskólum. Þessi hv. d. hefur að vísu tekið þann kostinn að vísa því máli frá að svo stöddu, og hygg ég, að það hafi verið vel ráðið. En þegar við vorum að greiða atkv. um að vísa því máli frá, var það ekki af því, að við vildum torvelda mönnum að komast í menntaskóla. Síður en svo. En við höfðum það í huga, að það er verið að breyta menntaskólunum báðum, afnema þeirra gagnfræðadeildir að lögum, og þá ætti í þeim báðum að fást aukið húsrými fyrir hina eiginlegu menntaskólanemendur. Og það er rétt, að þegar heimavistin við Akureyrarmenntaskólann er komin, þá er hægt að auka kennsluhúsnæðið. Og ég hygg, að eftirspurnin eftir því að komast að menntaskóla muni vaxa að sama skapi, svo að bæði kennslustofur og heimavist skólans verði fullskipað menntaskólanemendum. Og Menntaskólinn í Reykjavík, sem er rúmlega 100 ára gömul bygging, — er ekki stærri en það, að hún rúmar illa þá nemendur, sem vilja komast að skólanum, enda færist þróunin meir í það horf, að Menntaskólinn á Akureyri verði skóli fyrir allt landið, að undanskilinni Reykjavík. Það er kannske ekki óeðlileg þróun og ekki lakara fyrir menn að fara til Akureyrar til menntaskólanáms, en til Reykjavíkur, og þess vegna verður aðsóknin til Menntaskólans á Akureyri meiri og meiri.

Að síðustu vil ég geta þess, að mjög hefur verið haft í frammi við þessar umr. að benda á, hve ágætur skóli Menntaskólinn á Akureyri væri og að allir hans velunnarar hlytu að mæla með því, að hann fengi að halda gagnfræða eða miðskóladeild. Ég mundi verða síðastur manna til þess að draga úr því, að á Akureyri hafi verið hinn ágætasti skóli, þar sem er þessi skóli. Og ég vil sérstaklega minnast þess, að á meðan hann var þriggja ára gagnfræðaskóli undir stjórn Stefáns Stefánssonar, þá hygg ég, að skólinn hafi skipað einhvern allra fremsta sess, sem skóli hefur skipað á Akureyri, ekki af því, að hann var þriggja ára skóli, heldur af því að skólastjórinn hafði hæfileika til þess að stjórna kennurum og hæfileika til þess að stjórna nemendunum og umfram allt afburða hæfileika til að kenna. Þessi skóli var þá fyrirmyndarskóli. – Svo kom Sigurður Guðmundsson að skólanum. Ég hygg, að hann hafi verið mjög ólíkur sínum fyrirrennara að öðru leyti en því, að hann var skólamaður líka. Hann kunni ákaflega góð tök á nemendum, að því er ég bezt fæ skilið, þó að ég þekki hann ekki eins og hinn fyrr nefnda. En Sigurður Guðmundsson var mjög merkur skólamaður. Á hans árum er þessum þriggja ára gagnfræðaskóla breytt í menntaskóla. Og árangurinn af því verður, að þarna skagast áframhaldandi skólastarf, sem er með því fremsta og bezta í landinu — ekki af því, að skólinn væri sex ára skóli, heldur af því, að hann hefur mjög góða forustu. — Það er sem sé ekkert aðalatriði við skóla, hvort hans starf er þrjú ár, fjögur ár eða sex ár. Hvort hann skipar sinn sess með heiðri, fer ekki eftir þessu, heldur fyrst og fremst eftir þeim manni eða mönnum, sem þar stjórna. Ég á hinar beztu óskir til handa Menntaskólanum á Akureyri. Og mín ósk er nú fyrst og fremst sú í því efni, að skólinn megi ætið hafa í stjórnarsessi mann, sem gerir skólann að fyrirmyndarskóla, og að það verði þeir menn, sem ég vona, að verði, sem séu á borð við Stefán Stefánsson eða Sigurð Guðmundsson — hvort sem skólinn starfar í fjögur, þrjú eða sex ár. En hins vegar væri honum enginn greiði gerður með því að fara nú að gera veruleg frávik frá skólakerfinu vegna þessa skóla sérstaklega og stuðla að því, að það verði ekki sú samræmda heild, sem því er ætlað að vera, og koma Gagnfræðaskólanum á Akureyri vægast sagt í mjög óþægilega aðstöðu.

Ég held, að þetta mál hafi verið sótt af of miklu kappi, en ekki forsjá. Mér er kunnugt um, að það er kappsmál ýmissa kennara á Akureyri, að skólinn fái áfram að vera sex ára skóli. Og þeir hafa verið feikilega duglegir í að fá menn til þess að líta svo á, að vegur skólans yrði minni, ef hann færi að starfa eftir nýja skólakerfinu. Og þeir hafa skírskotað til tilfinninga ýmissa mætra manna, sem meta skólann mikils. En þeir mætu menn hafa ekki sett sig inn í þetta mál eins og þurft hefði. — Hv. þm. vil ég einnig benda á þá staðreynd, að þeir menn, sem stjórna íslenzkum skólamálum, fræðslumálastjóri og menntmrn., þeir leggja eindregið á móti því, að frv. verði samþ. í hvaða mynd sem er, hvort sem það er í þess upphaflegu mynd eða þeirri mynd, sem lagt er til á þskj. 611. Ég vil einnig benda á, að sú endurskoðun, sem gerð var á fræðslulögunum, var ekki gerð í flýti. Það var lagt í það mjög mikil vinna, er þeim var breytt. Og þegar undirbúið var frv. um menntaskóla, var uppkast sent kennurum við báða skólana og rætt á sameiginlegum kennarafundi skólanna. Og frá slíkum kennarafundi liggur engin ályktun fyrir um það að hafa löggjöfina um þá á annan hátt en þann, sem lögfestur var. Og sá mjög mæti skólamaður, Sigurður Guðmundsson, var kvaddur á fund í milliþn. í skólamálum, þegar hún var að semja þetta frv. Hann var með henni nokkra daga. Það var rædd með honum hver einasta grein frv., og hann lét ekki frá sér fara nokkurt ágreiningsatriði. Hann féllst á till. n. Og menntaskólakennarar á Akureyri hafa ekki sent mótmæli í þessum efnum á þeim tíma, sem þeir gátu sent þau. Og þeir fengu að fjalla um málið. — Ég held, að hv. þm., sem af eðlilegum ástæðum eru nú ekki á hverjum degi að hugsa um skólamál, ættu að gera sér nokkra grein fyrir því, að þessi mál hafa verið þaulrædd af þar til settum mönnum af ríkisstj. Og ég held, að þeir ættu að kynna sér þeirra skoðanir ýtarlega, áður en þeir ganga inn á þá braut að höggva það skarð, sem hér er stefnt að, í fræðslukerfið.

Ég skal svo á þessu stigi málsins láta útrætt um þetta, en endurtaka þá afstöðu minni hl. n., hv. þm. A-Sk. og mína að við munum greiða atkv. með þeim brtt., sem hv. meiri hl. menntmn. hefur lagt fram á þskj. 611, en þó að hún verði samþ., greiðum við atkv. á móti frv., þegar það kemur til endanlegrar atkvgr. Ég álít, að ekkert frávik eigi að gera frá núgildandi skólalögum hvað þetta atriði snertir.