09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

120. mál, menntaskólar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Þessi brtt., sem liggur fyrir á þskj. 655 frá hæstv. menntmrh., gefur mér tilefni til að standa upp og segja örfá orð.

Ég hef orðið þess var, að hæstv. ráðh. leggur mikið kapp á að koma þessu máli fyrir kattarnef með einhverju móti. Ég hélt, að hann mundi sætta sig við þann kost, sem búið er að þröngva því við 2. umr. málsins, en hann lét þess getið þá, að hann mundi ekki nema staðar við svo búið, og hefur hann nú færzt meira í fang og flutt brtt. í þremur liðum. Ég held, að það þurfi meira, en meðalhugkvæmni til að geta komið fram með svona till., því að hún er svo langt sótt, að ég er hissa, að sjálfur menntmrh. skuli bera þetta fram. Ég tala hér ekki um fyrstu till., því að það er álitamál, hvort það sé ekki eingöngu fræðslumálastjórnin, sem á að dæma um, hvort húsnæðið er nóg eða ekki. Það skiptir ekki máli í raun og veru. En svo kemur b-liðurinn, og mér finnst hann svo athugaverður, að ég skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. hefur komið til hugar að bera hann fram (HÁ: Hann er tekinn aftur.) Ég bið afsökunar, ég heyrði það ekki, ég ætlaði einmitt að fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann tæki hann til baka. En ég skil ekki c-liðinn. Hvað er átt við með óskiptum bekkjum? Ég hélt, að miðskólanám væri tveggja ára nám. Er það meiningin, að það eigi að vera einn bekkur bæði þessi ár? Það hlýtur að vera svo. Það er þá þessi eina deild. Hver er meiningin með þessu orðalagi, að deildin sé með óskiptum bekkjum? Spyr sá, sem ekki veit. Ég hef ekki séð þetta orðalag fyrr. Ef aðsóknin verður það mikil að skólanum, að allir komast ekki fyrir í þessum eina bekk, hvað þá? Ég geri reyndar ekki ráð fyrir, að svo mikil aðsókn verði að þessari deild. Það væri gaman að fá skýringu á þessu hugtaki hér. En ég bið afsökunar á því, að ég skyldi ekki heyra, að hæstv. ráðh. tók aftur b-liðinn. Mér þótti miður, að hann skyldi koma fram, ef svo hrapallega hefði farið, að hann hefði verið samþ.