17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

120. mál, menntaskólar

Hannibal Valdmarsson:

Herra forseti. Það var lítil örugg vitneskja, sem maður fékk gegnum svörin við þessum fyrirspurnum. Ég stend því nokkurn veginn jafnnær eftir það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði. En ég verð að ætla, að það sé samkvæmt orðanna hljóðan, að þessi deild eigi að fá heimild til að starfa í næstu tvö ár, en þá eigi að leggja hana niður, þar sem nýju fræðslulögin eiga að vera komin til fullrar framkvæmdar árið 1951. Ég geri einnig ráð fyrir, að þessi gagnfræðadeild verði látin starfa eftir sömu reglum og aðrir skólar á gagnfræðastigi. Og í trausti þess, að þetta verði svo, greiði ég ekki atkv. á móti þessari undanþágu. Ég álít stefnuna ranga, hvort sem litið er á húsnæðishliðina, uppeldishliðina eða fjárhagslegu hliðina. Það er verið að seilast eftir útgjöldum, en hins vegar hefur þingið verið að emja á sparnað á öllum sviðum, og frá hvaða sjónarmiði sem er, eru rökin á móti þessu máli góð og hrein og skynsamleg rök. Og af því að þetta er eðli málsins, þá er það vafalaust rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að það þýða ekki langar umr. um það. Ég býst við, að menn séu pottheldir fyrir rökum í málinu, og skal ég þess vegna ekki eyða frekar orðum að því.