10.12.1948
Neðri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (3458)

97. mál, almannatryggingar

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að mér virtist sem fram kæmi í ræðu hv. flm. þessa frv. grundvallarmisskilningur á tryggingalöggjöfinni. Hv. flm. sagði, að út frá því væri gengið, að ellilaunin væru miðuð við það að gera mönnum kleift að lifa, en svo er alls ekki. Samkvæmt l. eiga allir að njóta ellilauna án tillits til efna og ástæðna, en í reglum til bráðabirgða er efnahagurinn látinn hafa áhrif á styrkupphæðina. Afleiðingin af því, að l. voru svona hugsuð, var sú, að eðlilegt var að setja ákvæði 13. gr., því að fjöldi þegna var tryggður með öðrum hætti, en með tryggingalögunum; sem sagt allir opinberir starfsmenn voru tryggðir á annan hátt, þegar tryggingalögin komu til framkvæmda og þeir fá allir eftirlaun, og þá er óeðlilegt, að þeir fái það, sem tryggingalögin ákveða. Hitt er rétt, að ákvæði 13. gr. hafa komið hart niður á sumum, svo sem þeim, sem fengið hafa smá heiðurslaun, t. d. póstum o. fl. Ég beini því til n., hvort ekki muni hægt að leiðrétta það á annan hátt en frv. gerir ráð fyrir.