18.12.1948
Efri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Áður en ég sný mér að þessu frv. í heild, langar mig til þess að fá nokkrar upplýsingar um það frá ráðherra, hvort þær 5 milljónir, sem 5. gr. gerir ráð fyrir, eigi að greiðast úr ríkissjóði eða dýrtíðarsjóði. 5. gr. segir, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 5 millj. kr. til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða, en það er sagt í 19. gr., að stofna skuli sérstakan sjóð, til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands, og mætti af þessu skilja, að þessar 5 milljónir ættu að koma úr ríkissjóði. Þetta langar mig til að fá að vita. Þá langar mig einnig til þess að fá að vita það hjá hæstv. ráðh., hvort aðgerðir þær, sem talað er um í 14. gr., 3. og 4. tölul., sé mögulegt að framkvæma. Þar stendur: í 3. lið, að það sé skilyrði fyrir framkvæmd 13. gr., „að skilanefnd telji útgerðarmanni ekki kleift að standa við skuldbindingar sínar eða reka útgerð á heilbrigðum grundvelli án aðstoðar,“ og 4. tölul. setur það skilyrði, „að útgerðarmaður nái viðunandi samningum við lánardrottna sína, að dómi skilanefndar, á öðrum skuldum sínum, til þess að útgerð hans verði rekin framvegis á fjárhagslega tryggum grundvelli.“ Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. og þm., sem að frv. standa, hvort þeir álíta að óbreyttum atvinnuháttum í landinu, að nóg sé, að útvegurinn fái uppgjör skv. þessum lið til þess að verða talinn standa á fjárhagslega tryggum grundvelli, og ef ekki, þá skilst mér, að ekki sé hægt að lána nokkrum manni, þó að hann geti ekki haldið áfram útgerð vegna skulda, því að hinn trausti framtíðargrundvöllur sé ekki til. Ég fæ ekki séð, eins og fjárhag útgerðarinnar er komið, að hún fari á fjárhagslega traustan grundvöll með því að fá lán. Ég er gróflega hræddur um, að þessir liðir í. 14. gr. hafi það í för með sér, að enginn geti tekið lán eftir frv., því að sá grundvöllur, sem ætlazt er til, að sé, er ekki fyrir hendi og ekki hægt að skapa með þessu frv. Þar þarf annað til. Um þetta langar mig til að fá úrskurð hjá hæstv. ráðh., því að hann viðhafði þau orð, að það, að tala um traustan grundvöll hjá útgerðinni, væri eins mikil fjarstæða og að fljúga til tunglsins.

Þá vil ég benda á það, að ég er hræddur um, að erfitt muni nefndinni að gera mismun á venjulegum umboðsstörfum og þeim, sem skatt eiga að greiða skv. 21. gr.

Í 24. gr. er gert ráð fyrir því, að framtal til skatts skuli komið til skattstjóra 30. júní og leggjast á næst 30. des. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að hér í Reykjavík er skattstofan venjulega ekki búin að ganga frá tekju- og eignarskatti um það leyti, og á s.l. ári varð að fresta þessu öllu þangað til þriðja missirið. Það er enginn tími til þess að komast yfir þetta í júlí, og gæti þá farið eins og nú. Hvers vegna ekki að hafa l. þannig, að þau séu framkvæmanleg, svo að það þurfi ekki eins og á s.l. ári að láta allt drasla og gera þetta ekki fyrr en 2–3 mánuðum eftir að það átti að vera búið eins og þá? Í öðru lagi vil ég benda á það, að ýmis sala, sem þarna á að greiða söluskatt af, er þess eðlis, að það er ekki hægt að gera hana upp fyrr en við áramót eða eftir þau. Þar bendi ég á bókaforlögin, sem senda bækur frá sér til umboðsmanna út um land, fá ekki reikningsskil fyrr en um áramót, þá fyrst fá þeir að vita, hvað hefur verið selt og af hverju eigi að borga söluskatt. Þetta mætti líka laga með lítilli breyt. á niðurlagi 27. gr., þar sem er ætlazt til, að ekki þurfi að gera upp fyrr en á áramótum hjá þeim mönnum, sem litla umsetningu hafa. Eins og þetta er nú, þá hlýtur það að leiða til vandræða, en það mætti koma í veg fyrir það með því að gera þarna lítils háttar breyt. Þetta gildir líka um fleiri vörur en bækur. Þetta vildi ég benda n. á til athugunar.

Þá er ég að koma með brtt. við 23. gr., sem kemur síðar fram, og vona ég, að hæstv. forseti hafi ekki á móti því, þótt ég tali um hana nú. En hún er í því innifalin, að aftan við „vikublöð“ komi tímarit, landbúnaðarverkfæri og fóðurvörur, og þetta geri ég þrátt fyrir það að Nd. lýsti því yfir, að þetta ætti að gera með reglugerð, og það er af því, að þetta er ekki hægt að gera með reglugerð. Það er tekið fram í 27. gr., að það sé heimilt með reglugerð að undanþiggja ýmsar vörutegundir söluskatti, ef það er sérstökum erfiðleikum bundið að reikna hann út, annars ekki, og það er alveg áreiðanlegt, að það er ekki neinum sérstökum erfiðleikum bundið að reikna út söluskatt á maís og öðru þess háttar, svo að ef hæstv. ráðh. færi að gefa út reglugerð og undanþiggja fóðurbæti frá þessu gjaldi eða stærri landbúnaðarverkfæri, þá hefur það ekki neina stoð í l. Þetta vil ég líka benda n. á.

Um lögin í heild vil ég segja það, að dýpra og dýpra sekkur þjóðin í dýrtíðarfenið, sem fyrrverandi ríkisstj. skapaði henni og færði hana niður í. Núverandi ríkisstj. ætlaði sér að reyna að stöðva það, að hún sykki lengra en komið var, en henni hefur ekki tekizt það, henni hefur einungis tekizt að minnka hraðann niður í fenið. Það var sagt af munni þess manns, sem telur sig eins konar samnefnara allra sjálfstæðismanna í landinu, „að þetta mætti allt laga með einu pennastriki.“ Ég býst við, að þetta frv. eigi nú að aga þetta allt, vera þetta pennastrik. En frá mínu sjónarmiði er langt frá því, að það geri það, ég er meira en efins í, að það stöðvi sigið niður í fenið. Ég held þess vegna, að hér þurfi allt aðrar aðgerðir en þetta frv. til þess að kippa aftur upp úr feninu, ég held, að það þurfi nýtt pennastrik, og þau mörg, til þess að gera það, og athafnir líka, og þar af leiðandi hef ég enga trú á því, að þetta frv. komi að neinum notum. Ég mun þess vegna láta mig afgreiðslu þess engu skipta, enda þótt ég hafi bent hér á ýmsa ágalla, sem ég tel, að þurfi að laga, ef menn ætla að hafa l. í þeim anda, sem þau eru hér, en þau eru Alþingi til háðungar, ná ekki tilgangi sínum, auka verðbólguna og dýrtíðina og láta verða enn verra að koma mál- unum aftur á réttan kjöl, gera atvinnurekstur í landinu arðbæran.