18.12.1948
Efri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Afgreiðsla þessa máls, eins og það liggur fyrir, er í rauninni ákveðin, en mér þykir þó rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls með nokkrum orðum og það fyrir þá sök, að mér virðist sem afgreiðsla þessara mála, sem nú endurtekur sig fyrir hver jól, fari að gerast nokkuð sögulegur atburður í okkar sögu, og þykir mér þá rétt að skjalfesta afstöðu mína til málsins.

Það ber það með sér þetta frv., hvar för dýrtíðarinnar er nú komið. Það er að mínu áliti einkennandi fyrir þær dýrtíðarráðstafanir, sem gerðar hafa verið fram til þessa dags, að þær eru með öðrum hætti, en dýrtíðarráðstafanir með öðrum þjóðum, a.m.k. nokkuð viða, og þær eru þannig, að það er alltaf verið að stöðva dýrtíðina, þ.e.a.s., það er alltaf verið að segja þjóðinni, að það sé búið að stöðva hana, og meira að segja er sagt, að það sé verið að lækka dýrtíðina með þessum ráðstöfunum, sem gerðar eru. En alltaf heldur dýrtíðin áfram, og í rauninni er það atriði, sem úr sker að mínu áliti, hvort þessar ráðstafanir eru réttlætanlegar eða ekki, hvort það tekst með þessum dýrtíðarráðstöfunum að ráða við ferð dýrtíðarinnar og og koma henni til baka, þangað sem þarf. Við það eru allar dýrtíðarráðstafanir miðaðar, sem gerðar eru af einhverri skynsemd, því ef öllum þessum fjármunum, sem varið er til dýrtíðarráðstafana, er í raun og veru kastað þannig, að ekki tekst að stöðva dýrtíðina eða ráða ferð hennar, þá er fyrirsjáanlegt, að endalokin verða þau, þrátt fyrir allan þann kostnað, sem af því hefur leitt að reyna að stöðva dýrtíðina, og þrátt fyrir það, að þjóðin hefur reytt upp alla sína varasjóði í þetta og allt sitt lánstraust og seinast nú álögur, sem lagðar eru á þjóðina, þrátt fyrir allt þetta virðist mér, að það megi svo fara, að dýrtíðin fari sinn gang og hún láti síðar gera upp sakirnar, þar sem ekkert er gert til að stöðva hana og þar sem allt fer fram skipulagslaust. Raunverulega er það það, sem úr sker, hvort dýrtíðarráðstöfunum miðar aftur á bak eða eitthvað á leið, og hér virðist mér allt hafa farið aftur á bak, - ég þarf ekki að segja, virðist hafa farið aftur á bak, því að því er yfir lýst af hæstv. fjmrh., að þetta sé gert svona sem tilraun til þess að stöðva dýrtíðina. Fyrir ári síðan og undanfarin ár var þeirri stöðvun lýst yfir og lýst yfir, að það ætti að fara að stöðva dýrtíðina. Sannleikurinn er sá, að við hér á Alþ. höfum alltaf stöðugt í þessum dýrtíðarmálum neitað að hugsa um endinn. Þetta dýrtíðarmál hefur aðeins verið hugsað frá degi til dags. Ef það hefur verið hægt að gera einhverjar ráðstafanir, sem líklegt væri að dygðu til næsta dags, þó að ekki væri líklegt, að þær kæmu að haldi lengur, þá er það kölluð bölsýni, ef bent er á, hverjar afleiðingarnar muni verða. Dæmi um það, hvernig við höfum hrakizt undan dýrtíðinni og hvernig við höfum bognað undan henni á alla lund, er raunverulega það, sem minnzt var hér á af hv. þm. Barð. Þegar tekin er ríkisábyrgð 1946, þá seint á árinu, rétt fyrir jól, þá er sagt hér í þessari hv. d., að raunverulega sé þessi ríkisábyrgð engin ríkisábyrgð, það komi vitanlega ekki til mála. Það er þá reynt með því að láta taka ábyrgð á útflutningi kindakjöts, og því er svarað, að það komi alls ekki til mála, hér sé ekki ríkisábyrgð, þetta sé bara verðjöfnun — verðjöfnunin sé sett fram í þessu formi. Hér eru umræðurnar um þetta, og ef menn læsu það, sem ýmsir þm. segja um þetta mál þá, þá býst ég við, að ýmsir þm. kynnu að kippast talsvert við, því að það var m.a. sett að skilyrði, eins og ef til vill ýmsir hv. þm. muna, að skipuð væri 4 manna n., og hún átti fyrir 1. febr. að vera búin að finna grundvöll undir útveginn. Ríkisábyrgð, sem var ekkert nema form, mátti ekki einu sinni standa sem form nema í einn mánuð, og því er yfir lýst, án þess ég vilji fara að tefja tímann með því að lesa það upp, að ríkisábyrgð komi vitanlega ekki til mála. Þá átti næsta ríkisstj. að finna þennan grundvöll, og það átti að mynda ríkisstj. um það. Og ég er eini þm., sem hafði fyrirvara fyrir atkv. mínu, þegar greitt var atkv. um málið hér út úr þessari d., — fyrirvara, sem ég ætla heldur ekki að fara að lesa hér upp. Þetta er ásetningurinn þá. Það átti að vera búið fyrir 1. febrúar 1947 að finna þennan grundvöll. Og nú skulum við gera langa sögu stutta. Hér í þessu frv. eru efndirnar. Af þessu stutta yfirliti, sem vissulega væri þörf að hafa lengra og ýtarlegra, hygg ég þó, að við ættum að geta séð, hvernig við höfum skref fyrir skref hrakizt undan þessari dýrtíð, sem við höfum alltaf verið að segja þjóðinni, að við værum að stöðva og færa niður. Við hófum sem sé alls ekki staðið við þær yfirlýsingar, sem við höfum verið að gefa á hverjum tíma. Það er oft sagt hér á Alþ.: Hvað á að gera? Sannleikurinn er sá, að leiðin í þessu máli er alls ekki auðveld, síður en svo, — þetta er erfiðasta viðfangsefni, sem Alþ. hefur glímt við um áratugi. En eitt virðist mér vera augljóst, og ég ætla að slá því föstu, án þess að eyða tíma í að rökræða það hér í þessari hv. d., að úrslit orrustunnar við dýrtíðina verða því tvísýnni sem orrustan stendur lengur. Við veljum okkur stöðugt verri tíma til að slást við dýrtíðina, eftir því sem við drögum lengur að leggja til orrustunnar, og þetta er vegna þess, að bilið milli þess mögulega framleiðslukostnaðar og þess, sem við fáum fyrir vöruna, verður æ stærra, þannig að átakið er miklu meira, þegar þarf að gera það, með því að láta þetta halda svona áfram, en möguleikarnir til þess að gera það minnka með hverjum degi, og þjóðin verður meir og meir máttvana til þess að gera það átak, sem gera þarf.

Nú virðist mér það auðsætt, einnig til viðbótar þessu, að það er ekki aðeins þetta, heldur er það og annað, skömmtun Alþ. til allra stétta í þjóðfélaginu, þetta fyrirkomulag, að láta þingið sitja aðgerðalaust síðan í haust til þess að semja við allar framleiðslustéttir í þjóðfélaginu. Þessir 52 menn, sem hér sitja, eiga að skammta öllum þegnum og öllum stéttum þessa þjóðfélags. Þetta er ekki hægt — ekki framkvæmanlegt. Það er vitanlega hrein fjarstæða að láta sér koma það til hugar, að hægt sé að taka ábyrgð á atvinnurekstri, sem tugir og hundruð manna reka, alls konar atvinnurekstri, án þess að ríkið ráði nokkru um það, hvernig þessi atvinnurekstur er rekinn. Við erum hér, menn, sem eru á móti þjóðnýtingu, og eins þeir, sem eru með henni, komnir inn á þjóðnýtingu af langversta tagi, og ég efast um, að hún sé til svona í nokkru þjóðfélagi, þar sem annar hefur ábyrgðina, en hinn ræður rekstrinum, þar sem annar tekur gróðann, ef einhver er, en hinn áhættuna. Í þessu öllu saman er að mínu viti slík hugsanaskekkja, að ég get ekki betur séð en svona vinnubrögð hljóti að liða þingið og þjóðfélagið í sundur, og við hefðum kannske gott af að hugsa um það, hvort þetta er ekki komið öllu lengra en við gerum okkur grein fyrir. Það er alveg auðsætt mál, að hvað sem það kostar, þá verðum við að komast út úr þessari svikamyllu af þeirri einföldu ástæðu, að hvað sem það kostar, þá er það ódýrara en að halda þessu áfram. Það er enginn kostur til verri en að halda þessu áfram. En hvers vegna er ekki veitt viðnám? Mér virðist það vera augljóst, að aukning dýrtíðar er vinsæl — krónufjöldinn er vinsæll, en leiðin út úr þessu aftur er óvinsæl. Það er enginn galdur til, til þess að komast út úr dýrtíðarmálum eins og hér er. Að áliti hagfræðinga, eru ekki til nema þrjár leiðir. Það er gengisbreyt., sem kostar nokkrar fórnir, þó að vel sé á öllu haldið. Ég ætla ekki að fara að ræða, hvaða leiðir eigi að fara, það er ekki tími til þess, en vitað mál er það, að það, að leggja út í gengisbreyt., er hin allra mesta yfirsjón, sem nokkurn getur hent, nema hafa alla þræði, sem þar til þarf, milli fingra sér. Ef einn þráðurinn raknar upp, þá fer allur vefurinn með. Það sama er að segja um verðhjöðnunarleiðina, hana er ekki hægt að fara nema með alhliða niðurfærslu. Það er þess vegna leið, sem er óvinsæl, þó að það ætti að vera hægt að gera skuldaeigendum og sparifjáreigendum það ljóst, að jafnvel þótt sparisjóðsbókin sé tekin og stimpluð með vissum afslætti í krónufjölda og skuldabréf á sama hátt, þá vitanlega verða þeir peningar, sem eftir eru, verðmeiri en þeir peningar, sem skuldaeigendur og sparifjáreigendur áttu áður. Það ætti að vera hægt að gera fólkinu það skiljanlegt, að með áframhaldi á þeirri leið, sem við erum nú á, þá tapast miklu meira, bæði af innstæðum og skuldum, heldur en með niðurfærslum af þeim ástæðum, að við erum á þeirri leið, að bæði skuldir og innstæður verða verðminni með hverjum mánuðinum sem líður.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hjálpar til þess að gera peningana miklu verðminni en þeir voru daginn áður en það verður að l. Með sama áframhaldi tapa skuldaeigendur og sparifjáreigendur meira, en ef þetta væri gert í sambandi við verðhjöðnun, en sú leið er ekki fær nema með almennri niðurfærslu um leið. Nú er ekki samkomulag um þá leið af þeirri ástæðu, að það er óvinsælt að gera þessar ráðstafanir, nema það séu hafin í þessu sambandi skipulögð vinnubrögð og það skýrt fyrir þjóðinni, og ég trúi því, að það mundi vera hægt. Ég tel mig hafa þá reynslu af þjóðinni, að ef skýrt er fyrir henni rétt mál, þá sé alltaf hægt að fá hana til að ganga inn á það. Ég tel það ekki afsökun fyrir mig, að þjóðin hafi ekki gengið inn á einhverja leið í dag, ég tel mér skylt að hafa mínar skoðanir og reyna að flytja þjóðinni og fá hana til að ganga inn á þær. Það er ekki að búast við því, að þjóðin ryðji neina nýja braut, ef leiðtogar hennar á Alþ., þessir 52 menn, reyna ekki að benda á nýjar leiðir og leiða hana inn á rétta braut. Nú er ekki neitt samkomulag um þetta, og þar af leiðandi er farið inn á þetta eins og hér er gert í frv. Það er tekin ábyrgð, sem átti að vera aðeins verðjöfnun milli síldarútvegsins og þorskveiðanna til bráðabirgða. Nú er farið inn á þessa leið. Dýrtíðina, sem ríkisstj. ætlaði að stöðva og síðan að færa niður, segist hún nú ætla að reyna að stöðva með þessu frv. En við vitum, að í því orði — í því, hvernig það er sagt, — liggur engin von um, að það verði gert. En þá kemur það, sem ég vildi gera sérstaka grein fyrir í sambandi við þetta mál. Fyrst ekki er samkomulag um það að reyna að finna rekstrargrundvöll fyrir útveginn og framleiðsluna, sem er það eina, sem er verðmætt, því að aðrar ráðstafanir halda áfram, þá verður seinast gefizt upp við þær líka, það er fyrirsjáanlegt og vitað af þeim reglum, sem dýrtíðin alls staðar fylgir. En þessi leið,sem nú er farin, þessi bráðabirgðalausn á málinu nú fyrir áramótin, hún er ekki lítið eftirtektarverð. Því er sem sé lýst yfir af öllum ráðherrunum, að þeir séu allir óánægðir, og því er lýst yfir af flestum, sem tala um málið, að þeir trúi ekkert á það og þeir telji þetta ómögulega lausn. Þeir segja allir það sama, en þó erum við komnir inn á það, sem má þykja með eindæmum: að um leið og ríkisstj. leggur þetta frv. fram, þá er hún raunverulega með því að lýsa yfir, að hún treysti sér ekki til að framkvæma þá stefnu, sem hún lýsti yfir, að hún ætlaði að samþykkja, þegar hún tók við völdum... En það er einkennilegt, þegar atkvgr. fer þannig úr hendi í þinginu. Þetta er kallað ábyrgðartilfinning, til að koma í veg fyrir, að útgerðin stöðvist, þannig að menn greiða atkv., eftir því sem þeir lýsa yfir, á móti sannfæringu sinni, af því að það kemur á síðustu stund og eitthvað óskaplegt skeður, ef ekki er snúizt þannig við málinu.

En fyrst eitthvað þarf að gera til að reyna að aka þessu áfram, þá álít ég, að það hefði verið skylda stj. að gera aðrar ráðstafanir, áður en hún kom fram með þessar álögur. Við sjáum, að fyrst þegar þessar niðurgreiðslur áttu sér stað, voru þær teknar af stríðsgróðanum: Þar næst voru þær teknar með lánum. Nú er stríðsgróðinn ekki til og ekki hægt að taka lán, Og það er auðsætt, að á þessum árum, 1947–48, hefur komið fyrir annað fyrirbrigði, og það er greiðsluhallinn á fjárl. 1947 var hann 70 millj., og lítur út fyrir, að hann verði á þessu ári um 30 millj. ríkið safnar þannig skuldum á þessu tímabili um 100 millj. kr. Það er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum af hendi ríkisins á þessu ári, en ríkið er ekki fært um að sinna öllum þessum hlutverkum í senn, greiða niður dýrtíðina í stórum stíl og sinna miklum framkvæmdum. Nú er kominn nýr kafli í dýrtíðarsögunni. Fyrst er kostnaðurinn greiddur úr ríkissjóði, margar milljónir. Síðan er byrjað að taka lán til þess. Nú er ekki hægt að taka lán, og stríðsgróðinn er enginn. En dýrtíðarsvikamyllan er þannig, að bilið er alltaf stærra, sem þarf að fylla, og nú er komið að því, að þessi upphæð er orðin 70 eða 75 millj., og þessa peninga verður að taka einhvers staðar í þjóðfélaginu. Og þá er bersýnilegt, að um tvær leiðir er að gera. Það er ekki hægt að leggja á landbúnaðinn, og það er ekki hægt að leggja á sjávarútveginn. Hvar á þá að taka þetta? Það er hægt að taka það að einhverju leyti með því að færa niður rekstrarkostnað útgerðarinnar, og hitt verður annaðhvort að leggja á almenning eða taka það af verzluninni. Þetta hefur staðið í okkur. Það er erfitt að eiga við þetta, af því að það er hvorki hægt að taka lán eða grípa til stríðsgróða.

Ég held satt að segja, að hæstv. ríkisstj. hafi valið allt of einhliða leið í þessu máli. Ég álít, að það sé siðferðilega rangt af hæstv. ríkisstj. að auka þessar álögur án þess að reyna fyrst allar hugsanlegar leiðir aðrar. Ég er enginn sérfræðingur í útgerð og ekki eins kunnugur útgerðarmálum og ýmsir aðrir hv. þm. En þó er mér ljóst, að það má lækka útgerðarkostnaðinn með ýmsu móti. Það er t.d. fullvíst, að það mætti létta mikið undir með útgerðinni með því að lengja lánin. Lánstíminn er yfirleitt of stuttur á ýmsu, sem útgerðinni við kemur. Það er erfitt að lækka bátatryggingarnar nema með framlögum úr ríkissjóði, fyrr en bátarnir eru upp færðir með eðlilegu verði, en það verður að gera innan stundar. Það hefur veríð minnzt á viðgerðarkostnað á bátum og vélum, og er nú fyrst verið að rannsaka það. Það er enginn efi, að það má lækka þann kostnað stórkostlega. Það hefði verið vel hægt að fara þá leið, að bátaútvegurinn fengi þann gjaldeyri, sem hann hefur þörf fyrir, til að kaupa vörur frá útlöndum til að annast sinn rekstur. Ég sé ekki, hvaða sanngirni mælir með því, að togarar, sem sigla með ísfisk, fái þannig gjaldeyrinn frjálsan, en bátarnir ekki. Ef það væru mynduð samtök til að kaupa þessar vörur án álagningar, þá mundi það lækka stórkostlega útgerðarkostnaðinn. Þessara ráða og sjálfsagt fleiri átti fyrst að leita, áður en ráðizt væri í að gera ráðstafanir almenns eðlis. Eigi að hjálpa útgerðinni, verður að byrja á að færa niður rekstrarkostnaðinn þar, sem það er hægt. En að ráðast í svona útgjaldaaukningu á fjárl. er svo stórt atriði, að það þarf ekki að vekja athygli hv. þm. á því. Rekstrarkostnaður á fjárl. hefur aukizt um 16–20 millj. frá því á síðasta ári, og það er líka athyglisvert, að vextir og afborganir af skuldum eru nú að verða vegna þeirrar fjármálastefnu, sem fylgt hefur verið að undanförnu, eins miklar og fjárl. voru öll fyrir stríð.

Ég er ekki heldur í vafa um, að það skref, sem átti að stíga í sambandi við dýrtíðarmálið, það var að flokka húsaleiguna. Það átti að setja húsaleiguna eftir flatarmáli og lækka hana mikið frá því, sem nú er. Ég er viss um, að það mætti lækka húsaleiguna um 20%. Enn fremur var það eitt af þeim málum, sem átti að afgr. í sambandi við þetta mál og áður en farið yrði að þyngja álögur á almenning, og það var að fyrirbyggja það okur, sem nú á sér stað á svörtum markaði með byggingarvörur, föt o.fl. Við sjáum þá baráttu, sem er háð við svarta markaðinn erlendis. Þar gengur hún svo langt, að sums staðar er jafnvel lögð dauðarefsing við okri á svörtum markaði til að friða fólkíð. Það sýnir, hvert þessi mál geta komizt, ef ekki er stöðvuð á að ósi. Ég álít jafnframt, að í sambandi við eftirlit með verzlun og í sambandi við dómstólana, sem dæma um verðlagsbrot, hefði beinlínis átt að bjóða neytendum að tilnefna meðdómendur í öll þessi mál, leyfa neytendunum í landinu og fulltrúum framleiðslustéttanna að handfjalla þau, hafa dómstólana opna og prenta dómana. Það má hver og einn gera sér ljóst, að það er svo nú og alltaf í vaxandi mæli, að verzlunin er að verða eitt af okkar mesta böli, enda er reynslan svo annars staðar, og hún hefur verið það hér, því að í gegnum hana höfum við verið féflettir í aldir. Eftir að hæstv. ríkisstj. hefði gert þessar ráðstafanir, vil ég segja, að hún væri búin að sýna einlægan vilja á því að láta ekki álögurnar koma niður á almenning. Þá gat hún sagt við almenning: Nú höfum við gert allt, sem við getum, til að lækka álögurnar á almenningi, fyrirbyggja svartan markað, fela ykkur dómsvald yfir þeim, sem viðhafa okur. Þá gat stj. sagt: Nú komumst við ekki lengra. Nú verðum við að leita til ykkar. — Og þá gat almenningur ekkert við því sagt. Ég álít, að þessi sjónarmið hefðu fyrst átt að koma fram, áður en farið var að þyngja álögurnar á almenningi. Því verður ekki neitað með réttu, að þegar vísitöluskerðingin var gerð, þá átti þetta að koma þar á móti, og ég álít, að það hefði verið hægt að ná þessum tekjum án þess að koma verulega við almenning. Ég skal taka sem dæmi toll af innlendum tollvörutegundum. Það er vitað mál, að þessi framleiðsla skiptir óskaplegum upphæðum. Það er vitað, að menn drekka varla brennivín nema hafa eitthvað af þessum drykkjum út í það og borða eitthvað af þessum tollvörutegundum með. Ég held, að það sé ekki heppilegasta leiðin til að fá auknar tekur að hækka gjaldið af þessum tollvörutegundum; því að það þykir stundum ekki koma of vel tilskila. Ég held, að það hefði verið nær í þess stað, að ríkið hefði tekið framleiðsluna á öllu þessu rusli. Ég sé ekki, að það sé meira fyrir ríkið að hafa það en einkasölu á tóbaki og áfengi, og þetta heyrir raunverulega þar undir. Þetta hefði áreiðanlega gefið ríkinu stórkostlegar tekjur.

Mergurinn málsins er sá, sem ég hef verið að tala um, hvernig þessa fjár er aflað. Ég er ekki að halda fram, að það sé hægt að afla alls þessa fjár með þeim aðferðum, sem ég hef nú minnzt á. Ég hef þar ekki tölur til að byggja á þessar staðhæfingar. En nær er mér að halda, að það hefði dugað. Þetta held ég, að hefði verið rétt leið, fyrst ekki var valin sú leið að finna traustan rekstrargrundvöll fyrir útgerðina. En það, sem hér er gert, stefnir allt í gagnstæða átt, að auka dýrtíðina og erfiðleikana við endanlega lausn þessara mála. Þetta, sem ég hef bent á, hefði verið nokkur áfangi á leiðinni.

Ég sagði það áðan og skal segja það að lokum, að það er tízka hér rétt fyrir jólin, að þm. lýsi yfir, að þeir hafi enga trú á þeirri lausn, sem þeir eru að gera, en þeir verði að gera það, af því að annars stöðvist allt. Þetta er talið mikil ábyrgðartilfinning. Þetta verður hver að gera upp við sig. Það getur verið, að það sé misskilningur hjá mér, að það sé það eina rétta að greiða atkv. með málinu eins og maður álítur það vera í sjálfu sér, ekki sízt ef maður hefur þá skoðun, að með þessum ráðstöfunum sé verið að leggja út í kviksyndi. Með þessu er hæstv. stj. að taka enn meir af þeim sjóðum. sem maður þarf að hafa, þegar lokaátakið í baráttunni gegn dýrtíðinni verður gert. En ætli það gæti ekki verið, að þegar búið er að taka alla okkar sjóði í dýrtíðina, að hún fari sína leið og endirinn verði sá, að menn geti ekki látið endana ná saman. Og hvað þá er fyrirsjáanleg stöðvun, eins og aldrei hefði verið neitt gert, og peningarnir farnir í að vinna verk, sem aldrei tókst, og ekki kæmi mér á óvart, — þó að ég ætli ekki að spá neinu um þetta mál, — þó að endirinn yrði sá, að það sannaðist, að það, sem verið er að gera nú, sé spor í þá átt, og er þá illa farið.

Ég lýsti því yfir, þegar þessi ábyrgð var tekin, var eini maðurinn í þessari d., sem gerði það, að ég skyldi greiða atkv. með þessu í þetta skipti, til þess að útvegurinn ekki stöðvaðist, meðan verið væri að reyna að koma honum á rekstrarhæfan grundvöll. Ég skipti mér ekki af afgreiðslu málsins í fyrra. Ég væri í mótsögn við það, sem ég hef sagt frá upphafi um dýrtíðarmálið, ef ég færi að greiða atkv. með þessu máli nú, og ég get ekki vegna samvizku minnar gert það, þó að ég viðurkenni, að fyrir þá menn, sem eru á móti málinu, en greiða atkv. með því, af því að þá ógar við því, sem fram undan er, þá er það atriði, sem má deila um, en frá mínu sjónar'miði er það eina rétta, og ég hef frá upphafi aldrei hvikað frá því.