10.03.1949
Neðri deild: 78. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (3543)

159. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta er nokkuð gamalt mál, þó að það sé fyrst nú lagt fram í frv.-formi. Fyrir 5 eða 6 árum var samþ. þál. um að fela stj. að láta undirbúa frv. til l. varðandi þingfararkaup. Ástæðan var í fyrsta lagi sú, að sökum breytts verðlags var sá mælikvarði, sem lagður var á vinnu þm., úreltur, auk þess sem Alþ. og stj. höfðu klastrað í þetta á vafasaman hátt til þess að bæta upp gersamlega úreltan kauptaxta. Þetta var orðið óviðunandi og er enn. Þess vegna var þessi n. skipuð, að ég held árið 1944 eða 1945. N, vann aðallega að því að afla upplýsinga um kjör alþm. í öðrum löndum, en af því að heimsstyrjöld stóð og samgöngur voru takmarkaðar, tókst ekki að afla upplýsinga um kjör þm. nema fyrir stríð, að Bandaríkjunum undanteknum. N. tók því það ráð að afla upplýsinga hjá sendiráðum viðkomandi þjóða í Reykjavík. Þessum upplýsingum var síðan safnað saman og þær látnar fylgja frv., sem n. samdi og sendi stj. Síðan hafa tvær ríkisstj. verið, en hvorug þeirra hefur treyst sér til að leggja frv. fram, og nú er svo komið, að það er kannske að ýmsu leyti orðið úrelt og þarf athugunar við. En þingfararkaupsn. þótti óviðunandi að vinna með l. eins og þau eru, og þess vegna varð það að samkomulagi, að n. tæki að sér frv. og kæmi því á framfæri við Alþ. Þetta gat ekki orðið, nema annar hluti þingfararkaupsn. tæki þetta að sér, og það féll í hlut þeirra nm., sem sæti eiga í þessari d., að taka það að sér. Nú hafa nm. ekki talað um það, hvort þeir treystu sér til þess að fylgja frv. óbreyttu eða hvaða breyt. þyrfti að gera á því. En sökum þess, að engin stj. hefur treyst sér til þess að leggja frv. fram, höfum við neyðzt til að fara þessa leið. N. er með flutningi frv. að leggja á vald þm., hvað þeir vilji gera í málinu. En það fylgir frá okkur sú yfirlýsing, að við teljum ófært að hlíta núverandi kjörum, enda erfitt fyrir þingfararkaupsn. að starfa samkvæmt l., eins og þau eru nú. Ég held, að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, en endurtek það, að bæði ég og meðflm. mínir áskilja sér rétt til að koma fram með till. til breyt. í samræmi við breyttar aðstæður. Ég er ekki viss um, til hvaða n. er heppilegast að vísa málinu. Af því að það er fjárhagslegs eðlis, gæti það farið til fjhn., en það getur einnig átt heima í allshn. Ég mun ekki koma fram með neina till. í því efni, en þar sem nokkuð er orðið áliðið þings, væri æskilegt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, vildi flýta því sem mest.