10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (4157)

201. mál, innflutningur búfjár

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal geta þess, að efni þess viðauka, sem felst í þessu frv. um innflutning búfjár, er eingöngu um það, að heimilað sé að veita öðrum aðilum innflutningsleyfi til þess að flytja inn og starfrækja eins konar tilraunastöðvar um innflutning búfjár. En í þeim l., sem sett voru um þetta efni s. l. ár, var það ófrávíkjanlegt skilyrði, að ríkið ætti þetta sjálft og ætti sjálft það búfé, sem inn væri flutt, og annaðist alla þá starfrækslu, sem þetta kostaði. Ekki er því að leyna, að þessu fylgir allmikill kostnaður. Og þó að áhugi sé fyrir því að gera tilraunir með innflutning, hefur ríkisstj. ekki séð sér fært að ráðast í það fjárhagsins vegna, og hefur því ekki komið til þeirra framkvæmda, sem margir mundu óska. Hins vegar hefur verið komið að máli við ríkisstj. frá S.Í.S., sem gjarna vill gera tilraunir með innflutning á holdakynjum og verja til þess allmiklu fé. Sömuleiðis hefur fulltrúi frá Reykjavíkurbæ komið að máli við rn. og talið, að þar mundi vera nokkur áhugi fyrir að gera tilraunir með innflutning á mjólkurkynjum. Í atvmrn. er litið þannig á, að þótt ríkið hafi ekki sem stendur fjárhagslega aðstöðu til að gera þessar tilraunir, sé ekki rétt að skorast gegn því, ef á annað borð er litið þannig á, að þótt ríkið hafi ekki sem stendur fjárhagslega aðstöðu til að gera þessar tilraunir, sé ekki rétt að skorast gegn því, ef á annað borð er litið þannig á, að þessar tilraunir séu eftirsóknarverðar, að aðrir aðilar en ríkið leggi fram fé í þessu skyni, ef þeir óska þess, en með því skilyrði þó, að allrar sömu varúðar um innflutninginn sé gætt og tilskilið er í l. Þessi viðauki heimilar þetta hvort tveggja, — heimilar ríkisstj. að leyfa S.Í.S. og Reykjavíkurbæ, ef þeir óska eftir, að flytja inn annaðhvort sæði eða gripi af þeim kynjum, sem hér um ræðir, og einangra þá í eyjum í námunda við Rvík og reka þá tilraunastarfsemi, sem nauðsynlega er þessu samfara. Hins vegar eru skýr ákvæði um það, að ríkið og sérfræðingar þess hafi nákvæmt eftirlit með þessu starfi og þessir aðilar skuldbindi sig til þess að koma þarna upp sóttvarnarstöð. Eins og nú er búið að ganga frá frv. í Nd., eru tekin upp í það öll þau ströngustu ákvæði um eftirlit og sóttvarnir, sem í gildandi l. eru, og ætti að vera hægt að framfylgja allri varúð í þessum efnum, þó að þessir aðilar hafi málið með höndum.

Vænti ég svo, að hv. d. sjái sér fært að samþ. frv. með þeim breyt., sem á því hafa verið gerðar.