03.05.1949
Neðri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (4171)

202. mál, fjárhagsráð

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér á þskj. 608, fjallar um nokkrar breytingar á l. um fjárhagsráð. Ég hef tekið það ráð að prenta upp öll lögin, þótt breytingar séu aðeins gerðar við nokkrar greinar. Einnig hef ég breytt niðurröðun efnis og formi nokkuð.

Það eru nú aðeins liðnar nokkrar mínútur síðan hv. deild var að vísa frv. um sama efni til 3. umr. Strax og það frv. kom fram, bar ég fram þá ósk, að það frv. yrði látið bíða nokkuð, því að verið væri að semja frv. um sama efni, er ég mundi flytja. En það dróst þó svo úr hömlu fram, að hv. fjhn. sá sér ekki fært að bíða lengur. Þar sem þessi frv. bæði eru um sama efni, þ. e. a. s. breyt. á l. um fjárhagsráð, vil ég biðja hv. fjhn., sem væntanlega fær þetta frv. einnig til athugunar og umsagnar, að íhuga vel, hvort ekki sé hægt að gera úr þessum báðum frv. aðeins eitt.

Dómarnir um fjárhagsráðslögin hafa, eins og vænta mátti, orðið ærið misjafnir. Maður nokkur lét þau orð falla við mig fyrir nokkru, að aldrei hefðu innflutnings- og gjaldeyrismálin verið í slíku ófremdarástandi sem nú, síðan fyrst voru upp teknar hér innflutnings- og gjaldeyrisráðstafanir 1931, Aðrir hafa aftur á móti bent á, að á árinu 1948, fyrsta heila árinu síðan þessi lög komu til framkvæmda, hafi í fyrsta sinn um alllangan tíma tekizt að koma á nokkurn veginn jöfnuði í gjaldeyrisviðskiptunum við útlönd og enn fremur að sú tilraun, sem gerð hefur verið til þess að koma á eftirliti með fjárfestingu í landinu, hafi verið nauðsynleg og þörf og gefið góða raun. Þannig má líta á þetta frá ýmsum sjónarmiðum og finna bæði kosti og galla. Öllum frv. má auðvitað finna eitthvað til foráttu, vissulega þessu líka, þannig er það og hefur alltaf verið með mál, sem lögð hafa verið fyrir hv. Alþingi.

Það eru aðallega tvö atriði, sem fundin hafa verið fjárhagsráðslögunum til foráttu: Í fyrsta lagi, að skipting innflutningsins milli innflytjenda hafi ekki verið framkvæmd eftir föstum reglum og verið handahófskennd og óákveðin. Um þetta atriði hafa þó auðvitað og eðlilega verið skiptar skoðanir. Í fjárhagsráðslögin var sett sú grundvallarregla, er farið skyldi eftir, að þeir, sem flyttu inn ódýrast og bezt, sætu, að öðru jöfnu, fyrir innflutningi. Þetta hefur þó ekki verið praktiserað nema að litlu leyti, en þegar það hefur verið gert, hefur það gefið mjög góða raun. Það hefur þó af einhverjum ástæðum ekki verið hægt að framkvæma þetta eins og þurft hefði. Þegar þessari reglu hefur verið fylgt, hafa vöruinnkaupin verið boðin út, ef svo má að orði kveða, og hefur þá komið í ljós talsverður mismunur, bæði á innkaupsverði og útsölu. Hefur þá einnig af þessu hlotizt gjaldeyrishagnaður og sparnaður. Þó hefur ekki verið hægt að framkvæma þetta á viðunandi hátt og ekki eins og áætlað var í fyrstu. Það má einnig segja, að mismunur á vörugæðunum hafi verið svo „afsleppur“, að ekki hefur þótt taka því að fara lengra út á þessa braut. Í öðru lagi hefur hin svokallaða kvótaregla, sem tíðkazt hefur, sætt gagnrýni. Samkv. henni hefur innflutningi verið skipt eftir meðaltalsinnflutningi aðilanna á undanförnum árum. Þessari aðferð hefur aðallega verið fundið það til foráttu, að samkv. henni hefðu nokkrir menn nokkurs konar einokunaraðstöðu með allan innflutning og nýir menn væru útilokaðir frá því að hefja þessa starfsemi. Þetta má til sanns vegar færa og á þessari reglu eru svo augljósir gallar, að um það þarf ekki að ræða. Eftir henni hefur þó verið farið að mestu undanfarin ár. Þá hefur einnig verið stungið upp á, í sambandi við innflutninginn, hinni svokölluðu höfðatölureglu. Samkv. henni ætti fyrst og fremst að fara eftir áætluðum viðskiptamannafjölda og innflutningnum skipt milli aðila í hlutfalli við hann. Þessi regla hefur þann höfuðgalla, að ekki er hægt að segja ákveðið um viðskiptamannafjölda einnar verzlunar, og hafa kaupfélögin þar bezta aðstöðu. Svo hefur verið stungið upp á, eins og gert er í frv. því, sem var verið að vísa til 3. umr. áðan, að gera skömmtunarseðlana í þeim vöruflokkum, sem skammtaðir eru, að innflutningsheimild og veita innflytjendum innflutningsleyfi eftir því, hve mörgum miðum þeir geta safnað. Þessi aðferð hefur þó alls ekki gefið góða raun, þar sem hún hefur verið notuð. Menn hafa haft alls konar svindilbrögð í frammi og miður heiðarleg viðskipti með seðlana. Má og gera ráð fyrir, að með þessari aðferð væri að miklu leyti tekið af mönnum það vald að ráða, hvar þeir verzluðu, því að þeir væru búnir að afhenda ákveðinni verzlun seðla sína og yrðu því að verzla þar, þótt þeir gætu komizt að hagstæðari kjörum annars staðar. Í þessu finnst mér vera fólginn aðalgalli frv., sem samþ. var áðan.

Hér er gert ráð fyrir, að 75% af innflutningsmagninu sé úthlutað til þeirra, sem undanfarið hafa haft með innflutning að gera, og í sama hlutfalli og gert hefur verið, en 25% af magninu sé notað til að greiða götu nýrra innflytjenda, leiðrétta misrétti og veita þeim aukainnflutningsleyfi, sem mesta hafa sölu og ætla má að almenningur vilji helzt skipta við. Þá er og gert ráð fyrir, að flutt sé meira inn af þeim vörum, sem skammtaðar eru, en skömmtunarseðlar segja til, svo að hægt sé að vinna upp dálítið af birgðum. Þannig gæti fólki gefizt kostur á að velja, hvar það helzt vildi verzla. Einnig væri þá komið í veg fyrir, að menn keyptu hina skömmtuðu vöru upp strax og hún kæmi í verzlanir, á hvaða verði sem er og hvernig sem er. Það kunna vissulega að vera einhverjir annmarkar á þessari leið líka, og koma þeir þá væntanlega í ljós síðar í umr., og að sjálfsögðu ber að hlusta á allar brtt., sem fram kunna að koma. En að svo komnu máli tel ég þetta vera beztu lausnina, sem fram hefur komið, því að hér er reynt að sniða augljósustu agnúana af fyrri till. í málinu.

Annað atriði er og, sem leiðréttingar þarf við, en það er yfirstjórn þessara mála. Fjárhagsráð heyrir nú undir alla ríkisstj., en ekki undir eitt sérstakt ráðuneyti, eins og þó er venja um flestar ríkisstofnanir. Þetta hefur orðið til þess, að sambandið milli fjárhagsráðs og hinna ýmsu deilda þess annars vegar og ríkisstj. hins vegar hefur ekki orðið eins náið og æskilegt hefði verið. Þetta fyrirkomulag hefur og reynzt heldur þungt í vöfum, þegar fjárhagsráð hefur þurft undir ríkisstj. að sækja, t. d. með áfrýjun eða úrskurði. Í slíkum tilfellum hefur orðið að kalla saman ríkisstjórnarfund, allir ráðherrarnir að setja sig inn í málin, og hefur það oftast tekið marga fundi að fá afgr. mál, þótt aðkallandi væru. Ég legg því til í frv. mínu, að yfirstjórn þessara mála verði falin einu ráðuneyti — viðskmrn., þó er það ekkert aðalatriði fyrir mig, að yfirstjórn fjárhagsráðs verði lögð undir mitt ráðuneyti, en mjög eðlilegt virðist vera, að stofnun, sem hefur umsjón með viðskiptamálum, heyri undir viðskmrn.

Þá er og gert ráð fyrir því í frv., að meðlimir fjárhagsráðs séu jafnframt formenn hinna einstöku deilda, en þær eru: ,

1. Fjárfestingardeild.

2. Innflutnings- og gjaldeyrisdeild.

3. Skömmtunardeild.

4. Verðlagsdeild.

5. Gjaldeyriseftirlits- og hagfræðideild.

Með því að fjárhagsráðsmenn séu jafnframt forstjórar hinna ýmsu deilda er hægt að koma í veg fyrir, að ákvarðanir einnar deildar rekist á ákvarðanir annarrar, eins og komið hefur fyrir, endarnir væru betur saman tengdir og starf ráðsins í mun fastari skorðum og öruggara en verið hefur. Einnig yrði samband fjárhagsráðs og ríkisstj. miklum mun fastara og traustara en verið hefur.

Ég hef haft þetta frv. alllengi til athugunar, en ekki getað fengið um það samkomulag innan ríkisstj. Ég vil þó freista að bera þetta fram sem þingmannsfrv., því að ég hygg, að þetta sé sú bezta lausn, sem við getum fengið á þessum málum, þó að auðvitað megi finna þessu frv. eitthvað til foráttu. Ég veit, að komið er nú fram á síðasta hluta þingsins og verður því að líkindum slitið stuttu eftir að fjárlög hafa verið afgreidd, en með góðum vilja fjhn. vona ég, að það sé hægt að afgreiða málið fljótt, svo að lögin gætu komizt til framkvæmda strax á þessu sumri. Þá væri og æskilegt, að hv. n. tæki þetta frv. til athugunar jafnframt því fyrra.

Ég vil svo leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. deildarinnar.