23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (4701)

48. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Flm. (Pétur Ottesen):

Þegar við ræddum um þetta mál á síðasta þingi, hæstv. utanrrh. og ég, þá tók hann það fram, að hann vildi ekki gera upp á milli þeirra skoðana, sem hér hafa komið fram um rétt Íslendinga eða réttleysi í þessu efni. Ég gat þó ekki varizt því, að mér fannst hæstv. dómsmrh. þá ekki halda til fulls þessa yfirlýsingu sína, þar sem hann vildi þá, að því er virtist, leggja meira upp úr áliti annars aðilans en hins, og þess verður heldur ekki vart, að slíkt komi enn fram hjá hæstv. ráðh., þó að hann hafi máske nú ekki talað eins berlega í þá átt og hann gerði á síðasta þingi.

Ég vil gersamlega mótmæla því, að allt tal þeirra manna, sem hafa viljað rökstyðja rétt Íslendinga í þessu efni, hafi verið fjarstæðukennt, því að ég veit, ef hæstv. dómsmrh. vildi kynna sér þau rök, sem Jón Þorláksson flutti fyrir þessu máli hér á þingi 1931, þá mundi hann sjá, að Jón Þorláksson hefur ekki verið þar með fjarstæðukenndar fullyrðingar frekar en í málflutningi sínum yfirleitt, því að af þeim mönnum, sem ég hef heyrt rökræða mál, var Jón Þorláksson einhver allra málefnalegasti maður í öllum sínum ræðum og sérstaklega laus við fullyrðingar út í loftið eða það, sem hæstv. dómsmrh. vill innibinda í orðinu fjarstæðukenndar fullyrðingar. Hér hafa líka átt hlut að máli miklir erlendir fræðimenn á þessu sviði, svo sem Ragnar Lundborg, og það væri sannarlega ekki vel til fallið að bera það á hann, að hann væri með slíkar fullyrðingar, og litlar þakkir væru það honum til handa fyrir það lið, sem hann veitti okkur, þegar við stóðum sem harðast í okkar sjálfstæðisbaráttu, því að hann var góður liðsmaður Íslendinga þar, og hans liðsemd var okkur engan veginn einskis virði í þeirri baráttu. Það má vera, að hæstv. ráðh. hafi sérstaklega beint þessum orðum sinum gegn öðrum manni, Jóni Dúasyni, sem hefur gert það að lífsstarfi sínu, sem er eingöngu byggt á áhuga, trú og sannfæringu á þeim rétti, sem við höfum í þessu máli, að eitthvað í hans löngu ritgerðum sé þannig, að nota megi þessi orð um það, því að það er vitað, að ýmis hugtök í fornu máli, sem fólu í sér rétt og réttarviðurkenningu, þykja alleinkennileg nú. Ég man eftir því, að það barst inn í umr. í fyrra, að dr. Jón Dúason hefði notað orðið „sjónhelgi“, en hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr því og jafnvel draga dár að því með því að heimfæra það upp á ýmis fyrirbæri nú. En þrátt fyrir þetta var með þessum hætti helgaður eignarréttur í fornöld, þó að það samþýðist illa núverandi hugmyndum manna á því sama sviði. Og ef það er eitthvað af þessu, sem hæstv. ráðh. finnur sem ástæðu fyrir því að kalla það fjarstæðukenndan rökstuðning Jóns Dúasonar, þá er ekki mikið upp úr því leggjandi. Ég efast ekki um, að ef það verður notað réttilega, eins og vænta má, að gert verði, þá hefur dr. Jón Dúason með sínu mikla starfi lagt upp í hendur þeirra manna, sem flytja þetta mál af hálfu Íslendinga, merkileg gögn, sem handhægara er að eiga í ritum Jóns Dúasonar, en að eiga að leita þau uppi í söfnum víðs vegar á Norðurlöndum og víðar, eins og Jón hefur gert. Þess vegna ber engan veginn að vanmeta hans starf, og það er ómaklegt vanþakklæti fyrir hans mikilsverða starf, ef Íslendingar kynnu að hagnýta sér það, að vera með slíkar hnútur í hans garð. Hitt er svo annað mál, að menn geta lagt misjafnlega mikið upp úr þessu og hinu, og það er hverjum manni frjálst að hafa sína skoðun á því.

Hæstv. dómsmrh. segir, að tveir lagaprófessorar, sem hafa ritað um þetta mál, hafi orðið fyrir ómaklegum árásum fyrir sína skoðun á málinu. Í þeim málflutningi, sem ég hef haft, hef ég ekki vikið einu öfugu orði að þessum mönnum fyrir þeirra skoðun, en ég verð að segja það, að ef þessir menn hefðu athugað þær aðvaranir, sem Jón Þorláksson beindi að tveimur þm. hér á þingi 1931, að þeir skyldu ekki setja hér fram ummæli, sem andstæðingar okkar gætu kannske lagt meira upp úr, en þeir sjálfir ætluðust til, að það hefði verið vel þess vert af þessum lagaprófessorum, að þeir hefðu athugað það, þegar þeir, án þess að nokkurt tilefni gæfist til, voru þannig að kveða upp úr um skoðun sína í þessu þýðingarmikla máli íslenzku þjóðarinnar, þó að vitað væri, að á þeim tíma stóð það engan veginn eins ljóst, hvað okkur er þýðingarmikið að eiga þennan rétt á Grænlandi, eins og nú er.

Hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, að hann hafi gert till. um skipun n. til að rannsaka þessi mál. En ég verð að segja það, að nokkuð seint virðist mér hann hafa verið á ferðinni með þetta, þar sem þetta mál lá fyrir síðasta þingi og hefur áður komið til kasta Alþingis, að hann skyldi ekki bregða fyrr við, úr því að hann taldi, að nauðsynlegt væri að skipa slíka n., og verður hann að hafa um það sína skoðun, eins og eðlilegt er, að það nefndarstarf skuli ekki vera komið lengra en þetta, að n. er þó ekki fullskipuð enn, því að annar aðilinn, sem hæstv. dómsmrh. hefur snúið sér til, hefur ekki enn, eftir því sem hann segir, gefið um það fyrirheit eða tilkynningu, að hann taki að sér þetta starf. Ég fyrir mitt leyti tel engan veginn nauðsynlegt að skipa slíka n. Það hefði leitt af sjálfu sér, að þeir menn, sem falið hefði verið að fara með þetta mál fyrir alþjóðadómstól, hefðu fengið þann tíma, sem þeir hefðu talið sér nauðsynlegan til að gagnprófa þetta mál og undirbúa sókn þess af hálfu Íslendinga. Það hefði ég talið vera þá eðlilegu lausn þessa máls. Ég efast ekki um, að niðurstöður þessarar n. verða jákvæðar, en þó að það kynni að snúast á hinn veginn, þá er málið þar með engan veginn niður kveðið fyrir því, því að ég veit það, að uppi verða meðal Íslendinga raddir og kröfur um að fá úr þessu máli skorið með eðlilegum hætti fyrir alþjóðadómstóli, og með öðrum hætti verða þessar raddir aldrei þaggaðar niður, þó að fram komi til viðbótar gagnstætt álit tveggja eða þriggja einstakra manna og að með þeim hætti einum eigi að ráða örlögum þessa máls. En sem sagt, ég tel ekki, að þessi nefndarskipun hafi verið að neinu leyti nauðsynleg, heldur hefði verið eðlilegast, ef þingið hefði samþ. þessa till., að fela ríkisstj. sókn þessa máls, þá hefðu verið ráðnir til þess hinir færustu menn, sem við eigum völ á, og þeim gefinn nægur tími til að búa sig undir sókn þessa máls.

Það er óþarft að ræða þetta mál, eins og það liggur fyrir nú. Ég vænti þess, að n. afgr. málið í tæka tíð og Alþingi gefist kostur á að segja álit sitt um það, og lengra kemst ég vitanlega ekki í sókn þessa máls á þessu stigi.