08.02.1949
Sameinað þing: 37. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í D-deild Alþingistíðinda. (4795)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Því er oft þannig farið, að maður getur ekki ráðið við, hvað manni dettur í hug. Undir umræðum hinn fyrri daginn, er líða tók á hina rökþrungnu og gögnum studdu ræðu hv. þm. Barð., sá ég, að ókyrrð nokkur tók að færast yfir hv. 1. þm. Árn. Hann stóð upp í sætinu og hvimaði í kringum sig í salnum, svo sem til að vita, hvort nokkur af flokksbræðrum hans væri tilbúinn að halda uppi merki hans í orrustunni. En þeir voru sýnilega ekki viðlátnir, og hvarflaði mér þá í hug, að þeir mundu hugsa nokkuð það sama hans félagar og Hrafn rauði sagði í Brjánsbardaga, er Sigurður jarl bað hann ganga undir merkið: „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“ Þetta lét hv. þm. ekki heldur segja sér tvisvar, hann sló í borðið og geystist fram með orðgnótt mikilli og málrófi, sló hann víða og breitt og kenndu ýmsir á. Ég er einn af þeim, sem varð fyrir öxarblaði hans; ekki veit ég, hvort orðið hefur af holundarsár, en skeina vildi hann mig. Hann réðst aðallega á mig vegna þess, að ég hafði mælt hér nokkur orð í vetur í umræðum um þetta mál. Taldi hann, að ég hefði kveðið svo að um ákveðinn lagabókstaf, að hann ætti að standa, hvað sem liði anda laganna. Ég er nú tekinn að eldast og gerast gleyminn, en ef til vill er ég þó ekki eins gamall og gleyminn orðinn og hv. 1. þm. Árn. Og það var nú svo, að þegar ég fór að athuga það í skjölum hér frammi í lestrarsalnum, hvort ég hefði svo til orða tekið, þá sá ég, að það hafði a. m. k. ekki komið fram hjá skrifaranum, heldur hafði hann tilfært orð mín á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta: „Ég ætla ekki að fara að ræða verð á jörðinni í þetta skipti. En ég hef haldið fram og held fram enn, að þetta, sem gerðist um sölu þessarar jarðar, hafi verið á móti bókstaf laganna og þess vegna undir öllum kringumstæðum rétt af ráðherra að láta það mál ganga eins og hvert annað frv. gegnum afgreiðslu Alþingis.“ Það er ekki góður málflutningur að gera upp orð andstæðingi til að ráðast á hann á þeim grundvelli. Það hafa auðvitað aðrir sína skoðun á þessu máli. Ég sagði hins vegar, að það væri á móti lögum, að ábúandi þjóðjarðar væri ekki búinn að vera 3 ár á jörðinni, áður en hann fengi hana keypta. Það getur vel verið, að þetta sé ekki rétt skoðað, og má vera, að ýmsir lögfræðingar séu um þetta á annarri skoðun, enda hef ég aldrei hælt mér af lögfræðikunnáttu minni. En mjög þykir mér þó hæpin sú frásögn nv. þm., að hann hafi talað við einn hinn ágætasta lögfræðing og sá hafi kveðið svo að orði, að mál um þetta atriði skyldi vinnast fyrir hvaða dómstóli sem væri. Ég held, að lögfræðingastéttin sé yfirleitt orðvarari en svo, að ábyrgir lögfræðingar kasti slíkum fullyrðingum fram. Ég vil því skora á hv. þm. að upplýsa það, hver það sé, sem svo hefur tekið til orða. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að það geti verið maður, sem mark er á takandi. En eftir að þessi yfirlýsing kom frá mér, hefur margt komið fram í málinu, sem gerir það nauðsynlegt og að mínu áliti enn sjálfsagðara, að málið gengi þann veg, sem ég frá upphafi óskaði eftir, heldur en þá leiðindakróka, sem það hefur nú farið. Ef það hefði verið gert, þá hefði verið skorið úr því í upphafi, hvort ætti að selja eða ekki selja, og þar með hefði verið búin öll sú óánægja, sem þetta mál hefur haft í för með sér. Hv. 1. þm. Árn. fór mörgum orðum um Kaldaðarnes og ásigkomulag þeirrar jarðar, og það var ekki álitlegt. Þá kom mér í hug, — ekki kannske fallegt frá sjónarmiði hv. þm., — þegar hrossakaupmenn voru að verjast því að þurfa að skila aftur góðhesti, sem þeir hafa keypt, því að þá munu þeir fáa kosti finna hjá þeim hesti. Ég tók eftir því, að hv. þm. minntist ekki á í sambandi við Kaldaðarnes þann kost jarðarinnar, sem hlunnindi heita. Ég minnist þess ekki. Ég sé nú í jarðaskránum, að Kaldaðarnes hefur nú allmiklar tekjur eða ætti að hafa tekjur af laxveiðiréttindum, hvernig sem það nú er með selveiðina, sem var áður nokkuð arðbær. Á þetta er ekki minnzt. En aftur á móti gleymdust ekki gæðin í Skálholti.

Hv. 1. þm. Árn. gat þess í einni ræðu sinni, að hann sé valinn í trúnaðarstöðu og þar viti hann margt um þm., að mér skilst, sem ekki væri betra, en Kaldaðarnesmálið. Mér finnst það mjög svo óeðlilegt, þótt mér sé það ekki frekar viðkomandi en öðrum þm., að sá þm., sem valinn er í trúnaðarstöðu, — og geri ég þá ráð fyrir, að hann eigi við það, að hann er kosinn endurskoðandi landsreikninganna, — ef hann sér þar eitthvað varhugavert um þm. eða aðra, að hann geri ekki sínar athugasemdir, eins og honum ber skylda til. Hitt er miður viðkunnanlegt, að vera með dylgjur um slíka hluti hér á Alþ., þegar hann sjálfur á í vök að verjast, til þess ef til vill að gera menn meira hikandi við það að segja sína skoðun á hans máli. Þetta vildi ég aðeins benda á. Það getur verið hér um misskilning að ræða frá annarri hvorri hlið, og er þá rétt að gefist tækifæri til frekari skýringa.

Ég veit ekki, hvernig nú er fyrirkomulagið í Skálholti. Hæstv. landbrh. er ekki viðstaddur, en það hefði verið gaman að fá upplýsingar um það. Ég heyri sagt, að þar sé einhver búskapur, en hvort ríkið græðir á þeim búskap frekar en öðrum, er eftir að vita. Yfirleitt mun engin ástæða hafa verið til þess, að mér skilst, að hv. 1. þm. Árn. færi svo fljótt frá Skálholti. Skólinn var ekki kominn upp, og getur liðið langur tími þangað til Jörundur Brynjólfsson hefði þurft að hrökklast frá staðnum. Og jafnvel þótt bygging hefði verið byrjuð, var ekki óhjákvæmilegt fyrir hann að fara, því að þar eru landkostir góðir, og þar hefði hann getað fengið markað fyrir sínar afurðir handa því fólki, sem þar væri að vinnu.

Að lokum vildi ég fá frekari upplýsingar um það, eftir því sem fyrir liggur í málinu, en ég kem ekki auga á það, hvað hv. 1. þm. Árn. hefur gefið fyrir Kaldaðarnes og látið til ríkissjóðs. Er það annað en hússkriflið í Skálholti, sem sennilega verður ríkissjóði lítils eða einskis virði og svo þessar margnefndu 1200 kr.? Annað hef ég ekki heyrt, að hv. þm. hafi gefið fyrir Kaldaðarnesið til ríkissjóðs.