23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (4807)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Eins og hv. þm. er kunnugt, hef ég rætt aðeins einn þátt þessa máls og mun halda mig við það.

Ég vil endurtaka það, sem áður hefur komið fram, m. a. hjá hæstv. ráðh., að það, sem fyrir mér vakti, var það, að þarna hefur verið hafður stórbúskapur og nokkur iðja í smærri stíl, sem fyrst og fremst var rekinn af heilbrigðum mönnum, en hinum drykkjusjúku mönnum jafnframt sköpuð aðstaða til að vinna að þessu að sinni getu og þeim sköpuð aðstaða til að lifa mannsæmandi lífi í þessari stofnun og gefin einhver von til að geta komizt aftur út í lífið til starfandi manna. Þetta vakti fyrir mér og öllum þeim, sem að stofnuninni stóðu, fyrst í Kumbaravogi og síðan í Kaldaðarnesi. Og svo segir hæstv. ráðh., að ef einhver viðleitni hefði verið sýnd í þá átt að koma þessu í framkvæmd, þá hefði málið litið öðruvísi út. Er ekki fullmikið sagt, að engin viðleitni hafi verið sýnd í þessa átt? Er ekki ástæða til að rifja upp, hvað hefur raunverulega gerzt í málinu? Það er þá þetta: Árið 1945 er hafizt handa um endurbætur og byggingar í Kaldaðarnesi með hæli fyrir augum. Vorið 1945 eru vistmenn frá Kumbaravogi fluttir í Kaldaðarnes og vistaðir í hermannaskálum með það fyrir augum, að þeir gætu tekið þátt í frekara húsbyggingastarfi, og var unnið að því fram á vetur. Síðan gerist það, að rekstur stofnunarinnar er fenginn í hendur ríkisspítölunum, og skal ég viðurkenna, að ég er ekki hnútum svo kunnugur, hvað síðar verður, eins og um alla forsögu, en veit þó, að með tilstyrk ráðsmanns ríkisspítalanna, sem hafði mikinn áhuga á þessu, var búið að leggja drög að því að reisa þarna myndarlega stofnun. Ég vildi nú spyrja hæstv. ráðh., hvort honum hafi í sannleika nokkurn tíma flogið í hug, að þetta yrði gert í einu vetfangi eða á örskömmum tíma. Honum ætti að vera það ljóst eins og mér, að þarna var fyrir hendi margra ára uppbyggingarstarf, þótt hinir völdustu menn tækju þátt í starfinu. Ég held, að ráðh. sé þetta í raun og veru ljóst.

Næst kemur hann svo að því, að þegar hann hafi komið að hælinu, hafi verið þar einn vistmaður, sem daginn eftir hefði átt að fara, sem mun vera rétt, en hvers vegna? Það var vegna þess, að hælinu var lokað, af því að mér og öðrum, sem höfðu hug á að koma þangað sjúkum mönnum, var neitað um pláss þar, sökum þess að læknir hælisins hafði tekið þá stefnu að loka því. Hvers vegna, veit ég ekki, og engin frambærileg rök hafa verið færð fyrir því. Ég veit, að doktorinn hafði áhuga fyrir því að hafa ekki nema 6–8 menn á sínu hæli og gera þar sérstakar tilraunir, en fyrir málefnum hinna mannanna, sem þurftu að vera lengi á hælinu, hafði hann ekki áhuga, og endaði þetta svo með því, að hælinu var lokað. Ég vil nú segja hæstv. ráðh., að ef hann vill í dag opna pláss, t. d. í Kaldaðarnesi, fyrir þá 17 menn, sem þar voru, skal ég á hálfum mánuði vistráða menn í öll plássin, og þótt þau væru fleiri. Því miður er ástandið þannig, að auðvelt væri að gera það á örfáum dögum, og væri þó ekki fullnægt nema litlu af þeim beiðnum, sem berast nú um fangageymslu vegna drykkjusjúkra manna.

Jú, ráðh. gat þess, að ægilegur rekstrarhalli hefði verið orðinn þarna á hælinu. Engan gæti furðað á því. Með því að loka deildinni fyrir mönnum, sem áttu að vera þarna, en halda starfsliðinu að öðru leyti, hlaut að koma mikill halli. Þó er ég ekki sannfærður um, að dæmið sé nákvæmlega rétt upp gert, þegar ráðh. talar um þennan halla, eða við hvaða tíma hann miðar, þegar hann gefur þessar tölur. En engan furðar, þó að fram komi mikill halli, þegar á er haldið málinu eins og þarna er gert.

Næst getur ráðh. þess, að ástandið í Kaldaðarnesi sé þannig, að ekki standi steinn yfir steini, og hann sagði, að hvaða einstaklingur sem hefði setið jörðina með þessum hætti, hefði bakað sér útbyggingarsök. Hverra skuld var það, að Kaldaðarnes var svo illa leikið, að þar stóð ekki steinn yfir steini? Ekki voru það þeir, sem ráku drykkjumannahælið þar, sem léku það svo. En ég kom þar áður, en hafizt var handa um endurbætur á staðnum, og þá stóð ekki steinn yfir steini. Engin hurð var á hjörum og allir gluggar brotnir og yfirleitt allt svo ömurlega útleikið sem hugsazt gat. Síðan gerist það, að byrjað er að byggja Kaldaðarnes upp. Gamla húsið er endurbætt, sem ég tel þó, að hafi verið fremur hæpið, og hefði heldur átt að byggja frá grunni, annað hús var byggt og ýmsar endurbætur aðrar gerðar. Sem sagt, endurreisn Kaldaðarness var hafin, og svo segir hæstv. atvmrh., að þeir, sem að þessu stóðu, hafi unnið til útbyggingarsakar. Þetta er alveg út í bláinn, hæstv. ráðh. En var um byggingu að ræða í þessu sambandi? Var jörðin byggð hælinu? Eftir því, sem fyrrv. hæstv. dómsmrh., hv. þm. Ísaf., sagði, þá hef ég skilið það svo, að jörðin hafi verið afhent hælinu og þarna hafi verið komin upp ríkisstofnun, sem hafði sömu stöðu og t. d. Vífilsstaðir og Kleppur. Ef þetta er rangur skilningur hjá mér, þá vil ég gjarna heyra rökin fyrir því. Næst gat hæstv. ráðh. þess, að hann hefði heyrt, að forráðamennirnir væru orðnir afhuga því að reka hælið. Ég spyr: Hvaða forráðamenn? Áreiðanlega engir úr nefndinni, sem átti að stjórna hælinu fram til 1947, en fór frá að beiðni frá hærri stöðum 1946. Áreiðanlega ekki ráðsmaður ríkisspítalanna, og ef landlæknir hefur hvatt til þess að leggja hælið niður, þá skil ég ekki þá breytingu, sem orðið hefur á hans skoðun. Og það er áreiðanlega ekki núverandi hæstaréttardómari, Jónatan Hallvarðsson, sem mjög kom við þetta mál, og þá er aðeins einn eftir, maðurinn, sem lokaði hælinu, dr. Helgi Tómasson. Það má vera, að hann hafi ráðið til þess að leggja hælið niður, en mér þykir sem ítök hans hjá hæstv. ríkisstj. séu orðin óþarflega mikil, ef hann hefur einn fengið að ráða því. Nær hefði verið fyrir hæstv. ríkisstj. að skipa honum að opna hælið fyrir þeim mönnum, sem þangað þurftu og vildu fara, en fengu ekki.

Mér þótti vænt um að fá þær upplýsingar hjá hæstv. ráðh., að munirnir, sem ég spurði um, séu geymdir hjá hælisstjórn. Síðan ég í minni fyrri ræðu spurði að þessu, hef ég raunar fengið upplýsingar um það frá öruggum heimildum, hvar þessir munir væru niður komnir, og sé ég nú, hverja hæstv. ráðh. telur hælisstjórn, því að mér var sagt, að munirnir væru geymdir í hlöðu á Kleppi. En nokkuð mun það hæpin geymsla fyrir bókasafn og annað slíkt.

Þá hafði hæstv. ráðh. það að athuga við mína ræðu, að ég hefði tekið undir þá þjóðlygi, að Kaldaðarnes hefði verið gefið. Ég var að tala um hælið í Kaldaðarnesi, og hvað er orðið um það hæli? Það voru sendir matsmenn austur, og á hvaða grundvelli áttu þeir að meta? Þeir áttu að gera grein fyrir, hvers virði mannvirkin væru til búrekstrar. Á þeim grundvelli var byggt, og ég geri ráð fyrir, að með tilliti til búrekstrar hafi matið verið nógu hátt. En sú staðreynd stendur, að þarna var búið að leggja fram meira fé en hægt var að renta í búskap. Þarna var búið að stofna hæli, sem var svo mikilvægt, að hæstv. ríkisstj. leggur til að verja 9 milljónum á næstu árum til byggingar sams konar hælis. (Atvmrh.: Sams konar hælis?) Já, hæstv. ráðh., sams konar hælis. En þegar búið er að leggja hælið niður og mannvirki þess metin með tilliti til búrekstrar, þá er féð, sem lagt var til hælisins, glatað. Hvort sem menn vilja segja, að það hafi verið gefið eða á glæ kastað, þá er það horfið, og mennirnir, sem óskuðu að dvelja á hælinu, eru nú á daginn í Hafnarstræti, en á nóttunni oftast í kjallara lögreglustöðvarinnar. — En út af því, hvort ríkisstjórnin hugsi sér að reisa sams konar hæli og var í Kaldaðarnesi, þá veit ég ekki betur en hún hafi í hyggju í fyrsta lagi að reisa lítið hæli eins og dr. Helgi Tómasson vildi, en svo einnig stórt vinnu- og gæzluhæli — jafnvel mörg slík —, og hver er munurinn á þeim og hælinu í Kaldaðarnesi? Hann er enginn. Ég get fullyrt, að þegar byrjað verður með þessi hæli, þá eiga þeir, sem um þau sjá, eftir að reka sig á sömu erfiðleikana og þeir, sem sáu um hælið í Kaldaðarnesi. En það er óþörf sóun á fjármunum og orku að stofna til þess að taka á sig sömu erfiðleikana aftur. Skynsamlegast var auðvitað að halda áfram þar, sem byrjað var, og ég er sannfærður um, að á skömmum tíma hefði verið hægt að byggja upp myndarlegt hæli í Kaldaðarnesi, ef dr. Helgi Tómasson hefði ekki lokað því og ef ríkisstj. hefði haldið áfram að sýna málinu þann skilning og áhuga, sem hæstv. fyrrv. dómsmrh. gerði í byrjun. — Ég tek það ekki aftur, að hælið hafi verið gefið. Ég get þó til samkomulags við hæstv. ráðh. fallizt á að breyta orðalaginu og segja, að því hafi verið kastað á glæ. Það er óhrekjandi staðreynd, að eignir þess voru metnar með tilliti til búrekstrar og fyrir miklu minna fé en þær raunverulega kostuðu og fyrir minna fé en eðlilegt var, að stæði í þeim, ef hælið hefði verið rekið áfram. Í þessu máli hafa því orðið alvarleg mistök, og mér þykir leitt, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur umr. um þessi mál, en ég skil hann þó, því að ég veit, að hann hefur áhuga á því, að ríkið reki drykkjumannahæli, og ég veit enn fremur, að hann finnur, að honum hefur mistekizt, og það væri skynsamlegast fyrir þá báða, hæstv. menntmrh. og hæstv. atvmrh., að játa mistök sín, skynsamlegra en að reyna að finna fyrir þeim afsakanir, sem ekki eru til og aldrei verða til.