23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (4808)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. hefur nú flutt aðalræðu sína í þessu máli og hefur nú eitthvað jafnað sig af þeim taugaóstyrk, sem þjáði hann svo siðast er málið var til umr., að hann treystist ekki til að svara. Ég skil vel þennan taugaóstyrk hæstv. ráðh., því að ég veit — og það veit hæstv. ráðh. líka —, hvernig þjóðin tekur þessu máli og hversu erfitt er að verja það bæði innan þings og utan. Hæstv. ráðh. hefur líka í mörg horn að líta, því að bæði andstæðingar hans sem og hans flokksmenn hafa sótt að honum fyrir fjögur hneyksli, sem hann hefur framið í sinni ráðherratíð. (Atvmrh.: Hver eru þau?) Það er Kaldaðarnes, Silfurtún, Norðtunga, en það fjórða mun ég ekki nefna að svo stöddu. Skil ég því vel, að hæstv. ráðh. kunni að vera óstyrkur. Hitt skil ég líka, að hann skuli vilja halda áfram þeirri iðju, sem flokksbræður hans hafa stundað undanfarin ár, þeirri iðju að svívirða mig persónulega, en ég skil ekki, að jafngóður drengur og jafnvel gefinn maður sem hann er skuli kasta virðingunni fyrir ráðherrastól sínum til þess að ausa mig auri og reyna þar með að draga athyglina frá því máli, sem um er að ræða. Svívirðingar í minn garð koma honum ekki undan ábyrgðinni af sölu Kaldaðarness. Hann hefur dregið mín verk hér inn í umr., því að hann telur, að upplýsingar hans um þau geti dregið athygli frá sínum gerðum í þessu máli. Sér ekki hæstv. ráðh., hve veikt þetta er, óskynsamlegt og ósæmilegt? En ég skal ekkert skorast undan að ræða það, sem hann hafði snuðrað upp og taldi mér ávirðingar. Hann hefur haft úti þreifiklær alls staðar til þess að reyna að finna eitthvað það í starfsferli mínum, sem hann gæti klekkt á mér með, og þetta var það eina, sem hann fann, og við skulum nú athuga málið og þá sést, hvílíkar blekkingar hæstv. ráðh. hefur haft í frammi.

Árið 1944 var ég skipaður í nefnd til að undirbúa þetta mál og vann tvo mánuði af því ári við undirbúninginn og síðan þar til í september 1945. Hæstv. ráðh. heldur kannske, að þetta mál hafi ekki þurft mikinn undirbúning, en þetta voru þó kaup upp á 100 milljónir króna og stórfelldustu samningar, sem Íslendingar hafa gert. Mörgum nefndarmönnum var greitt kaup, en mér aldrei. Í september 1945 var mér svo falið ásamt fleiri mönnum að semja við brezkar skipasmíðastöðvar, því að þeir, sem höfðu farið, höfðu ekki komizt að aðgengilegum kjörum. Ég náði svo samningum, og skal ég ekki ræða dóm þjóðarinnar á þeim verkum. Flokkur hæstv. ráðh. hefur alltaf reynt að níða þau niður, en aldrei komizt upp með neitt af sínu níði, hversu mjög sem reynt hefur verið. Starfaði ég svo enn við eftirlit með byggingu togaranna. Vegna þessara starfa minna þurfti ég að kaupa 8 manna ársvinnu til annarra, og ef við deilum 8 í 300 þúsund, verður útkoman 37.500 kr., sem væri meðalárslaun eins manns. Hvað hef ég þá fengið? Á sama tíma voru menn, sem siglt höfðu sem vélstjórar hjá Skipaútgerð ríkisins fyrir 80 þús. kr. árstekjur og ekki gátu þetta. Og ef forstjóri Skipaútgerðar ríkisins væri spurður, hvað umsjónin með byggingu skipa fyrir hans fyrirtæki kostaði, þá mundi það sýna sig, að sú umsjón yrði nokkru dýrari, en umsjónin með byggingu togaranna. Forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur einmitt undrazt, að hægt væri að vinna þetta verk fyrir 300 þús. kr. Ég skal svo ljúka máli mínu um þetta atriði með því að benda á, að fyrir nokkru reis ágreiningur milli verksala annars vegar og íslenzku samninganefndarinnar hins vegar um það, hvort Íslendingar ættu rétt á 700 þús. kr. skaðabótaupphæð. Lagði ég þá fyrir ríkisstj. að leggja málið fyrir lögfræðinga, bæði innlenda og í Englandi, til þess að fá álit þeirra um það, hvort Íslendingar ættu að fara í mál til þess að ná þessu fé. En báðir lögfræðingarnir í hæstv. ríkisstj., hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., þótt báðir séu greindir menn og vafalaust góðir lögfræðingar, töldu þetta ekki ómaksins vert, þar sem vonlaust væri, að við næðum þessu fé. Allt um þetta fór ég utan í þessum erindum, og upphæðin fékkst öll, 700 þús. kr. í erlendum gjaldeyri. (Dómsmrh.: Ummæli hv. þm., hvað mig snertir í þessu máli, eru tilhæfulaus ósannindi.) Er hæstv. dómsmrh. svo bergnuminn af Framsfl., að hann þoli ekki að heyra sannleikann? (Dómsmrh.: Ég kannast alls ekki við þau ummæli, sem hv. þm. hermir hér á mig. Ég veit ekki, í hvaða heimi hv. þm. lifir - Forseti: Ekki samtal.) Er hæstv. dómsmrh. alveg ókunnugt um þetta mál? (Dómsmrh.: Hv. þm. getur reynt að slá sig til riddara á kostnað einhverra annarra en mín. — Forseti: Ég verð alvarlega að biðja hv. þm. um að halda þingsköp.) Ég hafði sannast að segja haldið, að það væri heppilegast fyrir hæstv. dómsmrh. að halda sig fyrir utan þessar umr., því að hann hefur engan sóma af málinu, en fyrst hann hefur kosið að taka til máls, þá er ekkert á móti því að athuga hans þátt nánar síðar meir. En sem sagt, 700 þúsundirnar fengust, og svo getur hæstv. atvmrh. dregið 300 þúsundir þar frá, því að fyrri upphæðin hefði aldrei fengizt, ef enginn hefði verið til þess að fylgjast með málinu.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri blygðunarleysi af mér að bera þetta mál fram. Ég held nú, að það sé meira blygðunarleysi að viðhafa þann málflutning, sem hann hefur leyft sér. Og ég fullvissa hæstv. ráðh. um, að hann má mín vegna hvenær sem er leggja öll gögn varðandi togarakaupin á borðið, hann getur aldrei varið sölu Kaldaðarness með því. Ég skal og óhræddur, hvenær sem er, leggja fram mína ferðareikninga á móti ferðareikningum hans sonar og hvaða sendimanna hæstv. ríkisstj. sem vera skal.

Ég skal svo ekki ræða meira um þetta atriði, en snúa mér að yfirlýsingu hinna 6 landbnm. Er það þingleg meðferð, þegar þing situr, að ganga á milli nm. og fá þeirra álit um visst mál án þess að flytja málið formlega inn í þingið? Og hvers vegna kom hæstv. ráðh. ekki með málið inn í þingið? Það var vegna þess, að hæstv. ráðh. vissi, að það yrðu aldrei samþ. l. um að leggja niður hælið í Kaldaðarnesi og gefa það, hvorki þm. Framsfl. né neinum öðrum, og þess vegna valdi hæstv. ráðh. myrkraleiðina og gaf Kaldaðarnes í heimildarleysi.

Þá er enn eitt dæmi um málflutning hæstv, ráðh. Hann hélt því sem sagt fram, að það að segja satt um einn mann jafngilti illyrðum um aðra. Af því að ég sagði, að hv. þm. Dal. væri heiðarlegur maður, þá vildi hæstv. ráðh. meina, að ég teldi alla hina landbnm., sem samþykktu sölu Kaldaðarness, glæpamenn. En þetta sýnir bara ásamt öðru, í hver rökþrot hæstv. ráðh. er kominn. Ég held því, að honum væri sæmst að hætta að reyna að verja þetta hneyksli. Hæstv. ráðh. hefur ekkert til að segja annað en það, að segi ég sannleikann um einn hv. þm., þá sé það rógur og svívirðingar um aðra þingbræður.

Þá skal ég koma að meginatriðunum í þessu máli, en meginatriðin eru þau, að hér er ekki verið að ræða um jörð, sem ríkið á, sem átti að selja eftir þeim l., sem hæstv. ráðh. hefur viljað vera láta. Hér er verið að ræða um hæli, sem ríkið átti og hæstv. ráðh. hafði enga heimild til þess að selja. Öll rök hans í sambandi við söluna eru því alveg út í bláinn, vegna þess að grundvöllurinn undir þeim er hruninn, þar sem hér var um hæli að ræða, en ekki jörð. Hann gat ekki selt Kaldaðarnes, fremur en hann gæti selt Bessastaði, Vífilsstaði, Klepp eða Kristneshæli eða aðrar stofnanir landsins, og með því að gera það hefur hann skapað sér ábyrgð annars vegar og enn fremur hefur hann sem ráðh. sett á sig blett fyrir að gera slíka hluti. Hæstv. ráðh. hefur reynt að halda því fram hér, að ég hafi verið að ráðast á matsmennina. Þetta er sagt af sömu hvötum eins og þegar sagt er, að ég hafi verið að ráðast á þingmennina. Hann álítur það svívirðingu um matsmennina, að ég hef haldið því fram hér, að hann hefði getað áfrýjað matinu til yfirmatsmanna. Hvað eru svona rök? Hvernig er hægt að halda því fram, að það séu ásakanir á sjálfa matsmennina, þó að ég hafi talið rétt að áfrýja matinu til yfirmats? Hvað var það, þegar hann áfrýjaði matinu um jarðhúsin? Lá á bak við það sú hugsun að bregða undirmatsmönnunum um ódrenglyndi og svívirðingar, að hann tók þann kost að áfrýja því mati? Ég held, að hæstv. ráðh. komist ekki frá þessu máli með slíkri rökfærslu sem þessari. Það er alveg útilokað. Hæstv. ráðh. hefur haldið því fram hér hvað eftir annað, að hv. 1. þm. Árn. hafi haft lífstíðarábúðarréttindi á Skálholti og ekki hafi verið hægt að framkvæma nauðsynlegar fyrirskipanir í sambandi við Skálholtsskóla nema koma honum burtu af jörðinni. Ég hef rætt það áður hér og fært sannanir fyrir því, hve vafasamt það er, að hv. 1. þm. Árn. hafi nokkurn tíma haft lífstíðarábúðarréttindi á Skálholti. Það geta verið um það skiptar skoðanir, en úr því mátti fá skorið. Það var síður en svo árás á hv. 1. þm. Árn., þó að úr því væri skorið með dómi, hvort hann hefði fengið löglegan ábúðarrétt á Skálholti. Ég hef haldið því fram, að það hafi ekki verið, og hæstv. ráðh. hefur ekki gert tilraun til þess að hrekja þær staðreyndir, sem ég hef fært fram fyrir því máli. Það er vitað, að þessi lífstíðarábúðarréttindi voru veitt 1940, eða löngu eftir að ákveðið var, að jörðin skyldi keypt til opinberra þarfa. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að spyrja um það, hvort gerð hafi verið tilraun til að fá samkomulag við hv. 1. þm. Árn. án þess að framkvæma það, sem hér var gert, og án þess að beygja sig undir þær þungu kvaðir, sem hér var um að ræða, svo sem gert var. Það hefur aldrei komið fram í umr., að nein slík tilraun til samkomulags hafi verið gerð við hv. 1. þm. Árn., að hann stæði upp af jörðinni, svo að hægt yrði að gera þar nauðsynlegar framkvæmdir. Ég vildi gjarna vita, hvort hv. 1. þm. Árn. hefur í raun og veru sett svo þunga kosti fyrir því, að hægt yrði að koma upp skólanum, að það yrði að gera þetta hneyksli, sem hér var gert. Ég trúi því ekki, að hann — hvorki vegna Alþingis, þjóðar sinnar né vegna sinna kjósenda — hafi sett þá afarkosti, að til þess að hægt yrði að reisa skóla í Skálholti, skyldi þurfa að leggja niður hælið í Kaldaðarnesi. Það yrði aldrei talinn sómi fyrir mig að bera slíkt á hv. 1. þm. Árn., þó að hæstv. ráðh. láti skína í, að svona hafi þetta verið. Ég held, að hér hefði vel mátt komast að samkomulagi, sem báðum aðilum hefði verið meiri sómi og hagnaður að, en hefur orðið af því samkomulagi, sem hér var gert, fyrir utan svo það að vera með slíkt leynimakk í skúmaskotum, á meðan Alþ. sat að störfum.

Ég verð að segja það, að sé þetta eins og hæstv. ráðh. talar um, að þetta sé allt til óþurftar og tjóns fyrir hv. 1. þm. Árn., þá er sannarlega ekki ástæða til þess að vera að rífast um þetta hér dag eftir dag. Hvers vegna sýnir þá hv. 1. þm. Árn. ekki þá stórbrotnu skapgerð að standa hér upp og segja sem svo: „Hvers vegna er verið að rífast um þetta? Ég er tilbúinn til að skila Kaldaðarnesi aftur, svo að hægt sé að láta vesalingana inn á hælið aftur.“ Slíkt hefði verið jafnágætum manni sæmandi, og ég hefði getað búizt við, að hans fyrsta ræða hefði verið á þessa leið: „Úr því að málið er komið á þetta stig og ástæða þykir til að hreyfa þessu, þá vil ég ekki standa í vegi fyrir því, að réttlætið nái fram að ganga. Ég skal skila jörðinni strax aftur.“ En þetta gerðist ekki, heldur alveg öfugt við þetta.

Hæstv. ráðh. spurði um það, á hverju sú fullyrðing byggðist, að afhent hefði verið rúmlega ein millj. kr. til núverandi eiganda Skálholts. Ég vil aðeins vísa hæstv. ráðh. á að lesa þskj. 119, en þar eru teknar upp þær staðreyndir, sem fyrir eru um það, hvernig þessi viðskipti hafa farið fram. Þau sýna, að ekkert er greitt fyrir eignina annað en 1.120 kr., til viðbótar þeim eignum hv. 1. þm. Árn., sem hann átti í Skálholti og metnar voru á 170 þús. kr. Ég skal ekkert um það dæma, hvort sú eign er 170 þús. kr. virði. Það er ljóst af þessum tölum, að annað og meira hefur aldrei verið greitt fyrir eignina en þessar tvær upphæðir. Hinu er öllu náð með krókaleiðum, sem hæstv. ráðh. hefur fyrirskipað, að skyldu farnar.

Hæstv. ráðh. hefur haldið því fram hér hvað eftir annað, að hv. 1. þm. Árn. hafi átt heimtingu á að fá keypt Skálholt og að hann hafi átt heimtingu á að fá keypt Kaldaðarnesið. Hann hefur bara aldrei komið með nein rök fyrir þessum fullyrðingum sínum, og hann hefur ekki reynt að hrekja neinar af þeim staðreyndum, sem ég hef hér sett fram til þess að sýna fram á, að þetta er algerlega rangt. Hæstv. ráðh. byggir sí og æ á því, að þessar jarðir heyri undir þann flokk jarða, sem eru ábúðarjarðir — ekki stofnanir. Hann hefur heldur ekki svarað því, sem ég spurði hann um um daginn, hvað jarðræktarsjóðurinn hefði fengið mikið fyrir Kaldaðarnesið, því að ef jörðin tilheyrir þeim flokki jarða, sem hann vill vera láta, þá átti jarðræktarsjóður að fá allt andvirði hennar. En hann hefur ekki fengið neitt. Af hverju? Af því að það söluverð, sem talið var af seljendum, að hv. 1. þm. Árn. hefði greitt, heimtaði menntmrn. í nýtt hæli. Þetta er fyllsta sönnun fyrir því, að hér var um hæli að ræða, en ekki jörð í þeim flokki, sem hæstv. ráðh. hefur talið hana vera í. Ég las hér upp bréf frá ráðsmanni ríkisspítalanna, þar sem hann krafðist þess, að við þetta ætti að bætast sú upphæð, sem þetta kostaði, og þess utan sú upphæð, sem það kostar nú meira að byggja þetta allt upp en það hefur kostað á þeim tíma, sem það var gert. Þetta veit hæstv. ráðh. ósköp vel um, og hvernig getur hann þá haldið því fram, að þessi jörð sé í flokki þeirra jarða, sem má leigja eða selja til lífstíðarábúðar?

Ég ætla ekki að svara öllum þeim fúkyrðum, sem hæstv. ráðh. mælti til mín um ódrenglyndi, persónulegar árásir á mig og annað slíkt. Ég tek það sem nokkurs konar flogaveikiskast hjá hæstv. ráðh., sem stafi af þeim erfiðleikum, sem hann hefur átt í undanfarið við að verja þetta ódæði, sumpart í sinum flokki og fyrir þjóðinni sjálfri. Ég mun ekki eyða tíma þingsins í að ræða það atriði frekar. En ég vil í sambandi við þetta benda á það, sem fram hefur komið frá öðrum aðilum, m. a. hv. þm. Ísaf., þar sem hann í sinni ræðu undirstrikaði bókstaflega allt, er ég hafði um þetta mælt, í sambandi við stofnunina í Kaldaðarnesi og þær fyrirætlanir, sem þar voru fyrirhugaðar. Hann upplýsti annað, að auk þess, að jörðin skyldi afhent og húsin, skyldu 305 þús. kr. afhentar hælinu. Hvor hefur nú réttara fyrir sér, fyrrverandi heilbrmrh. eða núverandi atvmrh.? Kannske atvmrh. telji sér heimilt að taka 225 þús. kr. úr eign, sem búið er að afhenda með ákveðnu bréfi til ákveðinnar stofnunar, og gefa þær þm., bara ef það er framsóknarmaður. Það er þetta, sem hann hefur gert hér. Ég held, að eftir þær upplýsingar, sem hv. þm. Ísaf. gaf hér, sé það bezt sæmandi fyrir hæstv. ráðh. að þegja og segja ekki eitt einasta orð, taka þann sama kostinn og tekinn var þegar Silfurtún var til umr., að þegja og láta málið fara umræðulaust gegnum þingið. Það er honum mestur sómi.

Hv. 3. landsk. þm. fór nokkrum orðum um þetta mál hér við síðustu umr. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mikið inn á þau orðaskipti. Ég hef heyrt ýmislegt, sem hann hefur sagt hér, en af öllu, sem ég hef heyrt hann segja, fannst mér þessi ræða hans sú fáránlegasta, ekki þó að því leyti, hvað mig snerti persónulega, þar sem ég veit, hvaða tilhneigingu hann hefur haft til þess að ræða á þann hátt við mig fyrr, heldur vegna þess, hvernig hann ræddi þetta mál í sambandi við þá vesalinga, sem hér eiga hlut að máli. Ég hefði ekki búizt við, að hann legði lóð sitt á þær vogarskálar að stuðla að því, að þessir vesalingar séu gerðir heimilislausir, með því að verja slíkar gerðir. Nú veit ég það, að hugur hans stendur meir til að verja rangt mál, slæmt mál og ljótt mál, ef það er framið af mönnum, sem eiga einhvern skyldleika við hans hugsunarhátt, heldur en að verja mál vesalinganna, sem hér áttu hlut að máli. Sé ég því ekki ástæðu til þess að ræða við hann nánar um þetta efni.

Ég vil nú hins vegar spyrja þessa menn alla, sem hafa unnið þetta ljóta verk, að rífa niður hælið í Kaldaðarnesi og eyðileggja möguleikana til að veita þessum mönnum aðstoð til þess að skapa þeim heimili, hvort þeir geti sofið draumlaust öll þessi ár, þangað til hægt er að skapa þessum mönnum þessi skilyrði annars staðar, vitandi þessa menn ráfa hér um götur Reykjavíkur án þess að eiga nokkurt hæli til að hverfa að og einskis annars kost en að snúa sér að „kjallaranum“ á kvöldin. Það líf er þessum mönnum stundum svo óbærilegt, að þeir koma ekki út þaðan lifandi að morgni, heldur kjósa að stytta sér aldur. Þeir menn, sem eru að verja þetta mál, eru að leggja blessun sína yfir það ljóta starf að svipta þessa mestu vesalinga þjóðarinnar því hæli, sem þeir áttu. Það eru til þeir menn, sem hafa orðið þessir vesalingar fyrir það, að ríkið þénar tugi milljóna á því að selja þeim og öðrum mönnum eitur. Mig furðar ekki á því, þó að hæstv. atvmrh. verði einstöku sinnum taugaóstyrkur, ef hann gefur sér tíma til að hugsa um, hvaða afleiðingar hljótast af hans verkum í sambandi við þetta mál. Það er alveg ljóst, að þjóðin hefur fylgzt með þessu máli og mun fylgjast með því. Það er alveg áreiðanlegt, að hvernig sem fer með afgreiðslu þess hér á Alþ., þá mun þjóðin dæma í því. Hún mun dæma um það, hvernig þessir menn fara með sín völd, hversu samvizkusamir þeir eru með fé ríkisins og hvernig þeir koma fram gagnvart vesalingunum, sem er hér um að ræða. Það er sannast að segja viðbjóður að hugsa sér þessa menn, sem nú taka á sig helgislepju og flytja annað frv. til að koma upp öðru hæli, til þess að breiða yfir smánina, sem þeir hafa hér framið með gerðum sínum.