25.04.1949
Sameinað þing: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í D-deild Alþingistíðinda. (4879)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera örstutta athugasemd út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. varðandi stj. S. R. Það segir svo í ræðu eftir þm., sem birtist í Vísi og var lögð fram sem handrit í lestrarsal:

„Þessu risafyrirtæki á íslenzkan mælikvarða er fengin stjórn, sem valin er pólitískt af þingflokkunum, án sérstaks tillits til, hvort mennirnir eru starfinu vaxnir eða hvort útlit er fyrir, að samkomulag geti náðst milli þeirra um það, á hvern hátt eigi að reka verksmiðjurnar. Allir, sem eru í stjórn verksmiðjanna, hafa það starf í hjáverkum, en samt virðist framkvæmdarstjórnin hvíla aðallega á þessum mönnum. ... ..... Rekstri þessa mikla fyrirtækis, sem líklega gengur næst ríkissjóði í fjárveltu og skuldasöfnun, þarf að breyta í annað horf en nú er, svo að það hafi aðra og betri kjölfestu, en pólitíska spákaupmennsku og framkvæmdarstjórn þess sé ekki höfð í hjáverkum af mönnum, sem öðrum störfum eru hlaðnir.“

Ég gat ekki skilið þessi orð hv. þm. öðruvísi en að hann væri að bera stj. S. R. á brýn, að þeir væru pólitískir spákaupmenn. Ég vil hins vegar taka fram, að stjórnendur S. R. eru góðir samstarfsmenn, er bera hag fyrirtækisins mjög fyrir brjósti. En ef hann hefur meint eitthvað annað en ég gat lesið út úr orðum hans, þá er mér það gleðiefni.