16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (4894)

131. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég hef raunar ekkert við þessa till. að athuga, því að það að velja áburðarverksmiðjunni stað er æði mikið vandaverk og þarf nákvæmrar rannsóknar með, og er raunar til þess ætlazt, að hin væntanlega verksmiðjustjórn hafi þá rannsókn með höndum, og yrði það eitt af hennar fyrstu verkefnum. Hins vegar er ekkert við því að segja, ef Alþingi óskar eftir því, að fleiri manna ráð komi til við rannsókn þessa. Ég geri ráð fyrir, að sú hv. n., sem væntanlega fær þessa till. til meðferðar, athugi þetta afriði, en ég vil segja það, að þótt ég samþykki till. við þessa umr., þá vil ég ekki leggja í hana þá meiningu, sem virðist vera meining hv. flm., að Þorlákshöfn sé eini staðurinn, sem athuga eigi gaumgæfilega, en handahófsathugun ein fari fram á öðrum stöðum, og þótt fram komnar brtt. verði samþ., þá vil ég einnig taka fram, að ég legg ekki þann skilning í till., að þeir einir staðir, sem nefndir eru í till. og brtt., skuli vera athugaðir gaumgæfilega, því að það verður að athuga alla staði, sem til greina geta komið, hvort sem þeir eru nefndir í till. eða ekki. Þetta vildi ég aðeins taka fram, en ég hef ekkert á móti því, þótt Alþingi kveðji sérstaklega þrjá menn til þess að athuga, hvaða staður sé heppilegastur fyrir verksmiðjuna.