28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (4981)

900. mál, landbúnaðarvélar

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti.

Ég skal reyna að leysa nokkuð úr þessum fyrirspurnum, eftir því sem ég get. — Þegar fjárhagsráð gekk frá innflutningsáætluninni fyrir yfirstandandi ár síðastliðinn vetur, þá var, eins og kunnugt er, gert ráð fyrir innflutningi landbúnaðarvéla fyrir 6,9 millj. kr. Ríkisstj. lét við þetta sitja að svo komnu. Þó ræddi ég á fundi, sem fjárhagsráð átti við ríkisstj. um innflutningsáætlunina, um nauðsyn þess, að fluttir væru inn nokkrir jeppabílar á þessu ári, og benti á það, að sífelldar fyrirspurnir frá bændum um jeppabíla hrúguðust upp, bæði í stjórnarráðinu og víðar, og minnti á þá staðreynd, að nú þegar eru um 80 menn með innflutningsleyfi upp á vasann fyrir jeppabílum, sem ekki hefur verið fullnægt. Fjárhagsráð hefur tjáð ríkisstj. og staðið á því fast, sem ég tel ekki ástæðu til að rengja, að eins og innflutningsáætlunin væri útbúin væri útilokað á þessu ári að flytja inn jeppabíla, nema það gengi út yfir önnur landbúnaðartæki, og það vildum við ekki sætta okkur við. Þegar kom nokkuð fram á vorið, þá sýndi það sig, að búið var að ráðstafa það miklum leyfum til innflutnings landbúnaðarjeppa, samkvæmt upplýsingum fjárhagsráðs, að það voru að stranda hjá þessari stofnun beiðnir um innflutning á nauðsynlegustu landbúnaðarvélum, t. d. heyskaparvélum og enn fremur sláttuvélarljáum, þar sem svo langt var komið með leyfisveitingar í sambandi við þennan ákveðna lið. Ég skrifaði þá fjárhagsráði og lagði á það áherzlu, að þessi leyfi yrðu veitt, fyrst og fremst fyrir heyskaparvélum og nokkrum stórtækum vinnuvélum. Það bar ekki árangur í bili, en síðar fór ég á fund ráðsins og ræddi ýtarlega um þetta mál, og varð það úr, að viðbótarleyfi voru veitt fyrir þessum vélum, sem ég hef nefnt, heyskaparvélum, þó að talið væri, að þá væri búið að sprengja hina upphaflegu innflutningsáætlun. Hve mikið gefið hefur verið út af leyfum fyrir landbúnaðarvélum, veit ég ekki, en ég hef skýrslu frá viðskiptanefnd um það, hvernig þessum leyfum var komið 30. júní í vor, en samkvæmt henni var búið að gefa út leyfi fyrir landbúnaðarvélum á þessu ári, sem námu 7.617.840 kr., eða um 700 þús. kr. fram yfir það, sem áætlað hafði verið á innflutningsáætlun fjárhagsráðs. Eins og ég sagði, veit ég ekki, hvort miklu hefur verið bætt við frá þeim tíma, en hygg, að það hafi verið lítið. En frá því í júní var mér ljóst, að taka varð þessi mál fastari tökum. Þetta eru allt nauðsynlegar vélar, sem inn hafa verið fluttar, en mér var ljóst, að þær vélar, sem leggja þurfti mesta áherzlu á, voru hinar stórvirku vinnuvélar, sem jarðræktarsamböndin þurfa á að halda til starfa sinna, og að nauðsynlegt væri, að þær gengju fyrir öllum öðrum vélum. Af þessum ástæðum ákvað ég að láta gera áætlun yfir væntanlegar þarfir búnaðarsambandanna á næstu árum fyrir þennan vélakost. Ég fól Búnaðarfélagi Íslands að gera þessa áætlun, bæði vegna þess, að ég gat ekki staðið í þessu sjálfur, en þar að auki hefur Búnaðarfélag Íslands langmesta þekkingu á þessum hlutum og forgöngu fyrir bændastéttina, og lagði ég fyrir Búnaðarfélagið að koma þessari áætlun svo áfram til fjárhagsráðs, til þess að það gæti legið fyrir einhver grundvöllur fyrir innflutningsáætlun næstu ára. Frá þessari skýrslu gengu þeir í sameiningu búnaðarmálastjóri og landnámsstjóri, og að henni gerðri var hún send til fjárhagsráðs hinn 30. júní í sumar. Í skýrslu þessari segir:

„Af 48 ræktunarsamböndum og ræktunarsambandsdeildum, er stofnuð hafa verið, hafa 7 alls engan vélakost fengið og flest hinna vantar einhvern hluta af áætluðum vélakosti.

Eftirfarandi tölur sýna vélavöntunina hjá samböndum, er byrjað hafa rekstur:

Í notkun

Áætluð

Vöntun

eru:

Þörf:

dráttarvéla:

Beltisdráttarvélar

ca.

30

ha.

18

33

15

-

40

-

17

33

16

-

50

-

4

4

0

Dráttarvélar til jarðvinnslu á hjólum 23-30 ha.

21

54

33

Samtals

60

124

64

Fyrir tveimur árum var áætluð þörf landbúnaðarins fyrir skurðgröfur, og er tala þeirra 55, en að framræslu eru nú starfandi 30 skurðgröfur. Vöntun á þeim er því 25. Ekkert hefur breytzt síðan, er raski þeirri niðurstöðu.

Nú eru 24 hreppabúnaðarfélög í landinu, sem enn hafa ekki fengið neinn vélakost, og ekki eru talin í framangreindum tölum, þar af 7 ræktunarsambönd og 13 einstök hreppabúnaðarfélög, og áætla ég nauðsynlegan vélakost þeirra:

15 beltisdráttarvélar 40–50 hestafla

8 dráttarvélar á hjólum 23–30 hestafla.

Vélakosti þeim, sem vantar, þurfa að fylgja tilsvarandi plógar, ein- til þrískornir, diskaherfi frá 16–32 diska, rótherfi, fjaðraherfi og dráttarvagnar til flutnings verkfæranna. Það er ljóst, að þau félög, sem engan vélakost hafa fengið, geta litlum framkvæmdum hrundið af stað í ræktun, þó að nokkur þeirra notist nú við gamlar, lítt nothæfar vélar, 10–15 ára, og einstöku heimili noti heimilisdráttarvélar, 16–19 hestafla, til jarðvinnslu. Það er því brýn nauðsyn, að sem fyrst fáist bætt úr þeirri vélavöntun, er hér um ræðir“.

Ég held, að ég hafi svo ekki meira að upplýsa í þessu máli, en get aðeins sagt, að það hefur verið gert það, sem mögulegt hefur verið, til þess að byggja öruggan grundvöll undir innflutning landbúnaðarvéla á næstu árum. Hef ég lagt mesta áherzlu á það, að fyrst og fremst verði séð um, að ræktunarsamböndin, sem þegar hafa verið mynduð, verði ekki óstarfhæf vegna vöntunar á vélakosti, og er nauðsynlegt fyrir innflutningsyfirvöldin að standa í nánu sambandi við þá, sem hafa forustu á þessu sviði, svo að það sé tryggt, að það komi fyrst, sem mest á ríður.