28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í D-deild Alþingistíðinda. (4986)

900. mál, landbúnaðarvélar

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Mér skilst á umræðunum, að hv. þm. Ísaf. misskilji hér nokkuð og leggi of mikla áherzlu á það, að einstökum liðum beri ekki saman upp á tölu. Innflutningsþörfin til þeirra búnaðarsambanda, sem stofnuð hafa verið og gert sínar áætlanir, er gefin, og þar er byggt á staðreyndum. Svo er vitanlega ekki unnt að segja til um þörfina að öðru leyti alveg upp á vél, og hljóta þar að verða skiptar skoðanir. Enda má ekki taka þetta eins og pöntun, sem lögð sé fyrir fjárhagsráð, heldur áætlun um fjármagn, sem lagt sé fyrir til þessara hluta, og það vill nú til, að sú heildarupphæð, sem báðir aðilar áætla, er næstum að segja sú sama. Auðvitað eru verðtölur verkfæranefndar samkv. söluverði innanlands, en tölur þær, sem Búnaðarfélagið reiknar með, gjaldeyristölur, en niðurstöðutölur beggja eru nær hinar sömu, og það er aðalatriðið. Lífið sjálft skiptir heildarupphæðinni í einstaka liði, eins og bezt hentar, þegar pantanirnar koma og ákveða, hvað mikið þarf af hverju einu, svo að það mun ekki valda neinum erfiðleikum fyrir fjárhagsráð og viðskiptanefnd, aðeins ef það vill sjá um, að gjaldeyrisupphæðin í heild sé fyrir hendi.