24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í D-deild Alþingistíðinda. (5143)

916. mál, tímarita- og blaðasafn Helga Tryggvasonar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég er ekkert að kvarta yfir því, sem fram kemur, en ég vil benda mönnum á það, að ef þessi fyrirspurnatími á að koma að gagni, þá eiga menn að nota hann til að fá upplýsingar, en láta síðar í ljós, ef þeir eru hissa yfir því, sem svarað er. Það er heppilegra til þess að gera ekki þessa góðu hugmynd með fyrirspurnir og svör að engu og eyðileggja hana. — En út af ræðu hv. þm. Barð. gæti ég haft tilefni til að halda langa ræðu, en ég ætla ekki að gera það. Það væri misnotkun á fyrirspurnatímanum. Ég ætla að upplýsa það, að ríkisstj. var sammála um að nota þessa heimild, eins og tilboðið að lokum lá fyrir frá eiganda safnsins. Ég hygg, að hv. þm. Barð. sé einn landsmanna um þá skoðun, að hér hafi verið keyptur auvirðilegur hlutur. Þetta safn er alveg einstakt í sinni röð, ekkert hliðstætt til. Ég tel alveg gersamlega óhætt að fullyrða, að það hefði verið með öllu óbætanlegt tjón, ef það hefði sundrazt, og það er óhætt að bera það undir bókfróða menn, hvort óskynsamlegt hafi verið að kaupa það, þó að eigandinn héldi því í þessu verði. Að öðru leyti mun ég ekki munnhöggvast um þetta hér.