09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í D-deild Alþingistíðinda. (5390)

939. mál, embættisbústaðir dómara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég er sammála því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, að það er sjálfsagt að miða að því, að ekki verði farið fram úr fjárveitingum. Varðandi þær aðgerðir, sem hér um ræðir, er það hins vegar svo, að það er, eins og hv. þm. veit, örðugt að sjá fyrir nákvæmlega, hvað framkvæmdirnar muni kosta, og þótt ég hafi lesið hér upp tölur um áætlaðan kostnað við þessar byggingar, hafa þær upphæðir ekki nærri allar verið greiddar úr ríkissjóði enn sem komið er, þó að auðvitað lendi á ríkinu að borga það fyrr eða síðar. Það getur ekki hafa verið ætlunin hjá ríkinu, að fé yrði fyrir fram lagt til hliðar til bygginganna, heldur að það yrði borgað jafnóðum, og virðist ekki óeðlilegt, að á þessum byggingum hvíli nokkrar skuldir um nokkurt skeið, eins og á ýmsum öðrum, þannig að ekki er hægt að ætlazt til, að þetta sé allt látið í té jafnóðum.

Hv. þm. dró í efa, hvort rétt væri að byggja yfir dómara, eins og ákveðið hefur verið í l., en ég get fullyrt, að ég hef staðið fast á móti óskum fjölda dómara, sem við mig hafa verið bornar fram um byggingar í þessu skyni. Ég hef sannfærzt um það af eigin raun, að aðbúnaður þeirra er með öllu óhæfur, en hef orðið að standa á móti þessum óskum, þar sem ekki hefur verið til fé til ráðstöfunar í þessu skyni, þannig að ég hef reynt að halda verulega í þetta fé. Þann tíma, sem ég hef gegnt þessu, hefur ekki verið byrjað að byggja nema einn embættismannabústað. Hitt er rétt, að keyptir hafa verið bústaðir á Siglufirði og í Búðardal, en það reyndist alveg óhjákvæmilegt. Hitt er rétt, að þetta kostar allt verulegt fé, og ég er sammála því, sem fram kom við umr. um fsp. á dögunum, að þörf er á að endurskoða þessa löggjöf, ekki aðeins varðandi bústaði héraðsdómara, heldur einnig varðandi bústaði annarra embættismanna, og væri því eðlilegast að ræða það allt í heild, en taka ekki þennan litla hóp út úr.