06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í D-deild Alþingistíðinda. (5464)

945. mál, kvikmyndahús háskólans

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ástæðan til þessarar fyrirspurnar er sú, að það hefur vakið óánægju hjá kvikmyndahúsaeigendum og þeim, sem kvikmyndahús sækja, að kvikmyndahús háskólans, Tjarnarbíó, sem nýtur ýmissa sérréttinda, hafi rekið óheppilega samkeppni við önnur kvikmyndahús og hafi boðið mikið í myndir og á þann hátt gert öðrum erfiðara fyrir. Ég hef því spurt um þetta til að fá að vita, hvað húsið hafi gefið mikið af sér brúttó og nettó síðan starfræksla þess var hafin. Þá spyr ég einnig um það, sem erfitt er að svara, hve mikið húsið hafi hækkað tilkostnað annarra kvikmyndahúsa með háum boðum fyrir notkun mynda. Og svo að lokum atriði, sem er mikils um vert, hve mikið þetta kvikmyndahús greiði forstöðumanni sínum, sem jafnframt er einn af kennurum skólans, sem árleg laun, þóknun og útgjöld við ferðir.