31.01.1949
Neðri deild: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

13. mál, ríkisborgararéttur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Því miður var ég ekki inni í d., þegar hv. frsm. hóf ræðu sína, en það er aðeins eitt, sem ég vildi segja í sambandi við þetta. Ég þykist vita, að mikið af umsóknum muni enn þá liggja hjá hv. allshn. frá mönnum, sem munu hafa sama rétt hvað snertir dvöl í landinu til þess að öðlast ríkisborgararétt eins og hér er um að ræða. Ég vildi þess vegna, af því að leiðinlegt er að fara að ræða um þessa einstaklinga hér við umr., eindregið mælast til þess, að n. vildi athuga frekar um þetta milli 2. og 3. umr. og jafnvel gefa okkur, sem viljum ræða þetta, kost á að fá að tala við hana um þessa menn. Ég mun ekki koma með brtt. hér, ef n. hefur ekki á móti Því að athuga þessi tilfelli, sem ég þykist vita, að séu allmörg, milli 2. og 3. umr. Ég verð að segja það, að ég er á móti því, að fjórar af konum þeim, sem sótt hafa um ríkisborgararétt og fæddar eru á Íslandi, séu felldar niður af frv. Við höfum áður samþ. það hér í d. að veita konum, sem fæddar eru á Íslandi, en gifzt hafa erlendum mönnum og komið heim aftur, íslenzkan ríkisborgararétt. Það er alveg rétt, að það er óviðkunnanlegt, að þær missa ríkisborgararéttinn um leið og þær fara aftur úr landinu. En væri um karlmenn að ræða, mundu þeir fá þennan rétt, og í raun og veru mun þetta vera þannig, að l. um ríkisborgararéttinn gera engan greinarmun milli kynjanna. Ég álít, að við Íslendingar getum veitt konum, sem fæddar eru hér á landi, meiri rétt en á sér stað í öðrum löndum. Við getum það án þess að breyta l. um ríkisborgararétt. Við höfum áður veitt þeim þennan rétt, og ég álít, að við ættum að gera það nú. Ég hef svo ekkert frekar að segja um þetta nú, en vildi beina þessum tilmælum til n., hvort hún ekki vildi taka til frekari athugunar nokkuð af þeim umsóknum, sem hjá henni liggja.