05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

13. mál, ríkisborgararéttur

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég á enga brtt. í þessu máli, sem ég þarf að mæla fyrir, en kvaddi mér hljóðs í því skyni að segja þá skoðun mína, að ég tel þessar árlegu ákvarðanir Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar stefna í verstu óvissu og grautargerð og hættulegt fyrir Alþingi að halda áfram á sömu braut. Það má sjá á brtt. nú og sömuleiðis ef athuguð er afgreiðslan frá síðasta ári, að niðurstöðurnar eru reikandi og handahóf ræður. Á meðan slíkt teningskast ræður, má alltaf búast við, að verðugur verði skilinn eftir fyrir utan, en óverðugri hleypt inn. Slík afgreiðsla er óhentug og leiðir í ógöngur. Ég tel, að grundvöllurinn fyrir veitingu ríkisborgararéttar eigi að vera fastákveðinn með lögum, svo að ekki þurfi um að villast, þegar sótt er um þann rétt, fullnægi umsækjandi svo þeim skilyrðum, sem lögin setja, þá eigi hann vísan réttinn. Með slíku fyrirkomulagi væru þm. leystir undan þeim vanda, sem þeir nú eru í við veitingu ríkisborgararéttar. Ég mun ekki leggja fram till. hér, á hvern hátt slík löggjöf ætti að hljóða, en þar yrði að sjálfsögðu bæði að tryggja þjóðarhag og hagsmuni viðkomandi manna.

Ég benti á í upphafi míns máls, að handahóf og grautargerð réði við afgreiðslu þessara mála, en ég sagði það ekki til að mæla með eða móti neinum sérstökum till., sem hér hafa komið fram. Það, sem vakir fyrir mér í þessu máli, er, að fundin verði heppileg leið fyrir þá þm., sem utan við þessar till. standa og ekkert þekkja til þeirra manna, sem sækjast eftir ríkisborgararétti, og leysa þá með því undan að nota happa- og glappaaðferðina, sem nú er þeirra eina leið. Til þess að beita engan órétti, þá mun ég gera öllum þeim till., sem nú liggja fyrir, jafnt undir höfði og sennilega segja já við þeim öllum, en vænti, að sett verði um þetta mál lög, sem hafi greinileg ákvæði, svo að ekki þurfi að renna blint í sjóinn við veitingu ríkisborgararéttar í framtíðinni.