29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni. Ásgeirsson):

Herra forseti. Eins og ég skýrði frá síðast, þegar þetta mál var til umr., þá hafði ríkisstj. undirbúið frv. og borið það fram í því formi, að gert var ráð fyrir, að þetta fyrirtæki yrði reist og rekið af ríkinu, og eins og ég sagði, þá voru þær fyrirmyndir að nokkru leyti sóttar í eldri l., eins og l. um síldarverksmiðjur ríkisins. Var þetta gert vegna þess, að við töldum, að það væri útilokað með jafnrisavaxið fyrirtæki og þetta á íslenzkan mælikvarða að koma því upp nema fá til þess beinan stuðning ríkisins.... Ég var kominn að því að ræða um það í sambandi við þær brtt., sem fram hefðu komið hér í hv. Ed. um það, að skotið væri inn í frv. ákvæði um það, að heimilað væri að gera tilraun til að safna eigin fé til verksmiðjunnar sem framlögum bæði frá einstaklingum, félögum og að nokkru leyti frá ríkinu sjálfu, sem kæmi til viðbótar, sem á vantaði þar til vissu lágmarki væri náð með hlutafé. Þegar hér var komið og með því að hæstv. fjmrh., sem tók þátt í þessum umr., mælti mjög eindregið með þessari breyt., fannst mér sjálfsagt að taka till. um hana til athugunar og ræða bæði við tillögumennina og hv. landbn. um þetta atriði. Ég vil ekki bera ábyrgð á því að beita mér gegn slíku ákvæði um, að tilraunir yrðu gerðar til þess að afla þessu fyrirtæki viðbótarfjár til stofnunar þess fram yfir það, sem ákveðið var í frv. sjálfu, og ég vildi ekki bera ábyrgð á því að eiga það á hættu, að málið e.t.v. strandaði hér í þessari hv. d. fyrir þær sakir, að þetta ákvæði fengist ekki sett inn í l. Auk þess væri þessu fyrirtæki mikill styrkur að því að geta fengið inn í fyrirtækið sem eigið fé, ef ég mætti svo segja, eða áhættufé, sem það undir öllum kringumstæðum á að halda í fyrirtækinu og ekki að greiða niður eins og almennt lánsfé. Og þó að það sé ekki nema einn fjórði hluti af því, sem gert er ráð fyrir, að verði stofnkostnaður fyrirtækisins, þá er þetta mikill stuðningur fyrir fyrirtækið. Það varð því að samkomulagi milli hv. landbn. og ríkisstj., get ég sagt, að gera þessa tilraun, sem getur, eins og ég sagði áðan, orðið mikill styrkur fyrir verksmiðjuna, ef það tekst að innbyrða þannig 10 millj. kr. fyrir þetta fyrirtæki í eigin fé. Hins vegar setur það málið í enga hættu, þó að þetta ákvæði verði sett inn í lögin, því að ef ekki tekst að fá þetta fé á þennan hátt, þá heldur málið áfram á þeim grundvelli að öllu leyti, að því er til stofnkostnaðarins kemur, sem lagður var í frv. í upphafi. — En úr því að búið er að taka upp þessa stefnu, að þetta fyrirtæki geti orðið rekið sem hlutafélag, get ég ekki fallizt á það hjá hv. 8. landsk., að það séu óeðlileg forréttindi eða fríðindi, sem prívatkapítalinu er veitt með þessu frv. og brtt. n., þar sem gert er ráð fyrir, að prívatkapítalið og hluti af rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins geti orðið 4 millj. kr., en þá komi 6 millj. kr. á móti sem framlag frá ríkinu, og ef svo verði, fái prívatkapítalið að kjósa tvo menn af fimm í verksmiðjustjórnina, m.ö.o. hlutfallslega jafnmarga og hluti sá, sem prívatkapítalið og rekstrarsjóður áburðarsölu ríkisins legði fram af því fé, sem væri lagt fram alls sem óafturkræft hlutafé. Samkv. þessum brtt. leggur ríkið 3/5 hluta af höfuðstólnum og fær 3/5 í stjórn fyrirtækisins, en aðrir leggja fram 2/5 hluta af höfuðstólnum og fá 2/5 hluta í stjórninni. Hitt er annað mál, að það lánsfé, sem til verksmiðjunnar væri fengið, er með ábyrgð ríkissjóðs. Það er rétt, það er ætlazt til þess. En þá er fyrst þess að geta, að þó að ríkið að sjálfsögðu sé þar í hættu, þá er hlutaféð fyrsta áhættuféð, og þannig kemur ábyrgðin þyngst niður á þá aðila, sem leggja það fram að tveimur fimmtu hlutum, en það eru einstaklingar og hlutafélög og ríkissjóður hvað snertir rekstrarsjóð áburðarsölu ríkisins. En ríkissjóður fær að sjálfsögðu ákvörðunarrétt innan þessara hluthafa að tiltölu við framlag sitt. Og þeim, sem falið verður af ríkinu að fara með þetta fé, sem yrði framlag úr rekstrarsjóði áburðarsölunnar, honum verður falið það þannig af ríkisins hálfu, að ríkið fái þar eðlilega þátttöku, þannig að ríkið fari að einum fjórða hluta með ákvörðunarrétt um valið á þessum 2/5 hlutum verksmiðjustjórnarinnar. Og ég sé ekki, enda þótt ríkið ábyrgðist þarna fyrir þetta fyrirtæki allmikið fé, að það sé verið að skapa með því sérstakt fordæmi. Ríkið er nú þegar í ábyrgð fyrir marga tugi fyrirtækja, bæði fyrirtæki einstaklinga og félaga, á ýmsan hátt. Og það er ekki gerð nein krafa til þess, þó að ríkið gangi þannig í ábyrgðir samkv. l., eins og það hefur gert, að það fái neinn sérstakan rétt til stjórnar á viðkomandi fyrirtækjum. Þær stjórnir, sem með þau fyrirtæki fara, eru kosnar af hluthöfum samkv. hlutafélagalögunum eða af þeim félögum, sem reka fyrirtækin og eiga einhvern hlut í þeim, hverju um sig. En ríkið hefur ekkert með rekstur þessara fyrirtækja að gera að öðru leyti. Ég sé því ekki ástæðu til þess, enda þótt ríkið ábyrgðist lán fyrir þetta hlutafélag og það allmikla fúlgu, að gerðar séu kröfur til þess, að ríkið hafi ríkari afskipti af málum þessa hlutafélags heldur en það hefur af málum annarra hlutafélaga, sem ríkið ábyrgist lán fyrir. Ég sé ekki, — þó að farið sé inn á þessa leið, — að óeðlilegt sé, að hluthafarnir, aðrir en ríkissjóður, fái þarna rétt til áhrifa á stjórn og rekstur þessa fyrirtækis á móts við þau hlutafjárframlög, sem þeir leggja í fyrirtækið, sem er fyrsta áhættufé verksmiðjunnar. Ég vil því endurtaka það, að ég óska eftir því, að þessi brtt. verði samþ., og það fyrst og fremst af þeim ástæðum, að ég vil ekki bera ábyrgð á því að hrinda frá þessu fyrirtæki hugsanlegum 10 millj. kr. sem eigin fé og áhættufé í þetta fyrirtæki, ef þess er kostur, að það verði lagt í þetta fyrirtæki sem slíkt, og að fyrir þær sakir, að þessum möguleika væri hafnað, kynni þá svo að fara, að fyrirtækinu yrði fjár vant, og tel ég því rétt, að þessi heimild verði sett inn í lögin og notuð, ef kostur er. En hins vegar sé ég ekki, að fyrirtækinu sé nein hætta búin, þó að þetta ákvæði sé samþ., því að nái þetta ekki fram að ganga, þegar til stofnunar verksmiðjunnar kemur, þá er hin leiðin opin eftir sem áður, sem í frv. er nú gert ráð fyrir.