05.05.1949
Neðri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Landbn. hefur athugað þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Ed., og ég skal taka fram, að sá meiri hl. landbn., sem stóð að afgreiðslu þessa frv., eins og það var afgr. hér frá Nd. í upphafi, mælir með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir. N. hefur haft viðtal við atvmrh. um þá meginbreyt., sem gerð var á frv. í Ed., þ.e. um 13. gr. frv., það nýmæli, sem þar var sett inn, að ríkisstj. hefði heimild til þess að stuðla að því, að myndað yrði hlutafélag til þess að koma upp og reka áburðarverksmiðjuna samkv. þeim till. eða reglum, sem settar eru í gr. Það kom fram hjá sumum nm., að þeim þótti þessi upphæð, 4 millj. kr. frá prívatmönnum eða fyrirtækjum öðrum, en ríkinu, sem vildu leggja fé í fyrirtækið, tæplega það mikil, að rétt væri að fara að gera breyt. eins og þessa á l. þess vegna. En eftir að hafa átt viðtal við ráðh. sá n. eða meiri hl. hennar ekki ástæðu til þess að fara að gera brtt. um þetta atriði og vill því mæla með 13. gr. eins og hún er nú. — Ég skal taka það fram, út af atriði, sem bar á góma hér við fyrri hl. þessarar umr. hjá hv. þm. Ísaf., þar sem hann bendir á, að ástæða gæti verið til að hafa nokkru fyllri ákvæði í 13. gr. varðandi ýmis atriði um stofnun hlutafélags, að n. tók þetta einnig til athugunar og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri þörf á að gera það. Viðvíkjandi því atriði t.d., sem hv. þm. Ísaf. nefndi sérstaklega, að ástæða gæti verið til að taka fram, að það ætti að leggja í tryggingarsjóð verksmiðjunnar áður en arðsúthlutun færi fram, þá lítur landbn. svo á, að þetta sé sjálfsagður hlutur, og telur, að hér sé um fasta venju að ræða, en vill lýsa yfir til frekara öryggis, að hún hefur þann ákveðna skilning á frv., að þetta beri að gera, og vill láta fylgja, að þetta verði tekið upp í reglugerð varðandi rekstur verksmiðjunnar, þegar þar að kemur. N. sá ekki ástæðu til að fara að hrekja frv. milli deilda á síðustu dögum þingsins t.d. út af þessu.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um frv., eins og það liggur nú fyrir, og læt því máli mínu lokið.