04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs af tveimur ástæðum. Önnur er sú, að ég þarf að fá upplýsingar, en hin ástæðan er sú, að ég vil benda á ákveðið atriði í sambandi við þetta frv. til athugunar fyrir n. Upplýsingarnar, sem ég vil fá, eru þær, hvort hægt sé 16. júlí 1948 að ákveða toll af benzíni, sem er flutt inn í janúar og febrúar 1948, eða af hverri annarri vörutegund, sem inn er flutt, t.d. sykri eða nauðsynjavöru. Er þetta hægt? Stenzt þetta lög? Þegar engin l. eru í gildi frá 1. janúar til 16. júlí um annan toll en fjögurra aura, getur þá Alþingi komið og sagt mönnum að borga viðbótartoll af benzíni, sem þeir eru búnir að kaupa og nota? Það er ákaflega hæpið. Það hefur verið talið hæpið, hvort skattalöggjöfin, sem Alþ. setur, geti náð aftur fyrir sig, af tekjum frá árinu á undan. Það eru lögfræðingar í n., og ég geri ráð fyrir, að þeir geti úr því skorið, hvort þetta er hægt. Mér finnst það ákaflega hæpið, réttlætiskennd mín segir mér það, jafnvel þó að gleymzt hafi að framlengja lögin, bæði af stj. og fjvn. Alþ.

Hitt atriðið, sem ég vildi leyfa mér að benda á í þessu sambandi, er það, að ég tel benzíntollinn allt of lágan hér á landi. Ríkið á sín strandferðaskip, og það er nú svo, að það er ódýrara að senda vörur með bílum héðan úr Reykjavík, bæði til Akureyrar, austur á land og til Breiðafjarðar og Stykkishólms, heldur en að senda þær með skipum. Skipin sigla hálftóm með allt, sem þarf til að láta þau ganga, meðan allir bílar eru uppteknir við að flytja vörur út um landið, af því að það er ódýrara að flytja með þeim. Ég er ekki að segja, að við eigum að hætta að láta skipin sigla. Ég held því fram, að til þess að fá meira samræmi í flutningana með bílum og skipum og til þess að ekki verði stórtap á útgerð ríkisskipanna, þá sé sjálfsagður hlutur að hækka benzíntollinn. Það mætti setja um það sérstök lög, þar sem hér er um að ræða brbl., sem ekki gilda nema til áramóta.

Eins og áður er fram tekið, tel ég mjög hæpið, að hægt sé að samþ. þessa hækkun á benzíntolli svona löngu eftir á, því vildi ég skjóta til n. og enn fremur því, í sambandi við þær brtt., sem hér eru komnar fram, hvort ekki ætti um leið að hækka benzíntollinn verulega, a.m.k. um 10 til 20 aura. Um það, hvort um leið ætti að taka af benzíntollinum til að brúa stórár, sem ekki er veitt fé til í fjárl., þá var það gert áður, og ætti að vera mjög til athugunar, hvort ekki ætti að gera það aftur. Það er ekki venja, þó að það hafi verið gert, að binda það við sérstaka brú. Það var hverjum manni ljóst, að með því að byggja þá brú, sparaðist á fáum árum sá gjaldeyrir, sem þurfti að leggja fram fyrir efni í hana, í sparnaði á benzíni og viðhaldi bíla, því að vegurinn til Austurlands styttist um 82 km. Ég vil biðja hv. n. að taka það til athugunar, hvort ekki ætti að taka upp aftur þann sið að leggja til hliðar af benzíntollinum til að brúa stórár. — Ég vænti þess svo að endingu að geta fengið nú strax svör frá lögfræðingum n. um, hvort hægt sé að leggja þennan toll á aftur fyrir sig, og enn fremur að n. taki til athugunar, hvort ekki eigi að hækka benzíntollinn verulega og leggja af honum í brúasjóð.