19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Þótt ég hafi áður gert grein fyrir afstöðu minni og meiri hl. menntmn. og frv. sé nú komið til 3. umr., þá vil ég rifja upp nokkur málsatriði. Kemur það til af því, að eftir 2. umr. hefur afgreiðslu málsins verið frestað nokkrum sinnum vegna þess, að einn dm., hæstv. dómsmrh., hafði hreyft athugasemdum við málið, en hann hefur nú um skeið verið fjarverandi sökum annarra skyldustarfa. Það mátti því gera ráð fyrir því, að hann mundi vilja koma athugasemdum sínum að, áður en frv. færi lengra. Annars hefur hér ekkert nýtt fram komið fram yfir það, sem áður lá fyrir í málinu. En þar sem fram hafa komið óskir um það, að frekari vitneskja lægi fyrir um málið, þá var leitað umsagna landsbókavarðar og háskólabókavarðar um málið og voru þeir kvaddir á fund með n. Samkvæmt skýrslu landsbókavarðar yrði það í sambandi við þann starfsmannafjölda, sem nú vinnur við landsbókasafnið, að lögfest verði, að þar séu 6 bókaverðir. Að meðtöldum landsbókaverði eru því á launum nú 7 bókaverðir. Enn fremur er starfandi bókband við landsbókasafnið, og auk þess eru svo greidd laun fyrir dyravörzlu og umsjón. Það breytir því engu, þó að þessar bókavarðastöður séu lögfestar. Nú, vörðunum hefur fjölgað smám saman vegna þeirrar þróunar, sem orðið hefur, og salirnir eru nú lengur opnir en áður hefur tíðkazt. Landsbókavörður taldi, að safnið gæti ekki komizt af með færri menn, því að sú þjónusta, sem látin er í té á safninu, er mjög yfirgripsmikil, svo sem skráning bóka og fleiri verkefni, sem þar að lúta. Þá er og starf við bókaskipti á milli landa. — Þetta er nú álit landsbókavarðar.

Háskólabókavörður segist ekki hafa nema 1–2 aðstoðarmenn, og eru þeir úr hópi norrænustúdenta og fá laun sín greidd úr sáttmálasjóði. Eru þessi laun mjög smávægileg, og fá þeir stúdentar, sem taka þetta sem ígripavinnu, ekki það mikil laun greidd, að það megi kalla það beint launaðar stöður. Nú, þegar rætt var um verkaskiptingu safnanna, þá kom í ljós, að línurnar, sem dregnar skyldu á milli þeirra, voru e.t.v. ekki eins glöggar og skyldi, en það virðist vera eðlilegt að ákveða háskólabókasafninu það starfssvið, að þar verði fyrst og fremst um safn að ræða, sem komi að sem beztum notum fyrir vísindi og bókmenntir háskólans, og að þar verði frekar um sérsafn vísindalegra rita á sem flestum sviðum að ræða, hins vegar verði landsbókasafnið frekar almennt bókasafn. Það er skoðun bókavarðanna, að með þessu frv., ef að l. verður, verði tryggð skipting í þá átt, sem ég nefndi. Annað safnið verður þá frekar fyrir menntalífið með tilliti til deilda háskólans. Markmiðið verður því að reyna að stefna að því smátt og smátt að þessari skipan málanna verði á fót komið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta nú, en ef einhverjar till. koma fram til bóta, þá verður haft opið eyra fyrir því hjá nefndinni.