11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Áður en þetta frv. fer til n., vil ég lýsa því yfir, að ég tel það til bóta frá því, sem nú er, en í sjálfu sér hefði ekki þurft að lögfesta þetta frv., ef hæstv. ríkisstjórn hefði hlustað á þá gagnrýni, sem kom fram hér á Alþingi, þegar gengislækkunarlögin voru sett, en þá mátti í engu um þoka. En nú hefur hæstv. ríkisstjórn orðið að láta svolítið undan síga, þ.e.a.s., þetta frv. er fyrsta skrefið

til undanhalds í þessum gengislækkunarmálum, að vísu lítið, en sýnir þó, að hæstv. ríkisstjórn er orðin hrædd við þessi gengislækkunarbjargráð sin. En ég vil undirstrika, að það er fleira, sem þarf að laga í þessum lögum, og vil ég á því sambandi sérstaklega minnast á togaraháseta og kyndara. Með gengislækkunarlögunum var gerð tilhæfulaus lækkun á kaupi þessara manna. Nú fá þessir menn svona 2.000 kr. fyrir túr. eða þ.e.a.s. fyrir mánuð, og þegar veitt er til söltunar, miklu minna. Þetta atriði þarf að taka til verulegrar athugunar, og er nauðsynlegt, að það sé lagað sem fyrst. En ég tel það sem sagt mjög mikilsvert, að hæstv. ríkisstjórn er þegar farin að hörfa og farin að falla frá fullyrðingum sínum, sem hún gaf, þegar lögin voru sett. Og býst ég við, að fleiri spor til undanhalds komi á eftir.