15.05.1950
Neðri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Ég hefði nú ekki faríð að ræða þetta mál almennt, ef hv. 7. þm. Reykv. hefði ekki gefið sérstakt tilefni til þess, og skal ég reyna að vera eins stuttorður og mér framast er unnt.

Hv. 7. þm. Reykv. talaði um, að það mundu verða miklu lakari kjör hjá almenningi nú, ef atvinna brygðist. En það er ekki aðeins um það að ræða, heldur er beinlínis ofan frá skipulagt atvinnuleysi yfir fólkið, t.d. með ráðstöfunum fjárhagsráðs í sambandi við byggingarleyfi, og er engu líkara en þessar ráðstafanir séu gerðar til þess að reyna að skapa aðstöðu, sem atvinnurekendum yrði heppileg, ef til átaka skyldi koma milli verkalýðsins og atvinnurekenda.

Þá minntist hv. þm. á brauðverðið og talaði um, að ef bakarar hækkuðu kaup sitt, yrði brauðverð að hækka. Bakarar hafa nokkrum sinnum hækkað kaup sitt á undanförnum áratug, án þess að brauðverð hafi hækkað mikið, en þegar gengislækkunin er komin í ljós, er brauðverðið á einni viku hækkað um 50%. Brýnasta nauðsynjavara almennings, sem enginn getur án verið, er hækkuð um hvorki meira né minna en 50%. Það er þarna, sem gengislækkunarl. eru að verki. Hitt er blekking, að halda fram, að þegar verkalýðsmenn á Íslandi hækka sitt kaup, hækki vöruverðið. Það er blekking vegna þess, að helmingurinn af öllu því, sem íslenzkir verkamenn kaupa, eru útlendar vörur, sem lúta öðrum lögmálum, en kaupgjald hér á Íslandi. Það er þess vegna alveg út í hött að halda því fram, að þótt einn verkamaður fái laun sín hækkuð hér á Íslandi, þurfi það að hækka vöruverð í landinu.

Hv. 7. þm. Reykv. viðurkenndi, að það væri allmikil] gróðamunur og meiri en æskilegt væri, en kauphækkun væri ekki aðferðin til þess að ná hluta af þeim gróða. Þetta er reginfjarstæða, því að kauphækkun er svo að segja einasta aðferðin, sem verkamaðurinn hefur til þess að ná hluta af þessum gróða. Og ef menn álíta, að þessi gróði sé meiri en æskilegt er, ber Alþingi að gera ráðstafanir til þess að minnka þennan gróða og úthluta honum meir til almennings, áður en það gerir kröfur til þess, að menn noti ekki sína kauphækkunaraðferð. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega benda hv. 7. þm. Reykv. á, þegar hann talar um, að kauphækkanir hafi ekki orðið verkalýðnum til verulega mikils góðs, að þessar kauphækkanir hafa ekki aðeins stórbætt kjör verkalýðsins á Íslandi, heldur einnig stórbætt aðstöðu þjóðarinnar í heild, því að þá tókst henni að draga til sín miklu meira af útlendu fjármagni en áður. — En sem sagt, ég ætla ekki að fara að tefja fyrir þessu máli hér. Þó að í því felist engin stór bót, er þó gott, að það nái fram að ganga, og vil ég ekki verða til þess að tefja fyrir því, að það fái afgreiðslu.