25.11.1949
Efri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

27. mál, bæjarstjórn í Húsavík

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. þá yfirlýsingu, sem hann hefur hér gefið, að von sé á frv. um sérstaka skipun á stjórn stærri kauptúna, eða frv. um sveitarráðsmenn. Ég hafði einmitt hugsað mér í sambandi við þetta frv. að spyrja hæstv. ríkisstj., hvað hún hefði gert út af þeirri till., sem samþ. var af Alþ. 25. febr. 1949 og við þm. Eyf. bárum fram. Þar sem nú er von á frv., hef ég í raun og veru ekki meira um þetta að segja að svo stöddu annað en það, að ég fagna því, að það skuli nú koma fram. Ég vil þó taka fram í þessu sambandi, að þar sem sveitar- og bæjarstjórnarkosningar fara nú fram í janúarmánuði n.k., tel ég áríðandi, að löggjöf þessi gangi í gildi fyrir áramót, eða áður en þessar kosningar fara fram. Mér virðist svo sem það skiptist í tvö horn með hin stærri kauptún eftir því, hvort sýslumaður hefur þar aðsetur eða ekki. Ef hann býr í kauptúninu, eins og á Húsavík, er það sama og enginn kostnaðarauki fyrir ríkissjóð að gera hann að bæjarfógeta. Aftur á móti munu kauptún, sem gerzt hafa bæjarfélög, hafa komizt að raun um það, að þeirra eigin útgjöld hafa vaxið, og það er ábyggilega spursmál, hvort það út af fyrir sig er svo mikið hagsmunamál fyrir kauptún að slíta tengslin við nærliggjandi sýslu, heldur er það þetta, að í stærri kauptúnum er ekki hægt að fá menn til að gegna oddvitastörfum í hjáverkum, og er því nauðsynlegt að fá þar sérstaka menn til að gegna sömu störfum og bæjarstjórar vinna í kaupstöðunum. Með þessu, sem ég nú hef sagt, er ég alls ekki að boða það, að ég sé á móti þessu frv., sem hér er til umr., meðfram vegna þess, að mér sýnist það útlátalítið fyrir ríkissjóð, þótt það verði að lögum. En það er áreiðanlega rétt leið sem nú hillir undir, að þessum málum verði þannig skipað, að láta hin stærri kauptún hafa starfsmenn til að hafa framkvæmdastjórnina á hendi, og ég fagna því, að frv. um þetta efni er í þann veginn að koma fram á hv. Alþingi.