25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vakti máls á nokkrum atriðum í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og hefur hv. frsm. gert tvö þeirra að umtalsefni. Hann viðurkenndi, að árangur hefði náðst af samningum fjárhagsráðs við hraðsaumastofurnar, en fannst þó víst ekki, að sú skipan væri þess virði að lögfesta hana, nema fleira kæmi til. Ég vil nú segja, að ef hann hefur till. fram að færa um lögfestingu á fleiri slíkum umbótum, þá mundi ekki standa á mér að fylgja þeim, því að það væri fyllilega í samræmi við stefnu míns flokks að minnka verzlunarálagningu og fækka milliliðum. Ef hv. frsm. telur því, að hér sé um fleiri atriði að ræða, þá væri vel, að hann benti á þau, og mundi Alþfl. vera fylgjandi slíkum ráðstöfunum. Ef hins vegar hv. frsm. lætur undir höfuð leggjast að benda á eitthvað slíkt, þá hefur hann enga afsökun með að ganga í gegn lögfestingu á þessu sérstaka atriði.

Út af því, sem ég benti á, að eftirlitið utan Rvíkur væri fellt niður, þá gerði hv. frsm. ekki annað en lesa upp 1. og 2. gr. frv. En einmitt hans upplestur sannaði, að ákvæðið í III. kafla fjárhagsráðsl. er fellt niður. Þar stendur í 16. gr., að verðlagsstjóri hafi með höndum eftirlit með því, að verðlagsákvæðum sé hlýtt og skipi hann sína trúnaðarmenn um allt land til þess að sjá um þetta. Eru fjárhagsráðslögin hér sýnilega miklu víðtækari. Í frv., eins og það liggur hér fyrir, stendur ekkert annað en það, að verðgæzlustjóri ráði starfsmenn sína og trúnaðarmenn í samráði við ríkisstj. að vísu, og hvergi er sagt, að það þurfi annars staðar að vera en í Reykjavík. En í hinum l. er litið svo á, að verðlagseftirlit skuli vera um allt land. Skil ég eigi, ef hv. frsm. vill eigi viðurkenna þetta, og til þess að taka af allan vafa vil ég leggja fram skriflega brtt., þess efnis, að aftan við 2. gr. bætist: um land allt, — svo að eigi sé gengið aftur um verðlagsmálin, en það tel ég ekki fært frá því ástandi, sem nú ríkir í þeim.

Hv. frsm. kom ekki að aðalatriðinu í aðfinnslum mínum við þetta frv., sem er það, að það á að leggja þessi störf ofan á fjárhagsráð, sem hefur orðið að taka að sér innflutnings- og gjaldeyrismálin. Er þó ófremdarástandið orðið slíkt, að allir menn í öllum flokkum eru sammála um, að það sé óviðunandi. Þegar síðan á að leggja eftirlitið að öllu leyti í hendur sömu stofnun, sem getur ekki einu sinni sinnt öðrum störfum sínum, þá er verr af stað farið en heima setið, þ. e. fyrir þá, sem kæra sig nokkuð um eftirlitið. — Nú er algengt á þ., ef um er að ræða einhver mál, sem koma við ákveðnum stofnunum, að þá séu þau send þeim stofnunum til umsagnar. — Nú vil ég spyrja hv. frsm.: Hefur fjárhagsráði verið sagt frá þessu og hefur verið leitað umsagnar þess? Ef svo er, hvert er þá svar þess? Það má vel vera, að málið sé svo langt komið, að engu verði þar um þokað, en sé svo, þá munu þeir samningar koma verðlagseftirlitinu á verri grundvöll. Er þar þá um samninga að ræða til að veikja framkvæmd verðlagseftirlitsins, og mátti þar þó eigi á bæta.

Ég skal svo ekki hafa ræðu mína lengri. Vil ég leyfa mér að leggja hina skriflegu brtt. mína fram hjá hæstv. forseta.