19.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. landbn. hefði vel getað sparað sér meginmál sitt um hina rökst. dagskrártill. mína. Till. mín er um það að fresta framgangi málsins, þar til hægt er að fá heildaryfirlit um þarfir landsins á hverju sviði og hvað er mest aðkallandi. Fjárframlögum úr ríkissjóði verði síðan varið skv. þessu heildaryfirliti. Ég er sammála hv. þm. um það, að þörfin er miklu meiri en hann ræddi um. En ég er ekki sammála honum um, að þessir aðilar eigi að fá allt meðan aðrir fá ekkert. Ég vil benda hv. þm. á: Hvað er mikil þörfin í raforkumálum bænda? Hvað er mikil þörfin í vega- og brúamálum? Hvert mundi stefna, ef við veittum svo að segja ótakmarkað fé til þessara framkvæmda? Það ætti að leiða rafmagn og leggja veg heim á hvert býli, hversu strjálbýl sem sveitin væri. Hvar mundi þetta lenda? Það má lengi segja, að á þessu sé þörf, já, mikil þörf. Þetta mundi auðvitað enda í hreinasta kaos — ringulreið og vitleysu. Það sér hver heilvita maður. Við vitum, að hin þéttbýlu héruð hafa ekki hrifsað mest til sín í þessu máli, heldur hafa það verið fulltrúar bænda hér í Reykjavík. Hvar lendum við með þessi mál, ef fullnægja á öllum þörfum vega, brúa og hafna á þessu þingi? Það er ekki sæmandi fyrir þá menn, sem telja sig fulltrúa fyrir ríkisstjórn landsins, að fullnægja einu verkefni, en veita ekkert til annars. Till. mín er einungis um það að fresta frekari fjárframlögum til þessa, þar til ríkisstj. hefur látið fara fram rannsókn á fjárhag landsins og gert áætlanir um þær framkvæmdir, sem helzt eru aðkallandi. Auðvitað yrði það í beinu hlutfalli við fjárhagslega getu landsins. Hvaða goðgá er þá þessi tillaga mín? Hún er aðeins sjálfsögð, hvað þá að hægt sé að segja, að hún sýni aðeins andúð gagnvart bændastéttinni. Hún er eins heilbrigð og frekast getur verið frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar. Hún er miklu frekar trygging fyrir því, að bændur fái það, sem þeim ber, en allt verði ekki látið vaða á súðum í fjárhagslegum efnum eins og hingað til. Ég get ekki séð, að það sé nein hjálp fyrir bændur, þótt þeir fái veitingu fyrir fjárupphæð einungis á pappírnum, ef ríkið getur ekki staðið við. Auðvitað verður þetta allt að miðast við fjárhagslega getu ríkissjóðs.