13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi segja það, að ég hefði haldið, að réttara væri að láta það koma fram í dagskrártill. að öllu leyti, sem hv. allshn. meinar. Verðlagningin er með lagabreyt., sem gerð er nú á þinginu, lögð svo mjög í hendur fjárhagsráðs, að það er í raun og veru eðlilegra, að menn viti, að Alþ. beinir því til ríkisstj., að hún hlutist til um það við fjárhagsráð, svo og olíufélögin, heldur en við olíufélögin sjálf, að þessi verðjöfnun verði framkvæmd, því að vitanlega fer ríkisstj. ekki að semja sjálf neitt við olíufélögin. Mér datt því í hug, hvort n. vildi ekki ganga inn á ofurlitla breyt. á dagskránni, nefnilega, að hún yrði orðuð þannig, að d. beini því til ríkisstj., að hún hlutist til um við fjárhagsráð og olíufélögin, að þau hagi svo sölu á benzíni og hráolíu, o. s. frv. Ég held, að það næðist betur, sem n. meinar, með því að orða till. svona. Ég kann hálfilla við að afgr. till. héðan, þar sem gert er ráð fyrir því, eftir orðalaginu, að ríkisstj. fari og beinlínis semji við olíufélögin um hluti, sem hún ræður, í gegnum fjárhagsráð, nokkuð mikið yfir og ég fyrir mitt leyti tel, að hún geti ráðið.