24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (3566)

2. mál, heimilistæki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar ég las þessa till. í fyrstu, varð ég alveg hissa. Ég varð hissa af því, að eins og allir vita, þá vilja allir landsmenn fá rafmagn. Nokkrir hafa fengið það. Þeir sitja sólarmegin. Aðrir hafa ekki fengið það, en vilja fá það. En hv. tillögumaður sér bara þá, sem sitja sólarmegin, fyrst og fremst þá, sem í Reykjavík eru, en ekki þá, sem eru úti um land og hafa ekki fengið rafmagn, heldur sitja við tólgarkerti, af því að ekki flytjast inn lampar eða lampaglös, og hafa jafnvel orðið að kaupa skipslampa til þess að hafa eitthvað til að kveikja á. Nei, hún sér sólarbörnin og hvað þau vantar. Þó að fólkið úti um landið geti ekki fengið eldavélar, sem kosta þó ekki nema brot af því, sem rafeldavélar kosta, þá sér flutningsmaður það ekki né hugsar um það fólk, sem við slíkar kringumstæður býr. Þess vegna varð ég hissa á till., því að það þarf ekki nema lítinn gjaldeyri til að fullnægja þörfum þessara manna, sem fá ekki rafmagn.

Mér fannst því sjálfsagt að láta a. m. k. koma fram, að við flm. þeirrar brtt., sem fram hefur komið, viljum leggja áherzlu á, að þessir menn, sem vantar það frumstæðasta, sem þeir þurfa, eins og ljósmeti, til að lýsa — ekki hallirnar, heldur hreysin, sem þeir búa í, eða eldavélar, svo að þeir þurfi ekki að elda í hlóðum, en þær hefur flutningsmaður víst aldrei séð, — geti fengið það. Á þessu er mikill hörgull. Það er ekki svo vel, að þessar tvær eldavélategundir, sem hafa flutzt til landsins og eru það góðar, að þær gefa lítið eftir rafmagni, AGA og Esso, séu fáanlegar nema af mjög skornum skammti. Og það er ekki einungis svo, að þær fáist ekki, heldur fást ekki heldur aðrar eldavélar, sem eru ódýrari og að vísu verri. Það kann að vera, að þetta sé ekki eingöngu gjaldeyrisyfirvöldunum að kenna, það getur verið, að það sé af einhverju ólagi á innflutningnum. En hverjum sem það er að kenna, þá þarf að laga þetta. Eins og málum er nú komið, þá er það svo, að Pétur og Páll eru að veltast með gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þennan og þennan einstakling, sem þarf á þessu eða hinu að halda til að geta myndað heimili. Svona á það ekki að vera. Þeir, sem flytja inn vélarnar, eiga að fá nóg leyfi, svo að menn geti fengið þær þar.

Ég hef þess vegna komið með brtt., því að ég vil, að allir standi jafnt að vígi með að fá frumstæðustu tæki til að geta stofnað sjálfstæð heimili. Þar fyrir aftan hef ég sett aðra málsgrein, sem kann að þykja nokkuð hörð. Hún er sett með tilliti til þessara tækja, sem ég var að tala um fyrir dreifbýlið og þarf ekki nema lítinn gjaldeyri fyrir. Hún er ekki sett með tilliti til raftækja, þó að þeirra sé mikil þörf og megi skilja till. svo. Það er átt við þessi tæki og þessar eldavélar, svo að menn geti eldað matinn ofan í sig og haft ljós, þegar fer að skyggja. Við teljum rétt, að þessi tæki sitji við sama borð og nauðsynlegustu rekstrarvörur til atvinnuveganna hvað gjaldeyri snertir. Ef þessa er gætt, þá kemur það mikið af þessum tækjum til landsins, að menn þurfa ekki að elda í hlóðum eða hafa tólgarkerti, en það hvort tveggja þurfa menn að gera nú.

Ég vænti þess, að hv. n. taki tillit til þessarar brtt. og athugi, að það, sem fyrir flm. vakir, er það, að þessi frumstæðustu nauðsynjaáhöld fái sama rétt til gjaldeyris og venjulegar rekstrarvörur. Það þarf ekki mikinn gjaldeyri, en um þetta þarf að hugsa og fyrir þörfinni að sjá. Það má ekki setja það hjá, eins og hefur verið gert og eins og flutningsmaður þessarar tillögu gerir.