24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

2. mál, heimilistæki

Pétur Ottesen:

Ég get þakkað hæstv. samgmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf um grundvöll þessarar skýrslu. Þó vil ég benda á það, að ef frá þessari skýrslu hefur ekki verið gengið fyrr en í marzmánuði s. l., þá efast ég mjög um það, að þá hafi verið búið að taka endanlega ákvörðun um ýmsar rafveituframkvæmdir, sem hafa orðið á þessu ári. Það er vitað, að slíkar framkvæmdir eru mjög háðar fjárlagaákvæðum. En fjárlög voru ekki afgreidd fyrr en alllöngu seinna en gengið var frá þessari skýrslu. Það getur því verið allmikill vafi á því, að hún a. m. k. nái til allra þeirra framkvæmda, sem gerðar hafa verið á þessu sviði á þessu ári. — Í öðru lagi vil ég benda á, að hæstv. ráðh. talaði hér um veitusvæði. En veitusvæði eru þar, sem rafmagni er veitt annaðhvort frá vatnsvirkjunum eða þá frá smærri stöðvum, sem settar eru upp. Ef þessi skýrsla því eingöngu er miðuð við veitusvæði. þá er ekki vissa fyrir því, að þau einstök heimili, sem framleiða rafmagn fyrir sig, falli undir þessa skýrslu, því að þar er ekki um rafveitur að ræða eftir venjulegri túlkun þess orðs. Og með tilliti til innflutnings á þvottavélum og öðrum slíkum áhöldum, þá er það kannske ekki svo stórt hlutfall af heimilum, þessi heimili, sem framleiða rafmagn fyrir sig. En þar sem ég er upp alinn í sveit og hef dvalið í sveit alla mína ævi, þá þekki ég þar svo vel til, að ég veit, að mjög mikið verk er það, sem nú orðið hleðst á fáar manneskjur við þvotta á sveitaheimilum, og því fullkomlega þess vert, að Alþ. gefi því gaum, að á sem skemmstum tíma og í sem ríkustum mæli sé hægt að fullnægja þeim óskum, sem fram koma um aukinn innflutning heimilisvéla til þess að létta heimilisstörfin í sveitunum.

Skal ég svo ekki blanda mér frekar í þessar umr. En þessi till. fer að sjálfsögðu í n. og fær þar þá athugun, þar sem hægt er að ganga betur til botns í því, sem kann að bera á milli mín og hæstv. ráðh. um þessa skýrslu. Vildi ég óska, að n. tæki til athugunar það, sem ég alveg sérstaklega hef lagt áherzlu á í þessum orðum mínum, þ. e. hvernig á að greiða fyrir því, að á sem allra hagkvæmastan hátt verði fullnægt þörfum þeirra sveitaheimila, sem ég hef rætt um, eftir því sem kringumstæður leyfa, því að lengra komumst við vitanlega ekki á hverjum tíma heldur en innan þeirra takmarka.