24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (3571)

2. mál, heimilistæki

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Til þess að taka öll tvímæli um það, hvað tekið sé með í þessari skýrslu, sem hv. þm. Borgf. minntist á og ég svaraði, skal það tekið fram, að þar eru teknar með allar þær rafveitur, sem vitað er um, að verið sé að byggja, auk þeirra, sem til eru. En vel kann að vera, að til séu einstakir sveitabæir, sem afla sér mótora á árinu til raforkuframleiðslu, en ekki eru með í þessari skýrslu, enda ekki hægt fyrir n. að vita um þá fyrir fram. En um allar rafveitur, sem kallast því nafni hefur hún sjálfsagt vitað, þegar skýrslan var gerð. Og það, sem ber á milli í þessu efni, er áreiðanlega mjög lítið.

Ég vildi þakka það, sem fram kom hér hjá hv. 5. þm. Reykv., að hann virtist geta hugsað sér, að þessi till. breyti ekki þeirri stefnu, sem mörkuð var hér í fyrra, að búa til í landinu þessi tæki, eftir því sem auðið er, fremur en að flytja þau inn. Það er fyrir mér nokkuð stórt atriði, og mér þykir gott að heyra, að þeir, sem að þessari till. standa, — og hv. 5. þm. Reykv. er kannske einn af þeim — geti hugsað sér að fá umbótum í þessum málum komið á veg og náð því marki, sem till. stefnir að, án þess að breytt sé út af þeirri stefnu, sem mörkuð var í þessum málum.

Út af því, sem þessi hv. þm. sagði um álagið á Sogsvirkjunina, þá er það náttúrlega vitað mál, að hvert rafmagnstæki til heimilisnota, sem bætist við á rafveitusvæðinu, eykur álagstoppinn, því að það eru tengd við rafveituna tæki, sem taka margfalt það afl, sem til er í orkuverunum. Það hefur oft verið talað um að flytja til á deginum rafmagnsnotkunina, til suðu og þess háttar. En slíkt verður áreiðanlega erfitt í framkvæmd. Og það er óhætt að slá því föstu sem meginreglu, að hvert rafknúið heimilistæki, sem bætist við á veitusvæðinu, verður til þess að auka álagið á orkuverinu.